Selshamurinn Í Kópavogi er allt á fullu við að undirbúa sýningu á metnaðarfullu verki eftir Árna Kristjánsson.
Selshamurinn Í Kópavogi er allt á fullu við að undirbúa sýningu á metnaðarfullu verki eftir Árna Kristjánsson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Óperudagar í Kópavogi eru ný óperuhátíð sem hófst með frumflutningi á FótboltaÓperu eftir Helga Rafn Ingvarsson í Salnum á laugardaginn á fjölskyldustund Kópavogsbæjar.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Óperudagar í Kópavogi eru ný óperuhátíð sem hófst með frumflutningi á FótboltaÓperu eftir Helga Rafn Ingvarsson í Salnum á laugardaginn á fjölskyldustund Kópavogsbæjar.

Flutningur tók um 10 mínútur og að honum loknum var gestum boðið í leyniferð um Salinn með Jón Svavar Jósefsson söngvara í fararbroddi.

Úti á grasbala voru fótboltar og mörk og flottir fótboltakrakkar komu í heimsókn.

Fjöldi ungs listafólks kemur að hátíðinni, sem stendur til 5. júní. Markmiðið er að breyta Kópavogsbæ í óperusvið í nokkra daga með ólíkum viðburðum sem ættu að henta flestum. Meðal dagskrárliða er Óperuganga og krakkaganga um hjarta Kópavogs, hádegistónleikaröð í Salnum, masterclass með Kristni Sigmundssyni og nýstárleg útgáfa af Krýningu Poppeu , einni elstu óperu óperusögunnar.

Kaffikantata, kabarett og Selshamurinn

Þá verður áhugasömum gestum boðið að syngja á Kabarettkvöldi í Garðskálanum, kaffihúsinu í Gerðarsafni.

Kaffikantata Bachs í íslenskri þýðingu verður flutt hér og þar og Selshamurinn settur á svið í Leikfélagi Kópavogs.

Viðburðir verða á ýmsum stöðum, í Salnum, Gerðarsafni, Leikfélagi Kópavogs, Smáralind og víðs vegar um bæinn. Ókeypis er á alla viðburði nema hádegistónleikana, miðasala er á tix.is og fólk beðið að panta (ókeypis) miða á operudagar@operudagar.is.

Listrænn stjórnandi Óperudaga er Guja Sandholt. Aðalbakhjarl hátíðar er Lista- og menningarráð Kópavogs en meðal annarra styrktaraðila er Sendiráð Þýskalands. Nánar á www.operudagar.is og Facebook-síðunni Óperudagar í Kópavogi.

Fullkomna matarboðið

Eitt af stóru verkunum á hátíðinni er Selshamurinn sem listamennirnir eru að leggja lokahönd á, en ljósmyndari Morgunblaðsins mætti á æfingu hjá þeim í gær.

Leikfélag Kópavogs stendur að sýningunni og þátt í henni taka margir þekktir söngvarar.

Í tilkynningu um verkið segir að það sé hægara sagt en gert að vera sáttur við sjálfan sig, jafnvel þó að maður sé selur. Aron er að undirbúa fullkomið matarboð fyrir Elísabetu, unnustu sína. Þau eiga íbúð í blokk með glæsilegu útsýni yfir Kópavoginn. Í stigaganginum hjá þeim er fáklæddur maður að lesa Fréttablaðið. Selshamur er til þerris á ofni. Þetta er aðkomumaður og hugsanlega ekki maður.

Aron er formaður húsfélagsins og getur ekki liðið kæruleysislega umgengni í blokkinni en Elísabet er á öðru máli og býður hinni ókunnu veru inn á heimilið.

Selshamurinn er nýtt og kómískt íslenskt óperuhandrit eftir Árna Kristjánsson og í tónlistarstjórn Matthildar Önnu Gísladóttur. Fluttar verða þekktar aríur og söngvar úr verkum á borð við Brúðkaup Fígarós, La Traviata og Hollendinginn fljúgandi.

Poppea Remixed

„Þann 3. og 4. júní verður

síðan Poppdans“, segir Guja Sandholt, sem er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. „Þá verða þau Timothy Nelson og Rannveig Káradóttir með okkur óperusöngvurum. Við munum sýna og syngja brot úr Krýningu Poppeu . Við vorum með þetta atriði í Rotterdam í fyrra. Þetta er svona alþjóðleg uppfærsla sem við erum stolt af.“

Händel mætir í Kópavoginn

George Frideric Händel (1685-1759) samdi ógrynni af tónlist og sérlega margar óperur og kantötur.

Verkið Mi palpita il cor eftir Händel verður flutt í Salnum á einum af daglegu hádegistónleikunum sem haldnir verða á hátíðinni.

En frá 1.- 5. júní verða haldnir tónleikar í Salnum frá klukkan 12.15 til 12.50. Þátttakendur á Óperudögum í Kópavogi koma fram og flytja tónlist úr ýmsum áttum.

Sungið fyrir sex hundruð börn

Spurð hversvegna í tilkynningum frá hátíðinni segi sumstaðar að hún byrji 1. júní og annars staðar að hún hafi byrjað í maí segir Jóhanna Kristín Jónsdóttir, kynningarfulltrúi sýningarinnar, að það sé útaf því að þau hafi haft ákveðna fordagskrá í síðustu viku. „Við heimsóttum fjóra grunnskóla þá og erum nú búin að syngja fyrir sex hundruð börn,“ segir Jóhanna Kristín. „Svo fórum við til eldri borgara í Gjábakka og Gullsmára og héldum hádegistónleika.

Svo var ákveðin foropnun Óperudaga á laugardaginn þar sem við sameinuðum þessa hátíð við fjölskyldustund menningarhúsanna í Salnum. Við fengum fullt af fótboltastelpum úr Breiðablik í heimsókn, klæddum í landsliðsbúninga. Skólakór Kársnes var þarna að syngja Áfram Ísland.“

Fótboltaóperan verður sýnd aftur á hátíðinni

„En það fólk sem hefur misst af þessari foropnun hátíðarinnar á möguleika á að sjá þessa fótboltaóperu aftur seinna. Þetta er 10 mínútna ópera og verður sýnd aftur í óperugöngunni.

Aðalpóllinn á hátíðinni er Óperugangan, en hún fer fram þrisvar sinnum og það er stoppað á fjórum, fimm stöðum á meðan á göngunni stendur og þar syngjum við.“

Hver er pælingin á bak við óperudaga, þetta hljómar óvenjulegt?

„Við erum að reyna að breyta þeirri hugmynd að ópera sé leiðinleg fyrir börn. Svo margt ungt listafólk er kappsamt og vill koma óperunni út úr þessum kassa. Grunnhugmyndin er að færa óperuna í annað umhverfi en hún á að venjast.“