Hartmann Jónsson (Manni) fæddist á Siglufirði 1. nóvember 1933. Hann lést á Siglufirði 15. júlí 2016.

Foreldrar Hartmanns voru Jón Daníelsson, f. 6.8. 1901, d. 31.8. 1991, og Ástríður Jónsdóttir, f. 26.2. 1915, d. 2.6. 1962. Systur hans voru fjórar. Þær Ásta sem er búsett í Ameríku, Björk sem býr í Danmörk og Rúna og Eva, látnar.

Eiginkona Hartmanns var Sveinbjörg Helgadóttir, f. 30.1. 1931, d. 22.9. 1995. Börn Hartmanns og Sveinbjargar eru: Áslaug Hartmannsdóttir, f. 1958, gift Ingvari Stefánssyni. Hrafnhildur Hartmannsdóttir, f. 1960, gift Þorkeli Svarfdal Hilmarssyni. Ástríður Hartmannsdóttir, f. 1962, gift Ingólfi Jóni Magnússyni. Daníel Rafn Hartmannsson, f. 1966.

Hartmann bjó í Kópavogi, fyrst á Mánabrautinni og svo í Hamraborginni. Hann starfaði lengst af hjá Vegagerð ríkisins.

Útför Hartmanns fer fram frá Digraneskirkju í dag, 26. júlí 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Hann tengdafaðir minn, Hartmann Jónsson, fór sínar eigin leiðir í lífinu. Hann var mjög fastur á sínu, það þýddi nú lítið að þrasa við hann, maður laut alltaf í lægra haldi þar, hann hafði alltaf sínar skoðanir á hlutunum.

Hann var mjög hjálpsamur og ef mann vantaði eitthvað þá var hann fljótur að redda því.

Eitt sinn er ég hafði orð á því að ég þyrfti að skipta út borðinu í húsbílnum sagði hann: „Ég skal athuga það.“ Það þýddi að hann var farinn á fullt að leita að því og það liðu ekki margar klukkustundir uns hann kom með borðið og sagði að hann hefði fundið það hjá vini sínum og ég gæti fengið það fyrir sanngjarnan aur.

Hann átti fjölmarga vini sem hann var daglegur gestur hjá og voru greiðviknir eins og hann.

Hann fylgdist vel með öllum í kringum sig, spurðist alltaf fyrir um barnabörnin og vildi vita hvað væri í vændum.

Hann var bílstjóri af lífi og sál og átti vegina út af fyrir sig. Hans daglegi rúntur var um höfnina í Kópavogi og Hafnarfirði.

Ferðalög voru hans yndi, en seinni árin fór hann þó aðallega innanlands á húsbílnum sínum að veiða í Þórisvatni eða Straumfirði og reglulega til Siglufjarðar þar sem hans heimaslóðir voru og þar var hann einmitt staddur er hann lést.

Tendamóðir mín, Sveinbjörg Helgadóttir, lést 22. september 1995.

Hvíl í friði.

Þorkell Svarfdal

Hilmarsson.