Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir
„Já, að sjálfsögðu er ég þakklát fyrir þennan stuðning.

„Já, að sjálfsögðu er ég þakklát fyrir þennan stuðning. Og hvað það eru komnir margir í starfið að vinna með okkur, það er ótrúlegt,“ segir Birgitta Jónsdóttir Pírati, en Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn mældust með mest fylgi í skoðanakönnun MMR sem framkvæmd var dagana 15. til 22. júlí. Fylgi Pírata mældist 26,8% samanborið við 24,3% fylgi í síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn mældist nú með 24,0% fylgi samanborið við 25,3% í síðustu könnun.

Fylgi Vinstri grænna fór aftur á móti úr 18,0% í síðustu könnun niður í 12,9% eða niður um rúm 5% sem er stærsta breytingin á síðustu tveimur mælingum MMR.

Viðreisn bætti við sig nokkru fylgi frá síðustu könnun en þá hafði hún fengið 6,7% en mældist nú með 9,4% og er komin upp fyrir Samfylkinguna. Samfylkingin mældist nú með um 8,4% fylgi borið saman við 10,9% fylgi í síðustu könnun.

Framsóknarflokkurinn mældist nú með 8,4% borið saman við 6,4% í síðustu könnun.

Björt framtíð mældist nú með 3,9% fylgi, borið saman við 2,9% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir 2%.

Svarfjöldi í könnuninni var 906 einstaklingar.

Prófkjör hjá Pírötum í ágúst

„Meðbyrinn gefur okkur mikla orku, það er gott að finna fyrir þessu trausti,“ segir Birgitta Jónsdóttir. „Ég finn það hvað starfið innan flokksins er að aukast og hvað það er komið margt flott fólk til starfa. Ég er sérstaklega ánægð með hvað þetta er breiður hópur margvíslegs fólks sem er að taka þátt í starfinu og komandi prófkjöri.“

Píratar eru að búa sig undir prófkjör sem hefst upp úr mánaðamótunum og lýkur þann 12. ágúst og nær yfir allt höfuðborgarsvæðið.

Þegar rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, sagði hún að niðurstöður könnunarinnar kæmu ekki á óvart. „Við rukum upp í vor og það var alveg viðbúið að við myndum detta eitthvað niður aftur. Þessi útkoma er þó yfir okkar kjörfylgi. Við höfum ekkert miklar áhyggjur af þessu,“ segir Katrín. borkur@mbl.is