Drónaflug Skilti sem bannar drónaflug.
Drónaflug Skilti sem bannar drónaflug.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Tveir ótengdir einstaklingar fengu fyrirtækið SG-Merkingu til þess að gera fyrir sig skilti, sem sýna að notkun dróna er bönnuð á landi þeirra.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Tveir ótengdir einstaklingar fengu fyrirtækið SG-Merkingu til þess að gera fyrir sig skilti, sem sýna að notkun dróna er bönnuð á landi þeirra. Ástæðan sem báðir gáfu upp var sú að svo virtist sem óprúttnir aðilar væru að mynda „berbrjósta konur“ í sólbaði með hjálp dróna að sögn Þorsteins Gíslasonar, eiganda SG-Merkinga. „Þeim fannst þetta óþægilegt, konunum sem voru í sólbaði,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að alls hafi hann búið til sex skilti sem ætlað er að gefa til kynna að drónaflug sé bannað. „Þeir tilgreindu þessa ástæðu og ég hannaði þetta fyrir þá. Annar er af Suðurlandi og hinn af Vesturlandi. Annar þeirra ætlaði vísu líka að nota skilti á veiðisvæði, þar sem það er svolítill hávaði af þessu,“ segir Þorsteinn.

Húsbílaskilti um allt land

Að sögn fær hann reglulegar bónir um að gera skilti fyrir einkaaðila. Í flestum tilvikum er um að ræða hefðbundin skilti þar sem t.a.m. er tilgreint að um sé að ræða einkaveg sem ekki er heimilt að aka um eða staði þar sem bifreiðastöður eru bannaðar.

Sífellt verður þó algengara að Þorsteinn geri skilti fyrir einkaaðila þar sem tilgreint er að bannað sé að leggja húsbílum þar sem fólk hyggst dvelja næturlangt. „Þau skilti eru út um allt land. Það er á ótrúlegustu stöðum sem fólk hefur sett þetta upp. Öllum virðist bera saman um það að ferðamenn telji sig geta lagt hvar sem er og gert stykki sín úti án þess að borga fyrir tjaldsvæði,“ segir Þorsteinn.

Losað úr salerni í trjálund

Hann segist hafa síðast í gær selt eitt slíkt skilti til fólks sem býr nærri Ásbyrgi. „Í því tilviki ætluðu þau að setja skiltið upp því þau komu að trjálundi þar sem bíll hafði verið og þar var engu líkara en að losað hafi verið úr klósetti og allt í viðbjóði,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að á meðal óhefðbundnari skilta sem hann hafi gert hafi verið með þeim skilaboðum að óheimilt sé að þrífa sig á bílaþvottaplani. „Það var á Suðurlandi og þar voru víst einhverjir sem háttuðu sig á bílaþvottaplaninu, settu á sig sápu og smúluðu sig svo áður en þeir fóru í fötin að nýju,“ segir Þorsteinn og hlær.