Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Stjórnvöld í Pjongjang skutu í fyrrinótt meðaldrægri eldflaug á loft í tilraunaskyni.

Stjórnvöld í Pjongjang skutu í fyrrinótt meðaldrægri eldflaug á loft í tilraunaskyni. Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu segir tilraunina hafa misheppnast með öllu, en talið er að um sé að ræða skotflaug af gerðinni Musudan, en hún er hönnuð til að bera kjarnaodd.

„Við teljum þetta hafa misheppnast,“ segir Jeon Ha-Gyu, talsmaður herráðsins í Suður-Kóreu, í samtali við fréttaveitu AFP . „Hvers vegna og hvernig þetta mislukkaðist, við erum að reyna að finna út úr því.“

Hersveitir Suður-Kóreu og Japans voru í gær settar í viðbragðsstöðu vegna tilrauna norðanmanna og munu þessar sveitir viðhalda viðbúnaðarstigi sínu áfram.

Suðurkóreski fréttamiðillinn Yonhap hefur greint frá því að eldflaug norðanmanna hafi að líkindum sprungið í loft upp á skotpallinum skömmu áður en hún átti að hefja sig til flugs. „Talið er að nærstaddir hafi slasast alvarlega í sprengingunni,“ segir í áðurnefndri frétt.

Er þetta í fjórða skipti á skömmum tíma sem tilraunir Norður- Kóreu með Musudan-eldflaug misheppnast algerlega. khj@mbl.is