[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson var í stóru hlutverki þegar U20 ára landslið Íslands í körfuknattleik hafnaði í öðru sæti B-deildarinnar í Grikklandi á sunnudag.

Körfubolti

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson var í stóru hlutverki þegar U20 ára landslið Íslands í körfuknattleik hafnaði í öðru sæti B-deildarinnar í Grikklandi á sunnudag. Þrjú efstu lið keppninnar komast upp í A-deild en Jón Axel og Kári Jónsson, leikstjórnandi Hauka, voru valdir í úrvalslið mótsins.

„Við sögðum alltaf fyrir mótið að við ætluðum að fara þarna til að vinna en hvort menn hafi bara verið að meina það í djóki eða hvað veit ég ekki. Við vissum fyrir mótið að við værum í gríðarlega sterkum riðli og yrði erfitt verkefni að komast upp úr riðlinum,“ sagði Jón Axel í samtali við Morgunblaðið í gær. Ísland var með Hvíta-Rússlandi, Rússlandi, Eistlandi og Póllandi í riðli. Strákarnir töpuðu fyrsta leik, gegn Hvít-Rússum, en litu ekki um öxl eftir það.

Rúllaði eins og snjóbolti

„Eftir fyrsta leik var útlitið ekki bjart en við vissum að það væri möguleiki. Eftir sigurinn á Rússum hugsuðum við að ef við myndum vinna Eistana næsta dag væru ágætar líkur á því að við kæmumst upp úr riðlinum okkar. Svo þegar kemur að Póllandsleiknum þar sem við vissum að sigur myndi gefa okkur fyrsta sæti var ekkert annað í boði nema að koma með íslensku geðveikina og vinna leikinn. Fyrir okkur var það engin spurning hvort við værum að fara að vinna þann leik eða ekki,“ sagði Jón Axel en Ísland vann Pólland í lokaleik riðilsins og mætti Georgíu í 8-liða úrslitum. Úrslitin í þeim leik voru aldrei spurning en sigurstranglegasta lið mótsins, heimamenn, biðu í undanúrslitunum.

Trylltur leikur gegn Grikkjum

„Aðaláskorunin var að fá Grikkina á heimavelli. Það er einn trylltasti leikur sem ég hef spilað, stemmningin í húsinu og að fá að upplifa þetta er eitthvað sem maður mun aldrei gleyma,“ sagði Grindvíkingurinn en Ísland vann heimamenn með þriggja stiga mun eftir spennandi leik.

Strákarnir urðu að játa sig sigraða í úrslitaleik en þar reyndust Svartfellingar sterkari en framlengingu þurfti í úrslitaleikinn á sunnudag.

„Þeir voru aðeins stærri og meiri íþróttamenn heldur en við. Okkur var sama, við vissum að ef við myndum leggja okkur alla fram þá ættum við

möguleika.Við vorum nálægt en það dugði ekki þann daginn,“ sagði Jón Axel þegar hann dró árangur Íslands á mótinu saman.

Vissi að við gætum valdið usla

Að hans mati kom þessi góði árangur ekki mikið á óvart. Samheldnin og liðsandinn eru góð og ekki skemma góðir þjálfarar fyrir.

„Ég myndi segja að árangurinn hafi ekki komið á óvart. Ef þú horfir á þetta lið þá er þetta gríðarlega sterkur hópur og með gott og vel skipulagt þjálfarateymi þannig að við vissum að við gætum valdið einhverjum usla á mótinu sem við gerðum,“ sagði Jón Axel Guðmundsson en hann var með 16,9 stig, 8,4 fráköst og 4,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var með 23 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar í úrslitaleiknum.