Hrollaugur, félag smábátaeigenda á Hornafirði, fer fram á að 200 tonnum verði bætt við aflaheimildir á strandveiðum á suðursvæði.

Hrollaugur, félag smábátaeigenda á Hornafirði, fer fram á að 200 tonnum verði bætt við aflaheimildir á strandveiðum á suðursvæði. Erindi þessa efnis hefur verið sent til sjávarútvegsráðherra og þingmanna, sem koma frá D-svæði strandveiðanna, það er svæðinu frá Hornafirði í Borgarnes.

Heimildir á D-svæði voru skertar um 200 tonn með ákvörðun ráðherra í vor, en í heildina voru þær auknar um 400 tonn á landinu. Í bréfi Hrollaugs er þetta gagnrýnt harðlega og bent á 22% nýliðun á strandveiðum á svæðinu á þessu ári og 109% aukningu landana á svæðinu í maímánuði. Farið er fram á að skerðingin verði leiðrétt strax og 200 tonnum verði skilað á svæðið svo sami grundvöllur verði að minnsta kosti til veiða og verið hefur síðustu ár.

Í bréfinu segir meðal annars: „Ef ekkert verður að gert mun svæðið fara illa út úr strandveiðunum í ár og þá sérstaklega sú nýliðun sem hefur átt sér stað á svæðinu. Pottarnir fyrir júní, júlí og ágúst eru allt of litlir og útlit er fyrir stöðvun veiða mun fyrr en ella hefði orðið með tilheyrandi tekjuskerðingu og vandræðum fyrir strandveiðimenn.“

Þá hefur Landssamband smábátaeigenda sent sjávarútvegsráðherra bréf þar sem skorað er á ráðherra að bæta nú þegar 200 tonnum við veiðiheimildir á svæði D út frá forsendubresti sem komið hefur í ljós eftir veiðar í maí. aij@mbl.is