Kristín Þorbjörg Ólafsdóttir fæddist 13. maí 1959. Hún lést 3. júlí 2016.

Kristín var jarðsungin 9. júlí 2016.

Í minningu góðrar vinkonu, hennar Stínu, sem lést 3. júlí sl., fer hugurinn alla leið til unglingsáranna, við kynntumst í Fellaskóla og nokkrum árum síðar lágu leiðir okkar saman að nýju í Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni. Þar myndaðist traust og góð vinátta . Ferðin okkar til Vestmannaeyja var ávallt rifjuð upp með miklum hlátrasköllum og þegar kom að því að við fengjum bílprófið var Stína ávallt á rúntinum og ekki á minni bíl en Range Rover.

Stína varð bóndakona i Flóanum og eiga þau Ingjaldur fjögur börn og barnabörnin veittu henni einstaka gleði. Þau voru höfðingjar heim að sækja, mikil gleði og umhyggja einkenndi heimilið. Þó svo að umgangur milli okkar hafi minnkað þá var sterk vinartaug sem tengdi okkur öll árin.

Veikindi settu strik i lífshlaup Stínu en með æðruleysi og húmor að leiðarljósi tókst henni að halda sinni reisn. Vil ég senda mínar innilegustu samúðarkveðjur til ástvina hennar, og kveð ég mína vinkonu með virðingu og þökk fyrir allt og allt.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Björg Lárusdóttir (Böggý).