Fjöldi Um 500 mál koma til skoðunar.
Fjöldi Um 500 mál koma til skoðunar.
Þorsteinn Friðrik Halldórsson tfh@mbl.is Auknar heimildir til eftirlits og önnur úrræði hafa gagnast Tryggingastofnun við úrvinnslu mála sem tengjast bótasvikum eða mistökum við bótagreiðslur.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson

tfh@mbl.is

Auknar heimildir til eftirlits og önnur úrræði hafa gagnast Tryggingastofnun við úrvinnslu mála sem tengjast bótasvikum eða mistökum við bótagreiðslur. Þetta kemur fram í svari Tryggingastofnunar við fyrirspurnum Morgunblaðsins.

Lagaheimildir rýmkaðar

Í nýrri eftirfylgnisskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ekki þyki ástæða til að ítreka ábendingar til Tryggingastofnunar frá árinu 2013 um að skýra þurfi eftirlitsheimildir með bótagreiðslum, bæta áhættugreiningu og heimila beitingu viðurlaga í bótasvikamálum.

Í lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 2014 voru stofnuninni veittar auknar eftirlitsheimildir og lagaheimildir til að ljúka bótasvikamálum með stjórnvaldssektum. Sektin er 15% álag á endurgreiðslukröfuna. Sama ár jukust rekstrarfjárheimildir Tryggingastofnunar um rúmlega 70 milljónir, sem hafa meðal annars nýst til þróunar á áhættugreiningu og árangursmælikvörðum.

Í svari við fyrirspurn um hvort fleiri úrræði gætu gagnast stofnuninni kemur fram að tækifærin felist í samstarfi. „Almennt má segja að Tryggingastofnun líti sérstaklega til samkeyrslu á upplýsingum af ýmsum toga. Þá felast mögulega einnig tækifæri í nánara samstarfi við aðrar stofnanir á þessu sviði. Þar mætti sem dæmi nefna Þjóðskrá þar sem greiðslur byggjast mikið á upplýsingum þaðan.“

Ábendingahnappur snýr aftur

Samkvæmt tilmælum Ríkisendurskoðunar hefur ábendingahnappinum verið komið fyrir á heimasíðu Tryggingastofnunar. Hnappurinn var tekinn af heimasíðunni eftir að Persónuvernd úrskurðaði að söfnun nafnlausra ábendinga samrýmdist ekki lögum. Í samræmi við úrskurðinn er þess nú krafist að sá sem komi með ábendingu gefi upp nafn.

Ekki eru uppi áform um að ráðast í greiningu á umfangi bótasvika á Íslandi. Slík rannsókn sé dýr og óvíst að hún svari kostnaði. Rúmlega fimm hundruð mál voru tekin til skoðunar á árinu 2015. Af þeim lauk rúmlega helmingi með stöðvun á greiðslu. Í flestum tilfellum er þó ekki um sviksamlegan ásetning að ræða heldur mistök eða ónægar upplýsingar og býður þá Tryggingastofnun viðskiptavinum upp á viðtal og aðstoð til að leysa málið.