Stefnumótun ESB í málefnum flóttamanna mótaðist í uppnámi leiðtoga þess

Það er örugglega rétt að hið svokallaða Ríki íslams, Isis, á í vaxandi erfiðleikum með að halda í ránsfeng sinn, landsvæði innan Íraks og Sýrlands.

Mörg ríki taka nú virkari þátt í árásum á Isis, og eru skotmörk sem áður voru undanþegin ekki friðhelg lengur.

Og eins er líklegt að áhersluna sem nú er lögð á að fá heilaþvegna „verktaka“ á Vesturlöndum í hryðjuverkin þar megi rekja til varnarbaráttu á heimaslóð.

Þótt það fyrra sé fagnaðarefni, er hið síðara óþolandi, óþverraleg áþján fyrir þjóðfélögin sem legið hafa undir árásum á almenning.

Frakkland hefur sætt miklum árásum og nú síðustu vikurnar eru merki um að hermdarverk gegn Þýskalandi, forysturíki Evrópusambandsins, fari vaxandi.

Sífellt meira ber á gagnrýni vegna stefnumótunar Merkel kanslara í málefnum flóttamanna og innflytjenda. Þótt ekki sé þar allt sanngjarnt, þá virðist sú stefna ekki hafa verið hugsuð í þaula. Stjórnmálaleg ólga kviknaði innan Evrópusambandsins þegar flóttamannastraumurinn óx hratt í kjölfar yfirlýsinga Merkel, sem túlkaðar voru á þá leið að dyrum Evrópu yrði alls ekki lokað á fólk á flótta, né á þá sem leituðu í lífvænlegra umhverfi.

Merkel kanslari og aðrir leiðtogar Evrópu samþykktu í framhaldinu millileið sem draga skyldi úr hinum þunga straumi. Þótt niðurstaðan hafi sætt gagnrýni víða, þá hefur hún komið að gagni, a.m.k. enn sem komið er.

En til viðbótar því, að fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og mannréttindastofnana telja framkvæmdina gallaða og samþykktirnar stangast á við alþjóðlegt regluverk og þau gildi sem þessir aðilar eiga að gæta, þá hvílir hún að auki í ýmsum efnum á veikum grunni. Meginforsenda þess að hún gangi upp eru samningar við Tyrkland Erdogans forseta. Þá kárnar gamanið.

Allar lýðræðisþjóðir myndu bregðast mjög hart við tilraun hersins í löndum þeirra til að hrifsa til sín öll völd. Varla er hægt að hugsa sér aðra eins atlögu og ógn í landi sem treystir á sitt lýðræðisskipulag. En þrátt fyrir þau algildu sannindi, þá eiga viðbrögð forystumanna þjóðar við valdaráni hersins samt sín takmörk. Enn er margt óljóst um aðdraganda valdaránsins, hverjir stóðu bak við það og hverjir voru virkir þátttakendur eða beinir og svo óbeinir stuðningsmenn. Á þessum hópum er auðvitað grundvallarmunur. Við þetta bætist, svo undarlega sem það kann að hljóma, að þeir eru til í hópi venjulegs fólks í Tyrklandi sem samsinna rökum hersins um það að hann hafi fengið það í vöggugjöf, frá Atatürk landsföður, að tryggja skil á milli stjórnmála og trúarlegra kennisetninga. Yfirvöld seilast mjög langt meðhöndli þau þá sem landráðamenn, sem hafa þess háttar sjónarmið, en hafa lítt eða ekkert aðhafst. Gildir einu hvort í hlut eiga blaðamenn, kennarar eða stjórnarandstæðingar.

Augljóst er að ýmsir forystumenn ESB telja að viðbrögð yfirvalda í Ankara við valdaránstilraun séu þegar komin að þolmörkum. Sumir þeirra hafa um það stór orð.

Það fer ekki fram hjá neinum að Erdogan forseti er ekki mjög móttækilegur fyrir gagnrýni. Hann er hins vegar harður í horn að taka og snar í snúningum. Og hvað sem síðar verður, þá eru þeir ekki margir í augnablikinu sem setja forsetanum stólinn fyrir dyrnar.

Stefna ESB í málefnum flóttamanna, sem er viðkvæmasta mál sem sambandið fæst nú við, hangir að miklu leyti á velvild og stillingu Erdogans forseta. Það getur ekki verið mjög notaleg staða fyrir Merkel kanslara. Ekki mikið betri en staðan væri fyrir Hillary Clinton, ef endanleg úrslit í tölvupóstamáli hennar færu eftir velvild og dómgreind Donalds J. Trump.