Með börnunum Guðrún Ásta, Kristófer Örn, Þórður og Hildur Eva.
Með börnunum Guðrún Ásta, Kristófer Örn, Þórður og Hildur Eva. — Ljósmynd/Magna Ósk Gylfadóttir
Fjölmiðla- og tónlistarmaðurinn Þórður Helgi Þórðarson, betur þekktur sem Doddi litli, fagnar 47 ára afmæli sínu í dag með útgáfu nýs Love Guru-lags.

Fjölmiðla- og tónlistarmaðurinn Þórður Helgi Þórðarson, betur þekktur sem Doddi litli, fagnar 47 ára afmæli sínu í dag með útgáfu nýs Love Guru-lags. „Hann kemur alltaf fram einu sinni á ári á Kótilettunni á Selfossi og ég reyni oftast að koma með nýtt lag svo ég sé ekki alltaf að taka þetta eina lag sem ég kann,“ segir Þórður um Love Guru, sem hefur notið mikilla vinsælda í bænum allt frá útgáfu lagsins góðkunna „1, 2, Selfoss“ sem gekk nýverið í endurnýjun lífdaga með 1-2 sigri liðs Selfoss á KR í bikarkeppninni í knattspyrnu.

Innblásturinn fyrir nýju tónsmíðina er ekki af verri endanum, en hann er fenginn úr auglýsingaherferð Iceland Express, Heimsborgaranum. „Hann var að tala um að jackið væri ekki komið til Íslands og ég er búinn að hugsa um þetta í tíu ár: Ég verð að gera lag um þetta!“ Laginu fylgir að sjálfsögðu myndband og verður það frumsýnt á vef Nútímans. „Þarna er ótrúlegasta fólk að jacka : Gísli í Landanum, Gísli Marteinn, Birgitta Haukdal... hversu gott er það?“ spyr Þórður, en gestir Kótilettunnar á Selfossi 11. júní munu svo fá að njóta lifandi flutnings listamannsins á hátíðinni.

Í sumar mun Þórður sjá um útvarpslýsingar Rásar 2 á Evrópumótinu í fótbolta. Hann segist hæfilega vongóður um gengi íslenska liðsins. „Ég væri ofboðslega ánægður ef liðið næði í eitt stig.“ Að öðru leyti sér hann fram á að eyða sumrinu í ferðalög um landið ásamt börnum sínum.