„Þetta er metár í komu farþegaskipa. Það verða hátt í fjörutíu skemmtiferðaskip sem koma hér við í ár,“ segir Páll Marvin Jónsson, formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja.
Í gær komu þrjú skemmtiferðaskip til hafnar á sama deginum í Heimaey. Yfir þúsund ferðamenn af skipunum gerðu sér ferð í bæinn og setti þessi fjöldi ferðamanna svip á hann, enda búa ekki nema rúm fjögur þúsund manns í Vestmannaeyjabæ. Skipin heita Ocean Diamond, Saga Sapphire og L'Austral.
Tvö þeirra komu í höfn. Annað lagðist að Nausthamarsbryggju og hitt lá í Friðarhöfn. En aðeins skip sem eru undir 160 metrum koma alla leið í höfnina.
Þegar eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Viking Tours í Eyjum, Sigmar Einarsson, er spurður hvort hann finni fyrir þessu í sínum rekstri, segir hann: „Já, heldur betur. Báðir bátarnir eru búnir að vera á fullu í allan dag og sömuleiðis allar sex rúturnar.“ borkur@mbl.is