Uppgjör Hagnaður 365 nam 22 milljónum króna á árinu 2015.
Uppgjör Hagnaður 365 nam 22 milljónum króna á árinu 2015. — Morgunblaðið/Heiddi
Töluverð umskipti urðu í afkomu 365 miðla í fyrra þegar félagið skilaði 22 milljóna króna hagnaði í samanburði við tæplega 1,4 milljarða tap árið á undan.

Töluverð umskipti urðu í afkomu 365 miðla í fyrra þegar félagið skilaði 22 milljóna króna hagnaði í samanburði við tæplega 1,4 milljarða tap árið á undan. Í ársreikningi félagsins kemur fram að tekjur jukust um tæplega 1,1 milljarð króna, sem meðal annars má rekja til sameiningar við Tal á seinni hluta árs 2014.

Eignir 365 námu 12,9 milljörðum króna í lok árs 2015 og höfðu þá aukist um tæpa 1,5 milljarða á árinu. Fram kemur í ársreikningi að framkvæmt hafi verið virðisrýrnunarpróf á viðskiptavild samstæðunnar og nemur hún 6,0 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 2,8 milljarðar í árslok samanborið við 2,5 milljarða árið á undan. Á síðari hluta ársins var hlutafé í A-flokki aukið með innborgun að fjárhæð 550 milljónir en hlutabréf í B-flokki var lækkað um samtals 230 milljónir króna.

Skuldir 365 miðla jukust um tæpa 1,2 milljarða í fyrra og stóðu í réttum 10 milljörðum í árslok, en í yfirlýsingu stjórnar og forstjóra kemur fram að samið var á síðasta ári um heildarfjármögnun hjá nýjum viðskiptabanka félagsins.

Á efnahagsreikningi 365 er bókfærð skatteign sem nemur 703 milljónum. Þar af eru 372 milljónir sem félagið hefur þegar greitt á grundvelli úrskurðar Yfirskattanefndar og varðar álagningu viðbótartekjuskatts vegna ófrádráttarbærra vaxtagjalda og nýtingar yfirfæranlegs taps rekstrarárin 2009 til 2011. Félagið hyggst höfða mál gegn ríkinu vegna þessa og í skýringum segir að ef niðurstaða dómstóla verði í samræmi við úrskurð Yfirskattanefndar muni það hafa marktæk áhrif á eiginfjárfstöðu félagsins.