Ól afur Stefánsson hefur skrifað skemmtilega pistla á Leirinn, sem hann kallar Undir Tindum.

Ól afur Stefánsson hefur skrifað skemmtilega pistla á Leirinn, sem hann kallar Undir Tindum. Hér kemur sá fyrri: „Það er bæði fróðleikur og skemmtun að lesa æviminningar Böðvars á Laugarvatni, sem hann gaf út 1953, hálfáttræður, og nefndi Undir Tindum. Þar rekur hann líf sitt og margra samferðamanna og lýsir af nákvæmni öllu markverðu, hvort sem eru vinnubrögð, mataræði, byggingar eða ferðalög.

Ég staldraði við þar sem hann segir frá því er hann fór fyrst til sjávar sautján ára gamall. Það var mikil tilhlökkun hjá ungum mönnum að hleypa heimdraganum og fara í verið. Njóta meira frjálsræðis en í foreldrahúsum, hafa sína eigin matarskrínu með kæfu, sméri og hangiketi, kynnast öðru fólki og öðrum siðum. Þetta var manndómsvígsla.

Í verinu var ekki bara þrældómur heldur líka reynt að skemmta sér í landlegum, syngja, kveðast á eða glíma.

Af Húnvetningi, lagsmanni sínum, lærði Böðvar t.d. vísurnar

Hér er ekkert hrafnaþing,

hér er enginn tregi.

Farðu vel með Vatnsdæling,

vinur elskulegi.

Og:

Lifnar hagur, hýrnar brá,

hressist bragagjörðin.

Ó, hve fagurt er að sjá,

ofan í Skagafjörðinn.

Seinna komst Böðvar á skútu og þar var líka kveðið:

Að sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi,

ýtar segja yndi mest

og að teygja vakran hest.

Einnig:

Rigning slær á hauðið hér,

hörund þvær á ýtum;

betra væri að bylta sér

á brúðarlærum hvítum.“

„Var út í Eyju eins og við köllum það,“ skrifar Höskuldur Búi í Leirinn og er þá að tala um Grímsey í Steingrímsfirði:

Blikar úa út við strönd

elta frúarstélið.

Gæsir fljúga, argar önd

Eyju dúar þelið.

Ingólfur Ómar yrkir af því tilefni að nú er sumarið að ganga í garð:

Veröld ljómar drungi dvín

daga rómum langa.

Söngvar óma sólin skín

sumarblómin anga.

Ingólfur Ómar horfir út á Faxaflóa í kvöldsólinni:

Skartar eldi skýjaslóð

skærum röðulsgljáa.

Hugann fangar hafsins slóð

hrönnin töfrabláa.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is