Fullt hús Ísland hefur unnið alla fjóra leiki sína í undankeppninni.
Fullt hús Ísland hefur unnið alla fjóra leiki sína í undankeppninni. — Morgunblaðið/Golli
Skotar búa sig undir algjöran úrslitaleik gegn Íslandi í Falkirk á föstudaginn kl. 18, þegar liðin mætast í undankeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu.

Skotar búa sig undir algjöran úrslitaleik gegn Íslandi í Falkirk á föstudaginn kl. 18, þegar liðin mætast í undankeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu. Íslenski hópurinn er nú allur kominn saman í Skotlandi en Dagný Brynjarsdóttir, sem leikur í Bandaríkjunum, kom síðust til móts við hópinn í gær. Bæði lið hafa unnið alla leiki sína til þessa og það með yfirburðum – Ísland fjóra leiki og Skotland fimm leiki – og ljóst er að þessi tvö lið berjast um efsta sæti 1. riðils.

„Það yrði mikil lyftistöng fyrir okkur að vinna Ísland. Við vitum að þetta verður virkilega krefjandi leikur en allur hópurinn er undir það búinn,“ sagði Jane Ross, framherji skoska liðsins, sem skorað hefur heil átta mörk í undankeppninni til þessa, en markatala Skota er 27:2, og Íslands 17:0, sem undirstrikar yfirburði þessara liða í riðlinum.

Skotar virðast vera á mjög svipuðu róli og Íslendingar voru fyrir 9 árum, sé mið tekið af stöðu liðsins og ummælum leikmanna. Þá átti Ísland fyrir höndum heimaleik við Frakka í undankeppni EM 2009 og tókst að vinna sigur sem átti drjúgan þátt í því að koma liðinu í fyrsta sinn í lokakeppni stórmóts. Þetta vilja Ross og stöllur hennar í skoska liðinu afreka með sams konar hætti:

„Liðið er alltaf að þróast og okkur langar virkilega mikið til að komast í fyrsta sinn á stórmót. Ég held að það yrði risastórt skref fyrir liðið og einnig fyrir knattspyrnu kvenna í landinu. Eftir vonbrigðin í umspilsleikjum síðustu ár held ég að allir séu enn æstari í að taka núna þetta skref,“ sagði Ross sem vonast eftir fjölmenni á leikinn í Falkirk, sem fer fram á gervigrasvelli.

Auk Ross má nefna fjölda öflugra leikmanna í skoska liðinu, sem er aðeins einu sæti neðar en Ísland á styrkleikalista FIFA, í 21. sæti. Kim Little er stórstjarnan, en þar er á ferð frábær leikmaður sem varð bandarískur meistari með Seattle Reign í fyrra og varð næstmarkahæst í þeirri sterku deild. Einnig má nefna Lisu Evans, hjá þýsku meisturunum í Bayern München, og Emmu Mitchell, sem varð bikarmeistari með Arsenal nú í maí.

sindris@mbl.is