Mælingar Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, t.v., og Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, lásu í landið á Seltjarnarnesi í gær.
Mælingar Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, t.v., og Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, lásu í landið á Seltjarnarnesi í gær. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Á næstu mánuðum á að endurmæla og -reikna alla punkta í grunnstöðvaneti landmælinga á Íslandi og er það gert til að viðhalda nákvæmni í landshnitakerfinu sem aflagast vegna mikilla jarðskorpuhreyfinga hér á landi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á næstu mánuðum á að endurmæla og -reikna alla punkta í grunnstöðvaneti landmælinga á Íslandi og er það gert til að viðhalda nákvæmni í landshnitakerfinu sem aflagast vegna mikilla jarðskorpuhreyfinga hér á landi. Verkefni þessu var formlega ýtt úr vör í gær þegar þeir Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri settu af stað mælitæki á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, en frá árinu 1904 hefur þar verið einn af grunnpunktum í mælikerfi landsins. Eftir nokkra daga ættu að vera komnar niðurstöður úr þessari einstöku mælingu.

Landshnitakerfið er undirstaða stafrænnar kortagerðar, landfræðilegra upplýsingakerfa, vöktunar og verklegra framkvæmda. „Þetta er mikilvægt verkefni og nú er þörf á nýjum upplýsingum, því svona mælingar höfum við ekki gert síðan árið 2004,“ segir Magnús Guðmundsson. Alls verða mældir á annað hundrað mælipunktar víða um landið og tekur GPS-mæling á hverjum þeirra nokkra daga. Þegar allar tölur eru komnar í hús er vegið meðaltal reiknað út – og allt sett í samhengi.

Mælingum ljúki í september

„Með þessu eigum við að sjá nákvæmlega hvort land hafi sigið eða risið eða hvort jarðflekar hafi færst til,“ segir Magnús. Hann bætir því við að í reglulegum mælingum stofnunarinnar sé gott samstarf við til dæmis tæknimenn sveitarfélaga og Vegagerðar enda skipti nákvæmar landmælingar miklu máli í starfi þeirra. Því hafi verið vel við hæfi að fá Hrein Haraldsson vegamálastjóra á Valhúsahæðina.

Áætlaður kostnaður við endurmælingu hnitakerfisins á komandi sumri er um 13,5 milljónir og fékkst sérstök fjárveiting til verkefnisins á fjárlögum. Mælingum á að ljúka í september næstkomandi og útreikningum verður lokið fyrir árslok.