Torfæra Reykjastrandarvegurinn er holóttur og erfitt er að keyra hann.
Torfæra Reykjastrandarvegurinn er holóttur og erfitt er að keyra hann. — Ljósmynd/Tómas Úlfarsson
Jóhannes Tómasson johannes@mbl.is Reykjastrandarvegur er fjölfarnasti malarvegur í Skagafirði. Síðasta sumar keyrðu daglega 195 bílar veginn, sem liggur norður til Grettislaugar frá Sauðárkróki. Þó er leiðin ekki greið.

Jóhannes Tómasson

johannes@mbl.is

Reykjastrandarvegur er fjölfarnasti malarvegur í Skagafirði. Síðasta sumar keyrðu daglega 195 bílar veginn, sem liggur norður til Grettislaugar frá Sauðárkróki. Þó er leiðin ekki greið. Ástandið á veginum er mjög slæmt og skrifuðu íbúar Reykjastrandar undir bréf til sveitarstjórnar í júní þar sem þeir kröfðust úrbóta. Vegurinn er afar holóttur og viðhaldsaðgerðir Vegagerðarinnar duga skammt.

„Vegurinn er bara í ömurlegu standi. Það er algjörlega fráleitt að fólkinu sem býr við þennan veg sé boðið upp á þetta. Vegurinn er þannig að þótt hann sé heflaður koma sömu holurnar eftir kortér. Það er ekkert efni til að hefla ofan í holurnar, þetta er bara grjót og viðbjóður,“ sagði Viggó Jónsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins í Tindastóli og stjórnarmaður í sveitarstjórn Sauðárkróks, við Morgunblaðið í gær. Viggó segist finna til með fólkinu sem býr á bæjunum við veginn. „Fólk þarf að moka burðarlagið af diskunum sínum áður en það borðar.“

Betur má ef duga skal

Umbætur á Reykjastrandarvegi eru eitt af áhersluatriðum sveitarfélagsins. „Vegurinn er kominn á dagskrá en betur má ef duga skal. Það er bara sveitarstjórnarinnar að þrýsta á að þessi vegur sem aðrir malarvegir í Skagafirðinum séu lagðir bundnu slitlagi,“ bætti Viggó við.

Pálmi Þorsteinsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, telur ólíklegt að bundið slitlag verði lagt á Reykjastrandarveginn vegna fjárskorts. Þó stendur til að hefla veginn í náinni framtíð. „Það eru eiginlega flestir malarvegir í slæmu standi, svo einfalt er það. Maður fær enga peninga til að halda þessum vegum við,“ sagði Pálmi.