Varið Klay Thompson hjá Golden State Warriors ver skot frá Russell Westbrook í oddaleiknum gegn Oklahoma City Thunder í fyrrinótt. Næst er það Cleveland.
Varið Klay Thompson hjá Golden State Warriors ver skot frá Russell Westbrook í oddaleiknum gegn Oklahoma City Thunder í fyrrinótt. Næst er það Cleveland. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NBA Gunnar Valgeirsson Los Angeles Meistarar Golden State Warriors unnu sögulegan sigur, 4:3, á Oklahoma City Thunder í úrslitarimmu Vesturdeildar á mánudagsvöld hér í Kaliforníu og eru þar með komnir í lokaúrslitin gegn Cleveland Cavaliers – sömu...

NBA

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Meistarar Golden State Warriors unnu sögulegan sigur, 4:3, á Oklahoma City Thunder í úrslitarimmu Vesturdeildar á mánudagsvöld hér í Kaliforníu og eru þar með komnir í lokaúrslitin gegn Cleveland Cavaliers – sömu liðin og léku til úrslita í NBA-deildinni í fyrra.

Úrslitakeppnin í Vesturdeildinni var geysihörð að venju og á endanum voru það tvö bestu lið deildarinnar sem þar börðust. Fyrir sjöunda leik Warriors og Thunder hafði mikið gerst í fyrstu sex leikjunum. Thunder komst í 3:1 forystu og var að leika mun betur. Meistaravonir Warriors voru á sama tíma í öndunarvél. Leikmenn meistaranna náðu hins vegar áttum í fimmta leik liðanna í síðustu viku og sneru þessari leikseríu sér í hag í þremur frábærum sigrum í lokin. Allt á sex dögum.

Leikmenn Oklahoma City komu með rétt hugarfar í þennan leik og voru ávallt í forystunni – mest 13 stig – í fyrri hálfleiknum. Enn á ný var það þó þriggja stiga „rigning Golden State“ – í þetta sinn í þriðja leikhlutanum – sem sneri þessum leik við. Klay Thompson fór enn aftur í gang um miðjan þriðja leikhlutann í jöfnum leik og hann lagði grunninn að 26:6 sprengju heimamanna, sem sneri þessum leik algerlega við. Allt í einu voru það heimamenn sem komust í 88:77 og þrátt fyrir að Oklahoma City næði að minnka muninn í fjögur stig þegar rúmar tvær mínútur voru eftir voru það meistararnir sem innsigluðu öruggan sigur í lokin, 96:88.

Þetta var aðeins í tíunda sinn af 243 möguleikum sem lið nær að vinna upp 1:3 leikjastöðu í sjö leikja rimmu. Sannarlega sögulegt afrek Golden State.

Þriggja stiga rigning gerir útslagið

„Þetta var geysierfið leiksería. Þeir eru með gott lið og við urðum að gefa allt okkar í þessa leiki eftir að hafa lent undir eftir fjóra leiki.

Við vitum hins vegar hvað þarf til að komast í lokaúrslitin og við gáfumst því aldrei upp. Það er ekki hægt að taka neitt sem gefið í svona hörkuleikseríu og við vorum tilbúnir þegar á hólminn kom,“ sagði Stephen Curry í leikslok.

Þetta var hreint út sagt frábær leiksería. Oklahoma City lék yfir höfuð betur í þessum leikjum og hefði í flestum tilfellum unnið hana í sex eða sjö leikjum. Liðið skoraði meira í vítateignum, tók fleiri fráköst og virtist hafa betra liðið yfir höfuð. Þeir Kevin Durant og Russell Westbrook virtust óstöðvandi.

Þriggja stiga skotin hafa hins vegar breytt íþróttinni svo mikið að lið eins og Golden State getur hreinlega unnið upp slíka veikleika með því að láta rigna þriggja stiga körfum Það gerðu þeir Klay Thompson og Stephen Curry í síðustu tveimur leikjunum og það gerði útslagið í rimmunni.

Warriors skoraði 84 stigum meira en Thunder úr þriggja stiga skotum í tveimur síðustu leikjunum og það vó meira en góður leikur þeirra Durant og Westbrook fyrir Thunder.

Bæði lið með fullan hóp í lokaúrslitunum

Cleveland var augljóslega langbesta liðið í Austurdeildinni allt keppnistímabilið og átti í litlum vandræðum með andstæðinga sína í úrslitakeppni deildarinnar. Liðið kemur að þeim sökum inn í þessi lokaúrslit án þess að hafa þurft að „taka á honum stóra sínum“ eins og Þursaflokkurinn hafði það um árið áður. Það sama verður ekki sagt um Golden State, sem lenti í tveimur hörkurimmum, gegn Portland og Oklahoma City.

Bæði þessi lið mæta í úrslitarimmuna með alla menn heila, en í fyrra meiddust bæði Kevin Love og Kyrie Irving, þannig að á endanum var atorka LeBron James ekki næg til að hafa betur gegn léttleikandi liði Golden State.

Rétt eins og fyrir ári höldum við á þessum síðum að Golden State sé sigurstranglegra liðið í þessum lokaúrslitum – sérstaklega vegna sterkari keppni í Vesturdeildinni. Hjartað er hins vegar enn með Cleveland, þar sem undirritaður var í framhaldsnámi í Ohio á sínum tíma og skilur vel 52ja ára bið borgarinnar eftir meistaratitli í einni af þremur vinsælustu íþróttum Bandaríkjanna. Langeygir íþróttaunnendur borgarinnar eiga svo sannarlega skilið að geta fagnað að nýju, en þegar á hólminn kemur er ekki annað hægt en að spá meisturum Warriors sigri hér í sex leikjum. gval@mbl.is