Vilborg Sigríður Guðmundsdóttir fæddist að Grjótnesi á Melrakkasléttu 18. júní 1929. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 15. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Björnsson frá Grjótnesi og Þórey Kristín Ólína Böðvarsdóttir frá Hrafnseyri við Arnarfjörð. Systkini Vilborgar voru Björn, f. 16.6. 1926, d. 19.1. 2003, Ragnhildur Guðrún, f. 21.12. 1933, Böðvar, f. 3.2. 1938, og Þórey, f. 30.5. 1945. Eiginmaður Vilborgar var Jósep Þorsteinsson frá Daðastöðum N-Þing., f. 9. október 1920, d. 23. júní 1974. Þau gengu í hjónaband 31. maí 1952. Börn Vilborgar og Jóseps eru: 1) Ómar Örn, f. 8.10. 1952, maki Bergþóra Helgadóttir, f. 4.9. 1948, og eru börn þeirra tvö: Stefán Svan Stefánsson, maki Sunna Dís Kristjánsdóttir og eiga þau þrjú börn: Mikael Darra, Marikó Dís og Manúel Kató, Tinna Guðlaug, kærasti Elvar Guðmundsson. 2) Þorsteinn, f. 14.11. 1953, maki Jóna Guðný Jónsdóttir, f. 16.4. 1955, og eru börn þeirra þrjú: Erna Mary, maki Helgi Þorbjörn Svavarsson, eiga þau þrjú börn: Þóreyju Köru, Svövu Guðnýju og Tjörva Leó, Vilborg Birna, maki Sigmar Ólafsson og eiga þau tvö börn: Rakel og Steinunni Erlu, Jóhann Ómar, maki Hrafnhildur Harðardóttir og eiga þau þrjú börn: Marín, Heiðmar og Hörð. 3) Guðrún Margrét, f. 21.10. 1955, maki Jón Hjálmarsson, f. 8.10. 1955, og eru börn þeirra tvö: Jósep, maki Kolbrún Ásta Jónsdóttir, eiga þau þrjú börn: Jónínu, Aron Frey og Freyju Dís, og Hinrik Már, barn hans er: Enja Alexandría. 4) Hólmfríður Kristín, f. 22.10. 1958, maki Tor Erik Nerland, f. 21.6. 1958, og eiga þau tvö börn: Ninu og Chris Arnar, maki Kine Blekkerud og eiga þau eitt barn, Kasper. 5) Eyþór Ragnar, f. 30.7. 1962, maki Stella Gestsdóttir, f. 25.5. 1969, og eiga þau þrjú börn: Tómas Örn, maki Elfa Rún Friðriksdóttir, eiga þau eitt barn: Alexander Örn, Sandra Friðriksdóttir, maki Helgi Rúnar Þorsteinsson og eiga þau þrjú börn: Mikael, Anastasíu og óskírður, og Jón Helgi, kærasta Inga Líf Ingimarsdóttir.

Útför Vilborgar Sigríðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 26. júlí 2016, kl. 13.30.

Í dag, þriðjudaginn 26. júlí 2016, kveðjum við mömmu og fylgjum henni til moldar. Við systkinin áttum samleið með mömmu síðan um miðja síðustu öld, sem telst allnokkur tími og það gefst ekki öllum að eiga svo langan tíma saman. Fyrst bjuggum við á Kópaskeri þar sem mamma var húsfreyja eins og yfirleitt allar mömmur voru á þeim árum, en pabbi, sem var bifvélavirki, vann á bílaverkstæði KNÞ. Á Kópaskeri byggðu þau hús sem fékk nafnið Klappir og eru minningar frá þessum tíma mest bundnar við bernskuleiki eins og gerist hjá krökkum, en líka við að snemma tókum við þátt í því sem gera þurfti. Mamma lét okkur hjálpa til með ýmislegt – sækja mjólk upp í Hjarðarás t.d. – og að minnsta kosti eitt haust unnum við tveir elstu bræðurnir í sláturhúsinu, þá líklega 10 og 11 ára gamlir. Það voru líka sviðnir hausar í kolasmiðjunni við Sandhóla og við tókum þátt í því. Trúlega þætti það ekki við hæfi í nútímanum. Við fluttum síðan til Akureyrar 1963. Mamma og konurnar á Kópaskeri felldu tár þegar þær kvöddust en við krakkarnir hlökkuðum til ævintýrsins sem beið. Fyrsta veturinn bjuggum við í Hafnarstræti 88 en mamma og pabbi keyptu síðan fokhelda raðhúsaíbúð að Vanabyggð 8e og vorum við tveir elstu látnir taka þátt þar líka við að naglhreinsa og skafa timbur, mála og ýmislegt tilfallandi. Þetta hafðist allt saman og inn var flutt vorið eftir. Maður gerði sér ekki grein fyrir því þá hvað mæddi mikið á mömmu, en hún var heima með þrjú yngri systkinin, það yngsta um ársgamalt. Fljótlega eftir að við fluttum í Vanabyggðina fékk pabbi fyrsta hjartaáfallið sitt og gat ekki unnið af þeim sökum. Þá voru engar tryggingar til sem tóku við að greiða laun þegar fólk gat ekki unnið og því varð heimilið tekjulaust þó að áfram þyrfti að reka það og borga af lánum. Þá var mikið borðað af hafragraut, skyrhræringi og slátri. Á þessum tíma reyndi mjög á fjölskylduna og mest þó á mömmu. Hún bar þess nokkur merki alla tíð síðar þótt hún bæri sig vel. Mamma hafði mikið yndi af tónlist og sérstaklega kórsöng, en hún söng í Söngfélaginu Gýgju sem var kvennakór sem Jakob heitinn Tryggvason organisti stjórnaði og einnig söng hún í kór Akureyrarkirkju í fjöldamörg ár og var heiðursfélagi þar. Mamma var ekki allra og gat verið dómhörð og þrjósk og hélt hiklaust fram skoðun sinni. Fólkið í kringum hana var margt hvert meðvitað um þetta og lifði bara með því. Hún var mikil hannyrðakona og prjónaði og heklaði gríðarlega mikið í gegnum tíðina. Til hennar sóttu konurnar mikið með tilsögn og eða fróðleik í slíku og hafa margar látið vel af þeim samskiptum við hana. Það var erfitt hjá mömmu síðustu mánuðina, en hún greindist með krabbamein í byrjun júní og varð að játa sig sigraða hinn 15. júlí sl. er hún andaðist á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Elsku mamma, við kveðjum þig með söknuði og virðingu. Hafðu þökk fyrir samfylgdina, far þú í friði og megi sál þín öðlast hvíld eilífðarinnar.

Ómar Örn,

Þorsteinn,

Hólmfríður Kristín.

Elsku mamma mín. Nú ert þú farin frá okkur og ég reikna með að hann pabbi hafi tekið vel á móti þér. Framan af ævi voru samskipti okkar ekki endilega mjög náin en með tímanum lærðist okkur að maður er manns gaman og við náðum mjög vel saman og gátum talað um margt. Þú varst mjög dugleg, ákveðin og góð kona, þú vissir hvað þú vildir og sagðir meiningu þína umbúðalaust. Nú er ekki lengur hægt að koma frá Noregi og vera hjá þér. Þar brölluðum við mikið saman, fórum í skápana og t.d. í sviðaveislu í brjáluðu veðri. Það er gott að hugsa um þessar stundir núna. Ég sakna þín mjög mikið og það er skrýtinn tími framundan. Elsku mamma mín, hvíldu þig núna og láttu þér líða vel.

Saknaðarkveðjur frá

Guðrúnu (Gúu).

Elsku mamma. Nú er kveðjustundin komin. Þú sagðir nú bara að það yrði að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti þegar við fengum fréttirnar. Þarna sannaðir þú eina ferðina enn hversu mögnuð manneskja þú varst. Það er ekki hægt að halda því fram að lífið hafi alltaf verið dans á rósum hjá þér. Þú vannst á tveimur stöðum til að ná endum saman. Hvernig fórstu að þessu öllu? Borga af húsinu og allt annað og bara t.d. að ferma mig. Sérsaumuð jakkaföt því ég var svo lítill. Þetta græjaðir þú allt saman. Þegar ég varð sautján ára keyptum við okkur bíl saman. Þín skilyrði voru þau að ég mundi alltaf keyra þig þegar að þú þyrftir á því að halda og ekkert kjaftæði. Ég hélt það nú, að þetta yrði frekar létt mál en ekki alltaf. Þú vildir alltaf fara af stað í vinnuna klukkan 6.15. Vinnan hefst kl. sjö, Eyþór. Seinna áttaði ég mig á að það er akkúrat svona fólk sem maður vill hafa í vinnu. Þú varst snögg þegar Linda hringdi í þig og Tómas Örn var rúmlega mánaðar gamall og grét bara og grét. Ég út á sjó og því ekki til staðar. Linda alein með litla kút. Þú snaraðist út í Vestursíðu í leigubíl um leið og þú sást þann stutta var hringt í sjúkrabíl, upp á sjúkrahús með hann í einum hvelli og beint í uppskurð. Takk fyrir, mamma, að vera alltaf til staðar fyrir mig og mína. Ég man ekki eftir þér öðruvísi en með handavinnu, á því sviði varst þú einstakur snillingur. Við vorum ekki alltaf sammála og tókumst oft á með miklum hávaða og hvellum. Við gátum hins vegar alltaf jafnað þetta og í seinni tíð ræddum við þetta oft. Eftir að þú dast og misstir sjónina á öðru auganu var lífið hjá þér töluvert snúnara. Í framhaldinu fórst þú í augnsprautur til Reykjavíkur. Þú leist á þessar ferðir sem skemmtiferðir og vildir fá fulla þjónustu. En full þjónusta var samt ekki að þínu áliti nema Stella kæmi með. Í þessum ferðum okkar kynntust við upp á nýtt, má segja. Við ræddum mál sem aldrei höfðu verið rædd, tókumst á og sættumst og þú fórst yfir mikið af gömlum hlutum með mér. Núna átta ég mig á því að þessar ferðir eru mér mjög dýrmætar. Eina ferð fóru þið Jón Helgi saman og þú plataðir hann auðvitað með þér í Verðlistann að kaupa jakka. Sumarið sem ég varð fimm ára og við í Leirhöfn, ég var því einstaklega heppin að eiga tvö sett af foreldrum. Svona sumarforeldra og svo vetrarforeldra og fá að alast upp í Leirhöfn. Þú getur því alveg farið áhyggjulaus og róleg, mamma, því Dýrleif mun halda áfram að passa upp á elsku drenginn ykkar og verja fyrir árásum Hildar og hinna systkina minna, því það máttu bóka að skotin halda áfram frá þeim. Þú varst ákaflega ákveðin kona, t.d. var alltaf eins sætaskipan á gamlárskvöld hjá okkur Stellu. En eftir að Viðarholtshjón féllu frá skipaðir þú Gesti og Ingu að sitja hjá þér og ekkert pex. Fram á síðasta dag varstu þú með allt á hreinu, fylgdist með. Stjórnaðir í okkur öllum. Þú náðir líka að skamma okkur börnin þín þegar að við sátum hjá þér uppi á Hlíð og vorum að tala um forsetakosningarnar. Hættið að tala um kosningarnar, ég er orðin hundleið á þeim sagðir þú svona frekar ákveðin, talið heldur um eitthvað skemmtilegra. Veistu það, mamma, þarna hélt ég að þú værir orðin fullfrísk aftur. Þetta var svo ekta þú og þannig ætla ég að muna þig. Elsku mamma,

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Þinn sonur,

Eyþór.

Í dag, 26. júlí, fylgi ég tengdamóður minni, Vilborgu S. Guðmundsdóttur, til grafar. Það eru orðin 45 ár síðan við hittumst fyrst, þannig að við vorum farnar að þekkjast nokkuð vel, ekki man ég eftir því að við rifumst nokkurn tíma, en við vorum ekkert alltaf sammála. Langar mig að þakka henni fyrir samfylgdina í öll þessi ár, allar góðu stundirnar sem við áttum saman yfir kaffibolla og súkkulaðirúsínum, allar flíkurnar sem hún prjónaði á mig sem ég mátti velja sjálf upp úr prjónablöðum sem hún átti og var áskrifandi að. Hún fylgdist vel með öllum nýjungum í hannyrðum og var ótrúlega lagin í höndunum með það sem hún tók sér fyrir hendur, sérstaklega í prjónaskap og allur frágangur svo fallegur og var algjör snillingur á því sviði. Fyrir nokkrum árum datt hún á andlitið á annað augað og varð blind á því eftir það og var það mikið áfall. Strax eftir síðustu áramót fór heilsan að versna hjá henni og greindist hún með krabbamein sem fannst ekki fyrr en rúmlega mánuði áður en yfir lauk.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Þín tengdadóttir,

Jóna (Didda).

Villu, systur mína, man ég frá því ég man fyrst eftir mér. Hún var alltaf til staðar þegar ég þurfti á að halda, enda notaði ég mér það þó ekki væri það alltaf sanngjarnt. Dýrasta minningin er frá því, þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn. Þannig háttaði til, að sóttur var læknir, enda í næsta húsi – eða svo til. Honum var boðið kaffi og karlarnir á heimilinu tóku að ræða sitt aðaláhugamál, þ.e.a.s. ættfræði. Sængurkonan lét eitthvað í sér heyra og talað var um, að mál væri að sækja ljósmóður. Það taldi læknirinn að væri óþarfi – í bili a.m.k. Þá setti Villa systir upp svip og sagði við háttvirta karlana, að nú væri komið að því að drífa sig og skipaði þeim að sækja ljósmóðurina ekki seinna en strax. Þeir létu sig hafa það að gera eins og Vilborg skipaði – þorðu víst ekki annað. Villa systir mín var hreinskiptin, góðum gáfum gædd og fór ekki dult með skoðanir sínar. Var enda gjarna kosin til trúnaðarstarfa á vinnustöðum þar sem hún starfaði. Hún var skörp og fylgin sér og ég sakna hennar mikið. Þótt oft væru miklar vegalengdir á milli okkar voru þær aldrei langar, því þannig var tengingin.

Ragnhildur (Dúna).

Það verður skrítið að fara ekki í heimsókn í Tjarnarlundinn til ömmu minnar Villu. „Nafna mín“ kallaði hún mig alltaf. Hún átti alltaf til súkkulaðirúsínur í skál á eldhúsborðinu. Og það var gaman að sitja þar og spjalla við hana um allt og ekkert. Oftar en ekki talaði hún um sitt aðaláhugamál, prjónaskapinn. Ég man varla eftir ömmu öðruvísi en að prjóna. Það var hennar aðalástríða. Og um hver jól og á hverju afmæli leyndist eitthvað prjónað frá ömmu í pakkanum. Peysur, sokkar, vettlingar, húfur, handklæði, þvottapokar, tuskur, nærbolir, buxur og alls konar fleira skemmtilegt. Börn, barnabörn og barnabarnabörn, við eigum öll handprjónaðar flíkur frá ömmu Villu. Meira að segja vinkonur mínar leituðu til hennar eftir prjónaflík. Þar sem ég bar sama nafn og hún arfleiddi hún mig að nokkrum munum í gegnum tíðina sem eru mér afar mikilvægir. Og hún fór svo skemmtilega að því. Gaf mér til dæmis eitt bollasettið sitt í jólagjöf eitt árið. Fyrstu bollana sem þau afi Jósep keyptu sér. Amma Villa vissi að mér þótti vænt um svona hluti. Henni fannst líka skemmtilegt þegar ég fékk einu sinni gamlan kjól af henni til að fara í brúðkaup. Og sextíu ára gömlu niðursuðukrukkurnar hennar sem ég notaði svo í brúðkaupinu mínu sem skreytingar á borðin. Henni fannst vænt um það. „Ef þú getur notað þetta, nafna mín, þá endilega taktu þetta.“ Og mér fannst svo vænt um að hafa eitthvað persónulegt á borðunum. Þó að það væru bara gamlar niðursuðukrukkur.

Amma mín drakk aldrei neitt annað en mjólk með mat. Jafnvel á jólunum með rjúpunum. Bara mjólk. En nú þarf ekki að ná í mjólk á veisluborðið lengur. Nú þegar amma mín er búin að kveðja verður auðvitað margt öðruvísi. Hún var einn af föstu punktunum í tilveru minni. Elsku amma, ég er svo þakklát fyrir tímann sem ég átti með þér fyrr í sumar. Þú varst komin á sjúkrahúsið og svo héldum við upp á afmælið þitt þann 18. júní. Það var svo erfitt að kveðja þig þegar ég fór aftur suður. Ég var samt alveg viss um að ég myndi sjá þig aftur því þú varst alltaf svo seig. Komst alltaf í gegnum allt og lentir á fótunum. En það var víst komið að leiðarlokum.

Elsku amma, takk fyrir allt. Takk fyrir prjónuðu peysurnar á mig og fjölskyldu mína. Takk fyrir alla ullarsokkana sem stelpurnar mínar notuðu á leikskólanum. Takk fyrir allar tuskurnar sem ég nota á hverjum degi. Ég á eftir að sakna þín mikið. Þín nafna,

Vilborg.

Við kynntumst í kvennakórnum Gígjunni. Ég þekkti engan í kórnum en á fyrstu æfingu var mér sagt að setjast í fyrstu altrödd við hliðina á einarðlegri konu með stutt hár. Hún hafði svo góða nærveru að mér fannst strax eins og við hefðum þekkst lengi og með okkur tókust góð kynni sem entust alla tíð. Þetta var hún Vilborg, alltaf kölluð Villa. Hún var mjög músíkölsk og hafði næma tónheyrn og söngurinn var hennar líf og yndi. Hún hafði ákveðnar skoðanir á kórstarfinu og tónlistinni og lét þær óspart í ljós enda var hún komin af miklu tónlistarfólki. Okkur líkaði vel við nákvæm og vandvirknisleg vinnubrögð Jakobs Tryggvasonar, sem stjórnaði kórnum, og þetta var góður félagsskapur.

Villa var ættuð frá Kópaskeri og henni þótti afar vænt um heimahagana. Hennar kynslóð þekkti mikla vinnu og lítil þægindi. Hún hafði staðið fyrir stóru heimili og átti fimm börn. Hún missti manninn sinn á besta aldri og vann mikið utan heimilis. Eftir að hún hætti að vinna gerðist hún mikil handavinnukona og prjónaði og heklaði dýrindisflíkur og handklæði og pottaleppa og mætti svo lengi telja. Allt sem hún lét frá sér var snilldarlega unnið. Ef mig vantaði tækifærisgjafir fór ég til Villu og keypti eitthvað af hennar fallegu handavinnu og enginn var svikinn af þeim gjöfum. Þegar ég fór út að ganga með tvíburadætur mínar í kerru var notalegt að stinga sér inn hjá Villu í kaffi og spjall. Það var endurnærandi að spjalla við hana um menn og málefni, gamla og nýja tíma og skemmtilega tíma í kórastarfinu.

Svo lágu leiðir okkar aftur saman i Kór Akureyrarkirkju og það var ekki amalegt að setjast aftur við hlið Villu og syngja altrödd. Hún þoldi enga falska tóna og hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum og lá ekki á þeim. Villa tók virkan þátt í starfi kórsins og átti þar sínar bestu stundir. Við urðum oft samferða á æfingar og það voru ánægjulegar samverustundir. Síðustu ár voru henni erfið þar sem hún átti við ýmis veikindi og sjóndepurð að stríða. Ég sá hana síðast um miðjan júní og þá var augljóst að nú leið að ferðalokum. Ég samgleðst henni að vera nú laus úr viðjum veikindanna. Við Benni sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Vilborgar Guðmundsdóttur.

Ragnheiður Hansdóttir.

Mig langar að minnast góðrar vinkonu, hennar Villu minnar.

Við kynntumst fyrst þegar ég álpaðist á æfingu hjá Kór Akureyrarkirkju haustið 1987. Ég entist þó ekki lengi í kórnum í það sinnið, en mætti svo aftur haustið 1999 og hef síðan verið í kórnum, kórnum hennar Villu!

Við sungum sömu rödd, það er að segja Alt2, og endalaust gat ég flett upp í henni, þegar ég var ekki viss hvaða tón ætti að notast við skrifaðar nótur í höndunum á mér. Hún var með afbrigðum tónviss, og lá ekki á því, ef maður söng ekki rétt. Af fáum hef ég lært meira.

Vinskapurinn þróaðist og það varð að fastri venju að ég liti í kaffisopa á laugardagsmorgnum og þá var nú margt spjallað, og rifjuð upp atvik í ferðum kórsins innanlands og utan. Margt skemmtilegt gerðist í þessum ferðum og varð til endalauss hláturs í minningunni.

Við gerðum reyndar meira en að spjalla. Áhuga á handavinnu áttum við sameiginlegan og sátum oft og prjónuðum eða hekluðum, flettum uppskriftum og bárum saman bækur okkar. Villa sýndi mér alls konar gullfallegt handverk sem hún hafði gert á liðnum árum. Fyrir nú utan allt sem hún gaf fólkinu sínu í tækifærisgjafir. Auðvitað skiptust á skin og skúrir í okkar lífi og þá leituðum við styrks hvor hjá annarri.

Nú er komið að leiðarlokum í bili.

Ég mun virkilega sakna laugardagsheimsóknanna, sem ég held að hafi gert okkur báðum gott.

Hvíl í friði, elsku Villa.

Þín vinkona,

Margrét (Madda).