Sigursæl Katrín Tanja náði einstökum árangri, nú annað árið í röð.
Sigursæl Katrín Tanja náði einstökum árangri, nú annað árið í röð. — Ljósmynd/©2016 CrossFit Inc.
„Tilfinningin er ótrúleg,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir sem í fyrrakvöld tryggði sér annað árið í röð titilinn Hraustasta kona heims á heimsleikunum í crossfit í Los Angeles.

„Tilfinningin er ótrúleg,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir sem í fyrrakvöld tryggði sér annað árið í röð titilinn Hraustasta kona heims á heimsleikunum í crossfit í Los Angeles.

Í einstaklingskeppni fóru keppendur í gegnum 15 þrautir og sigraði Katrín í þremur. Hin ástralska Tia-Clair Toomey gaf Katrínu ekkert eftir. „Ég vissi ekkert hve var langt á milli okkar fyrr en úrslitin voru tilkynnt,“ segir Katrín við mbl.is.

„Besta tilfinningin var ekki sú að vinna aftur,“ segir sigurvegarinn – heldur hafi vikan öll skipt máli. „Í hvert einasta skipti sem ég kom af vellinum þá var ég glöð,“ segir hin hrausta kona. Hún kveðst ánægð með árangur sinn í öllum greinum og sér hafi tekist að halda góðum fókus meðan á keppninni stóð.

Katrín Tanja ætlar að verja næstu dögum með fjölskyldu sinni og koma svo í heimsókn til Íslands síðar á sumrinu. Hún hefur verið búsett í Boston í Bandaríkjunum að undanförnu þar sem hún æfir undir leiðsögn þjálfara.

„Ég fékk ekki byssuna,“ segir Katrín Tanja, spurð um hinn umdeilda verðlaunagrip sem greint var frá að yrði hluti verðlaunanna fyrir sigurvegara keppninnar. Byssuna hlaut sá bandaríski keppandi sem flest stig fékk. Segir Katrín Tanja það vera sér að meinalausu.

„Maður stjórnar áreiti sjálfur,“ segir Katrín Tanja sem var undirbúin fyrir meiri athygli en í fyrra. Segist hún því hafa slökkt á síma og aðeins svarað skilaboðum frá föður sínum. emb@mbl.is