Í gær var það tilkynnt að söngleikurinn Lazarus , sem David Bowie skrifaði ásamt Endu Walsh, muni hefja göngu sína í London 25. október næstkomandi. Verkið verður sýnt í King's Cross-leikhúsinu og mun það standa til 21. janúar á næsta ári.
Söngleikurinn er byggður á vísindaskáldsögu Walters Tevis, The Man Who Fell to Earth , frá árinu 1963 en kvikmynd byggð á bókinni, í leikstjórn Nicolas Roeg, kom út árið 1976 og fór Bowie þar einmitt með aðalhlutverk. Leikhúsverk Bowie og Walsh var frumsýnt í New York í fyrra og stóðu sýningar í þrjá mánuði. Þegar farið var að síga á síðari hluta sýninganna lést Bowie úr krabbameini eins og flestum er kunnugt. Michael C. Hall, Michael Esper og Sophia Anne Caruso munu endurtaka leik sinn og fara með aðalhlutverkin í London auk þess sem leikstjóri verksins verður sá sami, Ivo Van Hove. Lög Bowie fá að njóta sín í verkinu og má þar nefna gullmola á borð við „Changes“ og „Life on Mars?“.