Í brúnni Halldór um borð í Kap VE sem kom með rúm 400 tonn af makríl í land. Hann er nú kominn í frí fram yfir verslunarmannahelgi, þar sem hann ætlar að skemmta sér með öðrum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Í brúnni Halldór um borð í Kap VE sem kom með rúm 400 tonn af makríl í land. Hann er nú kominn í frí fram yfir verslunarmannahelgi, þar sem hann ætlar að skemmta sér með öðrum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. — Ljósmynd/Örn Friðriksson
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Makrílveiði hefur glæðst mikið að undanförnu og kom Kap VE í land í síðustu viku með 400 tonn eftir skamma dvöl úti á miðunum.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Makrílveiði hefur glæðst mikið að undanförnu og kom Kap VE í land í síðustu viku með 400 tonn eftir skamma dvöl úti á miðunum. Þar var Halldór Alfreðsson, 19 ára peyi úr Vestmannaeyjum, í sínum fyrsta túr sem annar stýrimaður. Fá 19 ára ungmenni eru á sjó, hvað þá með titilinn stýrimaður.

Halldór fór fyrst á sjóinn fyrir alvöru þegar hann var 15 ára, þegar hann sigldi með bátnum Gandí, en sjómennskan er honum í blóð borin. Fyrsta túrinn fór hann 11 ára á hvalveiðiskipi. „Ég byrjaði fyrir alvöru á sjó þegar ég var 15 ára og hef verið á sjó á sumrin meðfram skóla. Ég byrjaði sem háseti og hef ekki litið í land síðan,“ segir Halldór. „Pabbi og afi voru á hvalskipi og tóku mig með þegar ég var 11 ára. Þar byrjaði ævintýrið. Ég kláraði grunnskólann, fór beint í stýrimannaskólann og er tiltölulega nýbúinn með hann,“ segir hann.

Skemmtilegt starf

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE, segir að Halldór sé efnilegur sjómaður enda búinn að stunda sjóinn í nokkur sumur. Hann var að leysa af í fyrsta sinn undir stjórn Jóns Atla en faðir Halldórs hefur siglt með Jóni.

„Hann er nýgræðingur í þessu en með stýrimannsmenntun sem ekki mjög margir eru að stökkva í, því miður, því þetta er skemmtilegt starf og áhugavert. Halldór er strákur sem hefur mikinn áhuga þrátt fyrir að eiga margt ólært eins og gengur og gerist hjá ungum mönnum.“

Skipið Kap VE er 892,8 brúttórúmlestir að stærð og 66,74 metra langt. Það var smíðað árið 1988 í Danmörku og gerir Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum skipið út. Forföll voru í áhöfninni og því var leitað til Halldórs.

„Það er gaman að það hafi verið leitað til mín. Ég hef líka verið yfirstýrimaður á Gullberginu,“ segir hann en Gullbergið er frystitogari, 338 brúttórúmlestir að stærð og 32 metra langur.

Halldór siglir ekki aðeins um miðin á stórum skipum því hann hefur átt litla trillu síðan hann var ungur peyi.

„Ég keypti trilluna þegar ég var 17 ára og sigldi henni á nýliðnar strandveiðar. Ég er ánægður á sjó og finnst gott að sigla.“