Sæla Shazam hefur opnað hjarta mitt fyrir tónum Bush.
Sæla Shazam hefur opnað hjarta mitt fyrir tónum Bush.
Sjálfur er ég tiltölulega nýr snjallsímaeigandi. Ég rembdist við að komast af án þess að verða þræll nýrra tækninýjunga og varð þess í stað þræll eigin þrjósku og íhaldssemi.

Sjálfur er ég tiltölulega nýr snjallsímaeigandi. Ég rembdist við að komast af án þess að verða þræll nýrra tækninýjunga og varð þess í stað þræll eigin þrjósku og íhaldssemi. Ekki óraði mig fyrir því hversu mikið lífsgæði mín áttu eftir að batna með tilkomu tækisins – og það úr furðulegustu átt.

Allir kannast við það að hlusta á útvarpið og heyra ómþýðan slagara leika við eyrun, hlusta á lagið til enda og fá síðan ekki að vita hver flytjandinn er eða hvað lagið heitir. Það er gjörsamlega óþolandi. Í nokkur ár hafði ég heyrt sama lagið aftur og aftur, til að mynda úr bílasteríóinu, í Bónus og gleðibarnum Moe's í Breiðholti án þess að komast að því hver flytjandinn var. Árátta mín var orðin svo mikil að ég var farinn að fá martraðir tengdar fögrum tónunum.

Það var ekki fyrr en ég uppgvötaði smáforritið Shazam, nokkrum árum á eftir öllum öðrum, sem ég komst að því hver það var sem hafði kvalið mig svo lengi. Lagið „Wuthering Heights“ með Kate Bush, frá árinu 1978, er nú orðinn stór hluti af lífi mínu og hlusta ég á það fjórum sinnum á dag, þrisvar sinnum fyrir hádegi og einu sinni áður en ég fer að sofa.

Davíð Már Stefánsson

Höf.: Davíð Már Stefánsson