Erill Tvívegis í síðustu viku var álag á spítalanum metið á þriðja stigi. Aukið álag er á LSH vegna sumarfría. Næstu tvær vikur verða þyngstar, aðsögn aðstoðarmanns forstjóra spítalans.
Erill Tvívegis í síðustu viku var álag á spítalanum metið á þriðja stigi. Aukið álag er á LSH vegna sumarfría. Næstu tvær vikur verða þyngstar, aðsögn aðstoðarmanns forstjóra spítalans. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Aukið álag er á starfsfólki Landspítalans yfir sumartímann vegna manneklu sem tengist sumarfríum.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Aukið álag er á starfsfólki Landspítalans yfir sumartímann vegna manneklu sem tengist sumarfríum. Af þeim sökum eru 63 sjúkrarúm ekki í notkun, en það eru um 10% allra sjúkrarúma á spítalanum að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.

Hún segir að ekki sé dregið meira saman nú en áður yfir sumartímann. „Þetta hefur þau áhrif að flæðið verður hægara en við hefðum viljað,“ segir Anna Sigrún.

Hún segir að yfir sumartímann sé dregið úr skipulögðum aðgerðum. Á móti sé meira álag á öðrum sviðum spítalans, t.a.m. bráðamóttöku, sem ekki síst er tengt auknum fjölda ferðamanna í landinu. Þá er einnig dregið úr starfsemi hjá heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasjúkrahúsum, sem eykur álag enn frekar.

Frá áramótum hefur sjúkrahúsið unnið eftir skipulagi þar sem gefin eru álagsstig miðað við fjölda sjúklinga í húsinu. Hverjum degi er gefið stig miðað við getu hússins til þess að taka á móti sjúklingum og fara stigin hækkandi eftir álagi.

Tvívegis í síðustu viku var álag innanhúss þess eðlis að viðbúnaður fór á þriðja og efsta stig. „Á stigi eitt förum við fram á að deildir bæti við sig sjúklingum, þá fara kannski eitt til tvö rúm á ganginn. Á stigi tvö bætum við enn í gangainnlagnir. Í síðustu viku fórum við á þriðja stigið. Við þurftum samt ekki að nota bílskúrinn eða eitthvað slíkt, og við náðum að klóra okkur fram úr því með því að ganga enn harðar að deildunum, þannig að fólk þurfti að liggja lengur inni á bráðamóttöku en við teljum æskilegt. Við fórum á stig þrjú í tvígang í síðustu viku, en þá voru menn bara að leggja meira á sig. Það var ekkert annað að gera, “ segir Anna Sigrún.

Þetta er að ganga yfir

Hún segir að mest aðstreymi sé á lyflækningasvið. „Það er ekkert sem kemur á óvart í þessu. Þetta snýr að manneklu en ekki niðurskurði eins og við höfum áður lent í. Þetta er að ganga yfir en fyrirséð er að næstu tvær vikur verði þyngstar þegar lokanir ná hámarki,“ segir Anna Sigrún.