Enska úrvalsdeildarfélagið Stoke City tilkynnti í gær um kaup á velska landsliðsmanninum Joe Allen en hann kemur frá Liverpool.
Allen, sem er 26 ára gamall, fór mikinn með landsliði Wales á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar og átti þátt í að koma því alla leið í undanúrslitin þar. Hann hefur leikið með Liverpool frá 2012 og spilað 91 leik með félaginu í úrvalsdeildinni. Liverpool samþykkti 13 milljóna punda tilboð í Allen á dögunum og í gær voru félagaskiptin staðfest af báðum félögum.
Stoke keypti tvo leikmenn í gær því félagið fékk einnig til sín egypskan kantmann, Ramadam Sobhi, frá Al Ahly, sem getur fengið allt að fimm milljónum punda fyrir hann. Sobhi er 19 ára gamall og hefur spilað mikið fyrir egypska meistaraliðið þrátt fyrir ungan aldur.