Höfundurinn Ragnar Baldursson kynnir bókina á Íslandi og Bretlandi um þessar mundir.
Höfundurinn Ragnar Baldursson kynnir bókina á Íslandi og Bretlandi um þessar mundir. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ragnar Baldursson, sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Peking í Kína, hefur skrifað fyrir Penguin-útgáfuna bókina Nineteen Seventy-Six, sem fjallar á ensku um minningar hans og skilning á atburðum ársins 1976 þegar jarðskjálftinn mikli reið yfir Tangshan með þeim afleiðingum að mörg hundruð þúsund manns létust, Maó formaður lést og menningarbyltingunni lauk.

„Ég var námsmaður í Peking á þessum tíma og segi frá því í bókinni hvernig ég upplifði þessa atburði og hvernig ég skil þá núna, fjórum áratugum síðar,“ segir Ragnar.

Á árunum í Menntaskólanum við Hamrahlíð var Ragnar í hópi róttækra maóista. Hann fór í rafmagnsverkfræði í Háskóla Íslands en ákvað að sækja um styrk til að læra raunverulegan sósíalisma í Kína, þegar tækifærið gafst. „Ég vissi nánast ekkert um Kína en hef alltaf laðast að fjarlægum heimum og því sem er framandi.“

Kynning í 40 ár

Ragnar segir að hann hafi kynnst algerlega nýjum heimi í Kína, framandi hugsun og menningu, en hann útskrifaðist 1979. „Ég komst fljótlega að því að kínverska útgáfan af marx-lenínisma var töluvert önnur en sú sem tíðkaðist á Vesturlöndum. Smám saman skildi ég að ástæðan fyrir þessum mun var rakin til áhrifa hefðbundinnar kínverskrar hugsunar.“

Á undanförnum 40 árum hefur Ragnar verið þrjú tímabil í Kína. Hann segist því horfa á það sem nú gerist í Kína í ljósi þess sem þar gerðist áður. „Þessi samanburður hjálpar mér að skilja betur forsendur kínverskra stjórnmála og samfélags og hvert sé líklegt að það muni stefna,“ segir hann. Hann áréttar að því lengur sem menn dvelji í Kína, þeim mun varkárari verði þeir í frásögnum vegna þess að nær undantekningarlaust hafi atburðir í Kína verið þvert á allar spár. „Fáir ef nokkrir bjuggust við því að kommúnistar myndu ná völdum með bændabyltingunni 1949 og eftir að Maó hafði komist til valda og uppfært sósíalismann að sovéskri fyrirmynd kom menningarbyltingin flatt upp á alla. Þegar henni lauk kom það öllum að óvörum að Kína skyldi fara yfir á braut umbótastefnunnar. Þróun Kína hefur verið með þeim hætti að Vesturlandabúar hafa átt erfitt með að skilja hana og það er fyrst núna sem mér finnst ég smám saman öðlast skilning á því hvað drífur þetta samfélag áfram.“

Kínversk heimspeki lykillinn

Eftir að Ísland og Kína komu á stjórnmálasambandi á áttunda áratugnum sendu Kínverjar tvo kínverska námsmenn til Íslands og tveimur Íslendingum var boðið í nám í Kína 1975. Ragnar Baldursson og Tryggvi Harðarson fengu styrkina. Að loknu eins árs námi í kínversku lærði Ragnar heimspeki við Peking-háskóla, að nafninu til marx-leníníska heimspeki. Í kjölfarið laðaðist hann að hefðbundinni kínverskri heimspeki. „Hún er lykillinn að skilningi á kínversku samfélagi og kínverskri pólitík,“ segir hann, en Ragnar hefur meðal annars þýtt speki Konfúsíusar á íslensku. Einnig Laotse undir heitinu Ferlið og dygðin sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út sem lærdómsrit.

Ragnar var kennari, blaðamaður og fréttamaður. Hann hefur starfað í utanríkisþjónustunni frá 1995, var fyrstu fimm árin í Peking og hefur nú verið þar frá 2010.