Hólmfríður Magnúsdóttir fæddist á Ísafirði 26. janúar 1922. Hún lést á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 18. maí 2016.

Foreldrar hennar voru Magnús Vagnsson, f. 3.5. 1890, d. 12.2. 1951, og Valgerður Ólafsdóttir, f. 19.12. 1899, d. 5.3. 1978. Systkini Hólmfríðar voru: 1) Bragi, f. 1917, d. 2001, 2) Pétur Ólafur, f. 1920, d. 1997, 3) Sigríður, f. 1925, lést nýfædd, 4) Vigdís Valgerður, f. 1927, d. 2015, 5) Magnús, f. 1930, d. 1946, og 6) Guðrún, f. 1937, d. 1990.

Hinn 11. júní 1949 giftist Hólmfríður Benedikt Sigurðssyni kennara, f. 14.4. 1918, d. 26.10. 2014. Foreldrar hans voru Ólöf Vilhelmína Óladóttir, f. 17.10. 1892, d. 3.1. 1944, og Sigurður Ágúst Benediktsson, f. 23.8. 1880, d. 28.8. 1928. Börn Hólmfríðar og Benedikts eru: 1) Ólöf, f. 4.2. 1947. Maki var: Ketill Larsen, þau skildu. Börn: a) Hólmfríður Þórunn, f. 1971. Maki: Ugo Morelli, f. 1964. Börn þeirra: Alma Sól, f. 1996, Benedikt Axel, f. 2002, Immanuel Ketill, f. 2004, Kristofer Tomas, f. 2007, Emil Þorlákur, f. 2012, og Agata Líf, f. 2014. b) Sólveig Dögg, f. 1974. Maki: Brynjar Á. Hilmarsson, f. 1970. Börn þeirra: Axel Enok, f. 2004, og Esther Ólöf, f. 2008. c) Axel, f. 4.4. 1980, d. 15.4. 1980. d) Ívar Helgi, f. 1981. 2) Valgerður Edda, f. 12.10. 1948. Maki var: Jóhann Ágúst Sigurðsson, þau skildu. Börn: a) Gísli Heimir, f. 1967. Maki: Hanna M. Þórhallsdóttir, dóttir Gísla: Bríet Eva, f. 2000. b) Vala Dröfn, f. 1973. Maki: Gísli Þorsteinsson, f. 1971. Sonur: Þorsteinn, f. 2010. Sonur Völu: Jóhann Ágúst Ólafsson, f. 2001. c) Margrét Gyða, f. 1985. 3) Eva, f. 17.9. 1950. Maki: Baldur Sigurðsson, f. 1952. Börn: a) Brynja, f. 1976. Maki: Jón Guðni Ómarsson, f. 1976. Börn: Baldur Ómar, f. 2007, og Anna Margrét, f. 2009. b) Hólmfríður Anna, f. 1977. Maki: Freyr Eyjólfsson, f. 1973. Börn þeirra: Eyjólfur Flóki, f. 2009, og Eva, f. 2011. c) Sigurður, f. 1987. 4) Magnús Vagn, f. 20.4. 1954. Fyrri kona hans var: 1) Guðrún Jóhannesdóttir, þau skildu. Börn þeirra: a) Benedikt, f. 1986. Maki: Eva M. Þórhallsdóttir, f. 1985. Barn: Brynja, f. 2009. b) Valdimar, f. 1988. c) Hólmfríður, f. 1989. Sonur Guðrúnar: Jóhannes Helgason, f. 1972. Maki: Sigríður H. Gunnarsdóttir. Seinni kona hans er: 2) Elín Vigdís Ólafsdóttir, f. 1958. 5) Sigurður Benediktsson, f. 1.12. 1961.

Hólmfríður flutti 12 ára gömul til Siglufjarðar með fjölskyldu sinni, þar sem hún bjó þar til þau hjónin fluttu til Akraness árið 1990. Hún lauk námi í Verslunarskóla Íslands 1942, vann í útibúi Útvegsbanka Íslands á Siglufirði 1942-1948, við húsmóðurstörf, barnauppeldi og síldarsöltun 1948-1965 og á skrifstofu Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði 1965-1990.

Útför Hólmfríðar verður gerð frá Akraneskirkju í dag, 1. júní 2016, og hefst klukkan 14.

Löngu lífi er lokið. Móðir mín kvaddi þennan heim 18. maí sl., 94 ára að aldri. Mamma er sú síðasta til að kveðja af glaðværum systkinahópi sem átti heima í „Íslandsfélagshúsinu“ á Siglufirði fyrir miðja síðustu öld. Upp í hugann koma minningar um fólk og um horfinn heim.

Hún gekk í barnaskóla í Reykjavík, á Akureyri og Siglufirði; í skóla var hún látin flýta sér um bekk til að aðstoða Pétur bróður sinn sem þurfti mikla hjálp í skólanum. Varla þætti það boðlegt fyrir litlar systur núna en þótti sjálfsagt þá og hún gerði það með glöðu geði. Ásamt Braga eldri bróður stóð hún í ströngu við að verja hann fyrir stríðni og einelti. Hún sagði gjarnan um fólk seinna: „Hann var góður við Pétur“ eða „hann var vondur við Pétur“, það var nóg umsögn af hennar hálfu.

Hún hafði ríka réttlætiskennd og sveið þegar karlar sem unnu við hlið hennar í Útvegsbankanum fengu hærra kaup en hún, sem hafði kennt þeim vinnubrögðin. Hún gekk fyrir bankastjóra Útvegsbankans í Reykjavík þegar ekki var hlustað á hana á Siglufirði, og þá sagði hann þau orð sem hún gleymdi aldrei: „Þér verðið að sætta yður við það, Hólmfríður, að þér eruð kona.“ Hún var vissulega glöð yfir að vera kona, en hún var ekki ánægð með það óréttlæti sem konur voru og eru beittar enn þann dag í dag.

Hún gifti sig og stofnaði heimili, þau pabbi byggðu hús ásamt vinum sínum, börn komu eitt af öðru, en sorgin kvaddi einnig dyra, því hún missti á þeim sömu árum bróður sinn, föður og ömmu. Mikið var talað um þau þegar við systkinin vorum að alast upp og við skynjuðum djúpan söknuð. En lífið gekk sinn gang, börnin urðu fleiri og húsið öðlaðist eigið líf þar sem börn þess ólust upp líkt og öll væru systkini og aldrei bar skugga á vinskap frumbýlinganna.

Mamma sinnti húsmóðurstörfunum af alúð, saumaði og prjónaði allan fatnað á börnin og allt lék í höndum hennar. Á vorin voru settar niður kartöflur, á haustin farið í berjamó og saftað, sultað og tekið slátur, en á sumrin kallaði síldin. Tími gafst inn á milli til að heimsækja ömmu og Gunnu systur, að ógleymdum vinkonunum.

Hún var talnaglögg og hafði gaman af að æfa okkur í hugarreikningi, en hafði einnig gaman af tungumálum og hafði lært eitthvað í spænsku. Síldarvinnan var eina „útivinnan“ sem mamma stundaði á þessum árum, þar til hún réðst til Síldarverksmiðju ríkisins, fyrst sem ritari en síðar við útreikninga á vinnulaunum.

Þegar mamma fór á eftirlaun fluttust þau til Akraness, þar sem þau áttu góðan tíma. Hún hafði næmt auga og gaman af fallegum hlutum og blómstraði í handavinnu meðan pabbi sat yfir söguritun og ættfræði. Þegar sjónin dapraðist hvarf margt annað og smám saman fór heilsan að gefa sig. Þau bjuggu heima með hjálp heimaþjónustu fram yfir nírætt og hún naut stuðnings frá pabba meðan hann hafði krafta til.

Fyrir þremur árum fluttu þau á dvalar- og hjúkrunarheimilið Höfða. Þar fann hún til öryggis, hjálpin sem hún þurfti var alltaf veitt með bros á vör og verður seint fullþakkað því frábæra starfsfólki sem þar er.

Eva Benediktsdóttir.

Mannkostir eru gjarnan raktir til ætternis, uppeldis og lífsreynslu. Hólmfríður átti ættir að rekja til hörkuduglegs fólks frá Hornströndum og Ísafjarðardjúpi. Amma hennar, Tormóna Ebenesardóttir, sem missti mann sinn ung lét einskis ófreistað til að koma syni sínum til manns við ákaflega erfiðar aðstæður. Hún var einnig meðal fyrstu kvenna til að stofna til verkfalls á Ísafirði. Þar eð verkfallið dróst á langinn fór hún að vinna við að mylja grjót sem hún svo seldi. Magnús Vagnsson sonur Tormónu og faðir Hólmfríðar var lengi vel sjómaður og skipstjóri sem sigldi víða um höf. Fjölskylda hans bjó fyrst á Ísafirði, en fluttist til Siglufjarðar 1934, en þá var Hólmfríður 12 ára. Magnús gerðist síðar síldarmatsstjóri á Siglufirði. Hann tók meðal annars saman „Handbók síldarverkunarmanna“ árið 1939.

Fríða eins og Hólmfríður var jafnan kölluð giftist Benedikt Sigurðssyni, kennara, baráttumanni verkalýðsins og fræðimanni árið 1949. Erfið lífsbarátta og hagur þeirra sem minna máttu sín voru Fríðu og Benedikt ávallt ofarlega í huga. Það má því með sanni segja að það hafi verið jöfnuður með þeim hjónum.

Ég kynntist Benedikt fyrst sem kennara í Barnaskólanum á Siglufirði, en Fríðu árið 1965, þegar hún gerðist ritari föður míns, Sigurðar Jónssonar framkvæmdastjóra Síldarverksmiðja ríkisins. Pabbi hafði miklar mætur á Fríðu, enda var hún með svipaða menntun og hann úr Verslunarskólanum, sjálfstæð, talnaglögg og samviskusöm.

Ég átti þess síðar kost að kynnast Fríðu og Benedikt betur sem tengdasonur, þá kvæntur Valgerði Eddu. Gísli elsta barn okkar Eddu dvaldist oft á tíðum hjá afa sínum og ömmu á Siglufirði.

Dætur okkar Vala og Margrét nutu einnig ástúðar og umhyggju ömmu sinnar og afa.

Fríða var einstaklega barngóð og ljúf kona. Hún var vel greind hugsjónamanneskja, en hlédræg og lítið fyrir það að vera í sviðsljósinu. Benedikt var aftur á móti í forystusveit Alþýðubandalagsins á Siglufirði. Fríða stóð ætíð þétt við hlið hans í baráttunni fyrir bættum hag verkafólks. Oft var heitt í kolunum á þeim vettvangi á Siglufirði sem var þungamiðja verkalýðsbaráttunnar á síldarárunum enda gat síldveiði og síldarverkun skipt sköpum fyrir þjóðarhaginn.

Hólmfríður er nú látin í góðri elli. Við samtímafólkið minnumst hennar með hlýhug og virðingu. Ég sendi börnum hennar og Benedikts, Ólu, Eddu, Evu, Magnúsi, Sigurði og fjölskyldum þeirra, hugheilar samúðarkveðjur.

Jóhann Ágúst Sigurðsson.

Nú er löng ævi ömmu Fríðu á enda. Þó að við syrgjum hana á þessari stundu getum við systkinin ekki annað en fyllst þakklæti að hafa fengið að njóta góðmennsku hennar og hlýju eins lengi og raun bar vitni.

Amma var merkileg kona að mörgu leyti. Hún var ein af fáum samtímakonum sínum sem útskrifaðist með verslunarpróf, á tímum þar sem fáar konur gengu menntaveginn.

Auk þess að sinna heimili, eiginmanni og fimm börnum vann hún einnig sem ritari afa okkar í föðurættina Sigurðar Jónssonar hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði og bar hann ávallt mikla virðingu fyrir henni.

Amma Fríða var ekki bara dugleg til vinnu, heldur einnig afbragðs húsmóðir. Hún var afar lagin handverkskona og voru hannyrðir hennar helsta áhugamál.

Áður en sjónin fór að versna prjónaði hún mikið, heklaði og föndraði. Það eru ófá listaverkin sem við í fjölskyldunni búum yfir eftir ömmu Fríðu. Hún sinnti líka okkur barnabörnunum af mikilli alúð.

Þegar þau hjónin bjuggu á Siglufirði vorum við tvö eldri systkinin oft lengri tíma hjá ömmu og afa á sumrin eða þegar foreldrar okkar voru við nám. Það var ævintýri líkast að dvelja hjá ömmu og afa á Sigló. Oft voru fleiri barnabörn með í för og gekk á ýmsu. En amma Fríða tók öllu með ró og elskulegheitum. Aldrei heyrðum við hana reiðast eða skammast – hún var alltaf góðmennskan uppmáluð.

Amma Fríða og afi Benedikt voru einstaklega samrýnd hjón og voru svo lánsöm að lifa bæði fram yfir nírætt. Þegar ellin færðist yfir fór sjón og heyrn að bila hjá þeim hjónum eins og gengur og gerist. Þá var gott að eiga hvort annað að – amma var eyrun hans afa og afi var augun hennar.

Þegar afi Benedikt féll frá haustið 2014 var það þungbært fyrir ömmu Fríðu. Það er gott að hugsa til þess að nú skuli hún vera komin til Benedikts síns, systkina og foreldra. Hvíl í friði elsku amma.

Gísli H. Jóhannsson,

Vala D. Jóhannsdóttir,

Margrét G. Jóhannsdóttir.

Mér féll sú blessun í skaut að fá að búa á heimili ömmu og afa allt þetta ár með alla fjölskylduna á Akranesi. Á heimili þeirra fann ég svo sterkt fyrir nálægð þeirra og fannst eins og afi og amma tækju mér opnum örmum og væru að bjóða mig velkomna heim eftir 18 ára búsetu erlendis.

Amma mín og nafna dvaldi orðið á Höfða í umsjá frábærs starfsfólks. Amma var alltaf jafn glöð og hissa að sjá mig koma, alla leið frá Ítalíu, en hún hafði mjög lítið skammtímaminni eins og orðið var. Það urðu því fagnaðarfundir í hvert einasta skipti sem ég kom í heimsókn. Sem var oft en ég hugsaði stundum hvað það væri skrítið að komast ekki oftar til ömmu sem samt var handan við hornið. Hvernig við erum á hlaupum alla daga að gera hluti sem okkur þykja mikilvægir en hafa svo enga merkingu lengur þegar komið er á ömmualdur.

Ég mat þessar friðsælu stundir mikils í félagsskap við ömmu þar sem hún sagði mér ýmislegt úr æsku sinni og ég sagði henni frá börnunum og því sem við vorum að sýsla. Ég valdi oft að fara ein þó að ömmu þætti ekkert skemmtilegra en að hafa börn í heimsókn.

Við töluðum líka um Guð en hún sagðist ekki vera trúuð, jú, að hún tryði nú á einhvern allsherjar Guð sem yfir öllu væri en að hann væri nú ekki mikið að skipta sér af henni. Ég svaraði að það gerði ekkert til því „hann trúir á þig“. Þá hló amma.

„Sæl vinkona,“ sagði hún stundum þegar ég kom og þegar ég spurði hvað væri að frétta hikaði hún og sagði svo: „Ekkert“ og trúði mér fyrir því að hún myndi bara ekkert né sæi lengur.

Samt var alltaf stutt í hláturinn upp á síðkastið, að taka lagið og grínast og hefur minnisleysið hjálpað til að láta ekki veikindi og lát afa draga úr lífsgleðinni. Þegar ég fór þakkaði hún alltaf innilega fyrir heimsóknina.

Minningar um ömmu eru mikið tengdar Siglufirði og sumrunum sem við frænkur áttum þar hjá afa og ömmu á Suðurgötunni. Í minningunni er alltaf sól og gott að borða. Og eftirmatur, alltaf! Allt lék í höndunum á henni og dýrmætt er prjónlesið, saumurinn og hlutirnir sem eftir hana liggja, svo vandað og vel gert.

Það var heldur enginn fullkominn afmælisdagur nema eftir að amma og afi höfðu hringt frá Siglufirði til að óska til hamingju.

Það er varla hægt að tala um ömmu án afa eða afa án ömmu. Hún fylgir hún honum nú aðeins einu og hálfu ári frá láti afa. Amma átti gott og langt líf og var tilbúin að fara núna. Hún skilur eftir sig fjölda afkomenda. Og það var það sem afi sagði við mig þegar ég kvaddi hann í síðasta sinn, „börnin eru það dýrmætasta sem við skiljum eftir okkur“.

Á öðrum í hvítasunnu sat ég hjá ömmu sem leið ekki vel en tók samt undir með mér þegar ég söng fyrir hana.

Þegar ég vaknaði daginn eftir að hún dó hljómaði hluti hvítasunnusálms í huganum þegar ég hugsaði um hana og því læt ég hann fylgja hér.

Ef finnur þú blástur af himnum,

andvara sem hurðirnar skekur.

Hlusta þú: það er rödd sem kallar,

það er boð um að halda af stað.

Það er eldur sem fæðist

í þeim sem kann að bíða,

í þeim sem kann að næra

vonir um ást.

Hólmfríður Þórunn Larsen.