Víkverji fór á mánudagskvöldið að sjá San Francisco-ballettinn flytja kafla úr ýmsum verkum í Hörpu. Það er mikill fengur að heimsókn ballettsins. Helgi Tómasson hefur verið þar við stjórnvölinn í rúm þrjátíu ár.

Víkverji fór á mánudagskvöldið að sjá San Francisco-ballettinn flytja kafla úr ýmsum verkum í Hörpu. Það er mikill fengur að heimsókn ballettsins. Helgi Tómasson hefur verið þar við stjórnvölinn í rúm þrjátíu ár. Ballettinn var í lægð þegar hann varð listrænn stjórnandi ballettsins en honum tókst fljótlega að koma honum í fremstu röð og hefur haldið honum þar síðan. Það er til marks um hæfileika Helga hversu lengi hann hefur stjórnað ballettinum.

Áður en Helgi fór til San Francisco átti hann framúrskarandi 15 ára feril hjá New York City-ballettinum. Þegar hann kom fram í síðasta skipti hjá ballettinum í janúar 1985, þá 42 ára gamall, skrifaði Anna Kisselgoff í New York Times að hann kveddi með sömu hógværð og reisn og einkennt hefði allan feril hans. Þar dansaði hann hjá einum helsta danshöfundi 20. aldar, George Balanchine. Skrifaði hún að með Helga hefði Balanchine loks haft á að skipa nógu hæfileikaríkum dansara til að útfæra hugmyndir sínar fyrir karldansara í klassískum dansi. „Með framúrskarandi tækni sinni og tign var hr. Tómasson hið fullkomna dæmi um hinn klassíska karldansara,“ skrifaði Kisselgoff.

Víkverji átti þess aldrei kost að sjá Helga dansa á sviði en fékk tækifæri til að sjá San Francisco-ballettinn þegar hann kom til New York og sýndi í viku á hans gamla heimavelli 1991 og aftur í San Francisco tveimur árum síðar.

Í Hörpu fóru skrif Kisselgoff í gegnum huga Víkverja. Helgi hefur ávallt haldið sig við hinn klassíska ballett og kvöldið bar því vitni. Víkverji varð að láta sér nægja að ímynda sér af hverju hann missti með því að horfa á dansarana, sem Helgi hefur mótað samkvæmt hugmyndum sínum og sannfæringu, fara á kostum á sviðinu. Þegar sýningunni lauk steig Helgi á svið og kvað við dynjandi lófatak. Áhorfendur risu úr sætum og ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna.