Salurinn Framkvæmdir við nýja salinn hófust í nóvember á síðasta ári, aðeins skömmu eftir að flugfélögin höfðu tilkynnt þá ákvörðun að taka breiðþoturnar í notkun. Handflokka þarf farangur næstu daga, eða fram að helginni.
Salurinn Framkvæmdir við nýja salinn hófust í nóvember á síðasta ári, aðeins skömmu eftir að flugfélögin höfðu tilkynnt þá ákvörðun að taka breiðþoturnar í notkun. Handflokka þarf farangur næstu daga, eða fram að helginni. — Ljósmynd/Isavia
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Nýr salur til farangursflokkunar verður tekinn í gagnið á Keflavíkurflugvelli á laugardag.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Nýr salur til farangursflokkunar verður tekinn í gagnið á Keflavíkurflugvelli á laugardag. Fram að því mælist Isavia til þess að farþegar mæti á flugvöllinn um þremur klukkustundum fyrir flug, en meðan á umbótunum stendur þarf að handflokka allan þann farangur sem innritaður er í Leifsstöð.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við Morgunblaðið að flokkunargetan muni tvöfaldast með tilkomu nýja salarins, en með honum lengist farangursfæribandið úr 90 metrum í tvö hundruð. Salurinn er þó að mestu leyti gerður vegna nýrra breiðþotna íslensku flugfélaganna Icelandair og WOW air.

„Í breiðþotum er notast við farangursgáma, þar sem farangrinum er komið fyrir áður en gámarnir eru settir inn í vélarnar. Það var einfaldlega ekki rými til að sinna því í gamla salnum,“ segir Guðni.

Þrjú þúsund fermetra bygging

Framkvæmdir við nýja salinn hófust í nóvember á síðasta ári, aðeins skömmu eftir að flugfélögin höfðu tilkynnt þá ákvörðun að taka breiðþoturnar í notkun. Nýbyggingin sem hýsir salinn er 3.000 fermetrar að stærð en þar af er nýi salurinn 2.100 fermetrar.

Guðni segir umferð á flugvellinum fara sífellt vaxandi og sömuleiðis hlutfall skiptifarþega sem eiga aðeins leið um Leifsstöð á leið sinni úr einni flugvél í aðra.

„Þá skiptir máli að flokkunin sé mjög hröð, svo að farangurinn geti farið hnökralaust yfir í næstu vél.“

Tæpur áratugur er síðan farangur var síðast handflokkaður á vellinum, en 4,8 milljónir farþega áttu leið um hann á síðasta ári.

Innviðir þurfa að taka mið af álagstímum flugfélaga

„Samt sem áður held ég að til séu flugvellir með fjórar til fimm milljónir farþega á ári, þar sem enn er handflokkað,“ segir Guðni og bendir á að það skýrist af ójöfnu álagi á Keflavíkurflugvelli.

„Þar er álaginu dreift meira yfir sólarhringinn svo það gengur alveg. En við erum með svo stóra álagstíma hér á landi, þar sem Icelandair og WOW air eru á svipuðum tíma sólarhringsins. Allir okkar innviðir þurfa þannig að taka mið af því.“