Tilbúnir Leikmenn U20 ára landsliðsins æfðu í Kaplakrika í gær og í dag fara þeir til Danmerkur á Evrópumótið. Þeir mæta Rússum á fimmtudag.
Tilbúnir Leikmenn U20 ára landsliðsins æfðu í Kaplakrika í gær og í dag fara þeir til Danmerkur á Evrópumótið. Þeir mæta Rússum á fimmtudag. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Þorsteinn F. Halldórsson tfh@mbl.is U20 ára landslið Íslands í handbolta karla flýgur til Danmerkur í dag til að keppa á Evrópumóti U20 landsliða sem fer fram dagana 28. júlí til 7. ágúst. Íslenska liðið hefur staðið sig með prýði.

Handbolti

Þorsteinn F. Halldórsson

tfh@mbl.is

U20 ára landslið Íslands í handbolta karla flýgur til Danmerkur í dag til að keppa á Evrópumóti U20 landsliða sem fer fram dagana 28. júlí til 7. ágúst. Íslenska liðið hefur staðið sig með prýði. Það tryggði sér sæti á Evrópumótinu með því að vinna alla sína leiki í undankeppninni sem kláraðist í apríl og á æfingamóti í júní lentu þeir í öðru sæti eftir sigur gegn Spánverjum.

Góður mórall í liðinu

Fyrrverandi landsliðsmaðurinn Ólafur Stefánsson þjálfar liðið ásamt Sigursteini Arndal. Ólafur segir að strákarnir séu andlega undirbúnir fyrir mótið.

„Maður er kominn með ágætistilfinningu fyrir þessum strákum. Þetta eru klókir leikmenn með mikinn karakter. Þeir hafa góðan æfingamóral, gera allt sem þeir eru beðnir um og meira til þannig að hvernig sem þetta allt fer þá geta þeir ekki sagt annað en að þeir hafi tekið undirbúninginn á fullu. En auðvitað ætlum við að sýna þetta á parketinu.“

Enginn auðveldur mótherji

Landsliðið náði góðum árangri síðasta sumar, vann Opna Evrópumótið í Gautaborg og hafnaði í 3. sæti á HM 19 ára liða í Ekaterinburg í Rússlandi. Nú er það í riðli með Rússlandi, Spánverjum og Slóvenum sem öll eru feiknasterk.

„EM er þéttari pakki vegna þess að maður fær eiginlega engan slakan andstæðing. Þetta er mjög erfiður riðill þannig að prófraunin kemur strax. Við höfum Rússana sem eru góðir og sterkir, síðan Slóvena sem voru í öðru sæti síðast og Spánverja sem voru í fjórða sæti. Þannig að þetta er alvöru pakki,“ og bætir við að einbeiting sé lykilatriði.

„Þetta eru þrír leikir og hlutirnir gerast hratt. Þeir þurfa að halda sér skörpum og við þjálfararnir líka. Þetta er 'do-or-die'“

Snýst um að hafa hausinn í lagi

Morgunblaðið hitti Ólaf og landsliðið á æfingu í Kaplakrika. Liðið er að leggja lokahönd á undirbúninginn en á lokametrunum snýst hann sífellt meira um andlega þáttinn

„Þetta hafa verið þrír fasar og við erum á þriðja fasa núna. Við erum að auka hraðann, minnka þyngdina á lyftingunum og skerpa á því helsta. Það er komin meiri krafa um að menn séu að ná hlutunum rétt á parketinu. Nú snýst þetta meira um að vera með hausinn í lagi heldur en það líkamlega.“

Breiddin er lúxus

Að sögn Ólafs hefur liðið glímt við meiðslavandræði undanfarið en nú er útlit fyrir að flestir verði heilir fyrir mótið.

„Þetta er að detta inn. Menn hafa verið inn og út en nú virðast allir vera að smella saman. Það góða er að við erum með breiðan hóp og það eru allir tilbúnir að taka við keflinu. Við erum með tvo til þrjá menn í hverja stöðu og það er lúxus fyrir okkur þjálfarana,“ segir Ólafur og heldur áfram síðustu æfingunni á Íslandi fyrir Evrópumótið.

Evrópukeppnin
» Ísland er í úrslitakeppni sextán liða um Evrópumeistaratitil U20 ára karla sem hefst í Danmörku á fimmtudag.
» Ísland er í B-riðli og mætir Rússlandi á fimmtudag, Slóveníu á föstudag og Spáni á sunnudag.
» Tvö efstu liðin í riðlinum fara í milliriðil 2. og 3. ágúst og mæta tveimur liðum úr A-riðli. Þar eru Frakkland, Sviss, Serbía og Pólland.
» Tvö neðstu liðin fara í keppni um sæti níu til sextán.