Alþingi Mikið er rætt um málin í þingsal og jafnframt vel unnið í nefndum. Málin renna áfram.
Alþingi Mikið er rætt um málin í þingsal og jafnframt vel unnið í nefndum. Málin renna áfram. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason Skúli Halldórsson Góður taktur var í þingstörfum í gær og hafa þau gengið ágætlega að undanförnu. Málin gengu áfram hægt og bítandi, nokkur frumvörp voru samþykkt sem lög og önnur mál fóru áfram til annarrar, þriðju eða seinni umræðu.

Helgi Bjarnason

Skúli Halldórsson

Góður taktur var í þingstörfum í gær og hafa þau gengið ágætlega að undanförnu. Málin gengu áfram hægt og bítandi, nokkur frumvörp voru samþykkt sem lög og önnur mál fóru áfram til annarrar, þriðju eða seinni umræðu. Kvöldfundur var í gærkvöldi. Þrátt fyrir góðan gang treystir þingforseti sér ekki til þess að fullyrða að hægt verði að standa við nýgerða starfsáætlun þingsins, sem gerir ráð fyrir þingfrestun fyrir sumarhlé síðdegis á morgun.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segist hafa sett á dagskrá í gær þau mál sem tilbúin voru til afgreiðslu í þinginu. Verið sé að ganga á dagskrána. Hann tekur fram að talsverðar umræður hafi verið um einstök mál. Mesta umræðan var um frumvarp fjármálaráðherra um aðgerðir gegn skattsvikum, sem var til 1. umræðu, en yfir 50 ræður voru fluttar í umræðunni ef tekin eru með andsvör og svör við andsvörum.

Lagafrumvörp samþykkt

Frumvarp iðnaðarráðherra um heimagistingu og fleira var meðal þeirra frumvarpa sem samþykkt voru. Þingsályktunartillaga um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. á sínum tíma var tekin á dagskrá og vísað til seinni umræðu. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði athugasemdir við að tillaga hennar um rannsókn á einkavæðingu bankanna eftir bankahrun hefði ekki komist samhliða á dagskrá. Þingforseti sagðist beita sér fyrir að tillagan kæmi til umræðu í dag.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins er gert ráð fyrir þingfrestun fyrir sumarhlé síðdegis á morgun. Ekki mun hafa verið gert samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mála svo það sé tryggt og því hugsanlegt að þingfundir verði eftir helgi. Stjórnarmeirihlutinn er með nokkur mál sem hann leggur áherslu á að komist áfram fyrir frestun. Frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna er dæmi um mál sem ágreiningur er um en ráðherra leggur áherslu á að mæla fyrir því og koma því til nefndar fyrir þingfrestun.

Ræðir mest um fundarstjórn

Lítið hefur verið um umræður og athugasemdir undir liðnun fundarstjórn forseta síðustu vikurnar, eða frá miðjum maímánuði. Þó hefur alls tæpum sólarhring, eða 23,1 klukkustund, verið varið í þennan lið á yfirstandandi löggjafarþingi.

Samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis hefur Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, varið mestum tíma allra í ræður undir þessum lið það sem af er þessu löggjafarþingi, eða alls 109 mínútum.