Fögnuður Ashkenazy og Bavouzet að loknum vel heppnuðum tónleikum í Eldborg á Listahátíð í Reykjavík.
Fögnuður Ashkenazy og Bavouzet að loknum vel heppnuðum tónleikum í Eldborg á Listahátíð í Reykjavík. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rómeó og Júlía, fantasíuforleikur (1869/1880) eftir Pjotr Tsjajkovskíj. Píanókonsert í G-dúr (1929-31) eftir Maurice Ravel. Sinfónía nr. 6 í F-dúr, op. 68 (1807-08) eftir Ludwig van Beethoven. Einleikari: Jean-Efflam Bavouzet.

Rómeó og Júlía, fantasíuforleikur (1869/1880) eftir Pjotr Tsjajkovskíj. Píanókonsert í G-dúr (1929-31) eftir Maurice Ravel. Sinfónía nr. 6 í F-dúr, op. 68 (1807-08) eftir Ludwig van Beethoven. Einleikari: Jean-Efflam Bavouzet. Stjórnandi: Vladimir Ashkenazy. Miðvikudaginn 25. maí kl. 19.30 Tónleikar á Listahátíð í Reykjavík 2016

Vladimir Ashkenazy stjórnaði síðast Sinfóníuhljómsveit Íslands á Listahátíð árið 1978 í Laugardalshöll. Ashkenazy-feðgar ætluðu að heiðra okkur nú við endurkomuna með frumflutningi á píanókonsert Rögnvalds Sigurjónssonar píanóleikara sem einvalalið hefur fullunnið upp úr skúffuhandriti undir stjórn Hróðmars I. Sigurbjörnssonar. Sá atburður hefði vissulega áréttað erindi Listahátíðar við okkur í dag en svo fór að lokum að á efnisskrá tónleikanna stóð píanókonsert Ravels í G-dúr. Verðlaunapíanistinn franski fór langleiðina með að stinga snuddu upp í tónleikagesti vegna þeirra vistaskipta með glæsilegri tónmyndun strax við fyrstu snertingu, snerpu og brakandi bláum hljómi sem hljómsveit kvöldsins svaraði ágætlega, sér í lagi einstakir leiðarar.

Baskneskt blóð litaði fjörlegt og marglaga upplag Ravels, sem skein í gegn í þessum dásamlega píanókonsert. Og barngóður var hann; bent hefur verið á hvernig ærslafengir upphafstaktar konsertsins líkjast innliti í dótabúð með upptrekktum leikföngum líkt og klukkubúðinni í óperunni L'Heure espagnole hvar ótal litir vefjast saman við hvellan hljóm málmblásara og píanós. Hörpuleikari og uppfærslumaður á franskt horn léku af stökum unaði markeruð innskot á milli þess sem hljómsveit og einleikari brustu á með strók svo að djassað blátt skýið sveif um salinn. Angurvær miðkaflinn er laglega skapaður af hendi tónskáldsins í skarpri andstæðu við fyrsta kafla; Matthías Nardeau lék af ástríðu mótleik enska hornsins við píanóið en hélt engu skarpri tónmyndun og tilfinningahita innan langra hendinga. Mekanískur og snarpur þriðji kaflinn var leikinn með hvössu biti; það leiftraði snögglega á snilligáfu Ravels undir þessum frábæra flutningi.

Einleikarinn bauð upp á sjaldheyrt aukalag, konseretíðu op. 13 eftir landa sinn Gabriel Pierné, sem Jean-Efflam hristir að eigin sögn gjarnan fram úr erminni ef staður og stund eru þannig vaxin líkt og á miðvikudagskvöldið. Spretturinn var nú nokkuð yfir hámarkshraða miðað við aðrar upptökur en öruggur enda afburða listamaður á ferð sem bætti upp spælingu auglýstrar dagskrár.

Kvöldið var opnað með forleik Tsjajkovskíjs um Rómeó og Júlíu, sem hljómsveitin leysti afbragðsvel. Fantasíuforleikurinn um ástir og dauða elskendanna er hárómantískur minnisvarði, dramatískur og vinsæll; áheyrendur lifa sig auðveldlega inn í meginstefin tvö eftir að inngangi sleppir, hið kröftuga stef sem lýsir óvináttu hinna stríðandi ætta og hins angurværa forboðna ástarbríma elskendanna. Innkoma hörpu og horna strax í hægu upphafinu undir dökkum strengjanið var til að mynda sérlega vel heppnuð.

Tónleikagestir fá sjálfsagt seint nóg af sinfóníum Beethovens þó að stutt lifi á milli flutninga. Samkvæmt efnisskrá meinti Beethoven að sveitasinfónían væri fremur tjáning tilfinninga en málverk í tónum. Það minnir okkur á að ægifegurðin býr í höfði okkar sjálfra fremur en í náttúrunni í kring. Beethoven byggir reyndar snilldarlega undir þau hughrif og hljómsveit kvöldsins átti oft prýðis spretti við að draga upp útlínur þessara tilfinninga. Bjartir dúrhljómar fyrsta kafla sviðsetja til að mynda ómælda sveitasælu sem falla vel að hugmyndum okkar borgarbúanna. Afburða gestahljóðfæraleikari á óbó úr röðum Sinfóníuhljómsveitar danska ríkisútvarpsins átti laglegar innkomur. Flutningurinn var þó full hægur, sem gerði hljómsveitinni erfiðara fyrir en ella. Þrumufleygur fjórða kafla var til að mynda heldur stirðkveðinn og stundum vantaði nokkuð upp á flæði, ólíkt fantasíuforleiknum. Áheyrendur hylltu að lokum tengdason sinn, Ashkenazy, ákaft að tónleikum loknum og risu úr sætum.

Ingvar Bates