Skógrækt Frá Snæfoksstöðum.
Skógrækt Frá Snæfoksstöðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Í umsögn Náttúrufræðistofnunar um frumvarp um nýja skógræktarstofnun er að finna harða gagnrýni á það fyrirkomulag sem stefnt er að og segir þar að frekar sé um afturför að ræða hvað varðar ákveðna þætti.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar um frumvarp um nýja skógræktarstofnun er að finna harða gagnrýni á það fyrirkomulag sem stefnt er að og segir þar að frekar sé um afturför að ræða hvað varðar ákveðna þætti. Með frumvarpinu er lagt til að skógræktarstarf ríkisins, þ.e. Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt, sameinist í einni stofnun, Skógræktinni.

Umfjöllun um málið er lokið í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og var málið á dagskrá þingsins í gær. Nefndin gerir eina tillögu til breytingar á texta frumvarpsins, þ.e. að ákvæði úr eldri lögum haldi sér í þeim nýju um að 5% láglendis undir 400 metrum yfir sjávarmáli verði klædd skógi.

Óskyldir þættir

Náttúrufræðistofnun sendi inn ítarlega umsögn um frumvarpið og í niðurlagi hennar segir: „Náttúrufræðistofnun harmar að í frumvarpinu eru engar nýjungar eða ný framtíðarsýn m.t.t. náttúruverndar og skipulagningar skógræktar, né um landgræðslu og endurheimt náttúrulegra vistkerfa. Frumvarpið er frekar afturför hvað þetta snertir.

Frumvarpið auðveldar skógræktinni/landshlutaverkefnum í skógrækt að fara inn á svæði sem hingað til hafa ekki verið henni ætluð s.s. hálendið. Það eina góða við frumvarpið er að það mun án efa efla faglega þekkingu innan geirans en á hinn bóginn blanda saman alls óskyldum þáttum eins og einkahagsmunum einstakra skógarbænda við verkefni sem ríkið hefur tekið að sér til hagsmuna fyrir alla landsmenn s.s endurheimt birkiskóga og vernd þjóðskóga.

Ef ríkið vill reka hagsmunatengda ríkisstofnun fyrir eina atvinnugrein innan landbúnaðargeirans er eðlilegast að hún fari ekki með neina stjórnsýslu eða umsjón sem varðar náttúruvemd eða endurheimt náttúrulegra vistkerfa. Ný Skógrækt á og mun að sjálfsögðu hafa mikið á segja um landnotkun, eðli málsins samkvæmt, en á ekki að vera beggja megin borðs.“

Undirbúningur gengið vel

Skógrækt ríkisins, Suðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Héraðs- og Austurlandsskógar, Norðurlandsskógar og Vesturlandsskógar sendu inn sameiginlega umsögn. Þar er frumvarpinu fagnað og hvatt til þess að það verði samþykkt. Frá áramótum hafi staðið yfir undirbúningsvinna að sameiningunni þar sem allt starfsfólk tilvonandi stofnunar hafi komið að auk hagsmunaaðila. Sú vinna hafi gengið vonum framar.

Ekki án skógarbænda

Í umsögn Félags skógarbænda á Suðurlandi segir að nauðsynlegt sé að skýrt verði afdráttarlaust hvar í stjórnskipulagi nýrrar stofnunar skógarbændur muni sitja og taka þátt í mótun, skipulagningu, markmiðasetningu og eftirfylgni með verkefnum stofnunarinnar.

Vonir séu bundnar við að ný stofnun, Skógræktin, verði mikilvægur hlekkur í að byggja upp atvinnugreinina skógrækt og það verði ekki gert án skógarbænda.