Virðing þingsins eykst ekki við innantómt þras þingmanna

Eins og lesa má í frétt á bls. 6 í blaðinu í dag hefur tæpur sólarhringur, eða sem nemur þremur vinnudögum, farið í að ræða „fundarstjórn“ á yfirstandandi þingi.

Svandís Svavarsdóttir nýtur þess vafasama heiðurs að leiða þessar leiðu umræður með góðu forskoti á næsta mann, Össur Skarphéðinsson.

Þó að þingmenn VG og Samfylkingar séu áberandi í efstu sætum þessa umræðulista eiga fleiri flokkar fulltrúa þar. Sá málefnalegi þingmaður Helgi Hrafn Gunnarsson hefur til að mynda gert það gott í umræðum um „fundarstjórn“, án efa í góðum tilgangi einum og vitaskuld aðeins til að greiða fyrir þingstörfum.

Nú þegar þingmenn komast í sumarfrí mættu þeir sem verma efstu sætin á þessum ómálefnalega málþófs- og nöldurlista velta því fyrir sér hvort tíma þingsins og virðingu er ekki betur varið í annað en þetta innantóma þras.