Ingibjörg Sigríður Jónsdóttir fæddist 11. ágúst 1930 á Gestsstöðum í Kirkjubólshreppi. Hún lést 15. júlí 2016 í Brákarhlíð í Borgarnesi.

Foreldrar Ingibjargar voru Jón Bjarni Jónsson frá Heydalsá, f. 4.7. 1907, d. 3.4. 2001, og Kristín Branddís Aðalsteinsdóttir frá Krossi á Skarðsströnd, f. 12.7. 1906, d. 27.9. 1997. Ingibjörg átti þrjú systkini, Guðjón, f. 6.12. 1931, d. 30.5. 2010, Sólveigu, f. 3.8. 1934, gift Braga Guðbrandssyni, og Ragnheiði Guðbjörgu Jónsdóttur, f. 13.3.1948.

Ingibjörg giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Hauki Sveinbjörnssyni, f. 6.2. 1932, þann 19.6. 1971, þau eignuðust eina dóttur, Branddísi Margréti, f. 28.9. 1972. Eiginmaður hennar er Kristján Ágúst Magnússon, f. 1.8. 1972. Börn þeirra eru Magnús, Ingibjörg Jóhanna, Kristín Ósk (andvana fædd) og Friðjón Haukur.

Ingibjörg ólst upp á Gestsstöðum til tvítugs en fór þá í Húsmæðraskólann á Blönduósi einn vetur og tók eftir það við heimilinu á Gestsstöðum í veikindum móður sinnar. Á árunum milli 1950 og 1960 réð hún sig sem ráðskonu í Bændaskólann á Hvanneyri, þar sem hún var í u.þ.b. tvö ár og þar á eftir vann hún á Hesti þar sem hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum. Ingibjörg og Haukur bjuggu allan sinn búskap á Snorrastöðum í Kolbeinsstaðarhreppi en fluttu í Borgarnes árið 2011.

Ingibjörg Sigríður verður jarðsungin frá Borgarneskirkju í dag, 26. júlí 2016, klukkan 13.

Mér fannst gaman þegar amma las fyrir mig. Og mér fannst líka gaman að fara í heimsókn til ömmu og afa og fá að gista í holunni. Stundum þegar ég var í heimsókn hjá ömmu fórum við í klukk og svo spiluðum við líka oft. Amma var svo góð við mig og alla sem komu til hennar.

Elsku amma, ég sakna þín mikið og vildi að þú værir ennþá lifandi en ég veit að nú ert þú komin á góðan stað og líður vel.

Þinn

Friðjón Haukur.

Það eru orð eins og þolinmæði og æðruleysi sem koma mér fyrst í hug þegar ég minnist Ingu mágkonu minnar. Fleiri orð á greinum af sama stofni eru lýsandi fyrir þessa vönduðu konu því hún var umburðarlynd og umtalsfróm, lágvær og lítillát, hæglát og hógvær.

Sjálf var hún af sterkum stofni Strandamanna, steig sín fyrstu skref á Gestsstöðum á Ströndum.

Hún starfaði alla tíð við bústörf og heimilishald og kunni vel til þeirra verka. Þess varð eg fljótt áskynja eftir að Haukur bróðir minn og Inga giftu sig og hún flutti að Snorrastöðum.

Í heimsóknum mínum á ættaróðalið Snorrastaði, þar sem alltaf hefur verið gestkvæmt, dáðist ég oft að því hvernig Inga tókst á við þau verk sem þurfti að vinna.

Búið var stórt, þar var byggt og ræktað, svo bættist ferðaþjónustan við.

Margir áttu líka erindi við Hauk, því hann gegndi ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir byggðalagið og vegna þess var hann einnig talsvert að heiman. Á meðan þurfti húsmóðirin að sjá um búskapinn úti og inni og vinna verkin.

Verkin hennar Ingu sjáum við ekki á söfnum og þau hanga hvergi í sýningarsölum því verk eins og hún vann hafa tilhneigingu til að skolast einhvern veginn í burtu að vinnudegi loknum. En við sem þekktum Ingu vitum þó vel hvað hún lagði til sinna verka, var lagin við búfénaðinn og velviljuð í allri umönnun.

Hún var ekkert að fjargviðrast yfir hlutunum og fljót að bera fram veitingar fyrir gesti og gangandi. Þegar ég hrósaði henni fyrir það, trúði hún mér fyrir því að sér þætti samt miklu meira gaman að vera útivið og sinna skepnunum.

Mest þótti henni þó gaman að fara á hestbak. Það var einmitt það sem við ræddum í síðasta skipti sem ég sá Ingu á dvalarheimilinu í Borgarnesi þar sem hún var síðustu vikurnar. Við töluðum um gamla tíma og vorum sammála um hvað það var gaman að fara á hestbak. Hún sagði að ekkert jafnaðist á við að vera á taumléttum og góðum töltara. En skyldustörfin í sveitinni tóku sinn tíma þannig að það sem henni fannst mest gaman þurfti oft að víkja.

Ég kveð Ingu með þakklæti fyrir samfylgdina, bið henni blessunar á nýjum slóðum og sé hana fyrir mér á taumléttum töltara, þar sem skyldustörfin víkja fyrir því sem okkur finnst mest gaman.

Guð styrki og styðji Hauk, Dísu Möggu, Stjána, Magnús, Ingibjörgu Jóhönnu og Friðjón Hauk.

Elísabet J. Sveinbjörnsdóttir.

Þeim fer nú ört fækkandi sem fæddir eru á millistríðsárunum enda yfir sjötíu ár frá því seinni heimsstyrjöldinni lauk. Sú er kvaddi nýlega þennan heim hét fullu nafni Ingibjörg Sigríður og faðir hennar Jón Bjarni. Ég kallaði þessa góðu konu Siggu Bjarna þótt flestir aðrir kölluðu hana Ingu.

Siggu Bjarna hef ég þekkt persónulega í hartnær tvo áratugi en Hauk, mann hennar, öllu lengur. Þær eru orðnar æði margar matarveislurnar sem ég og fleiri hafa orðið aðnjótandi hjá Siggu Bjarna en hjá henni var aldrei annað en góðgæti í boði. Fyrsta stórveislan var fyrir aldamótin þegar við Jón félagi okkar Einarsson, nú látinn, fórum með Hauki bónda á Snorrastöðum í fjárréttir. Að þeim loknum, þegar við komum að Snorrastöðum, var Sigga Bjarna með hlaðið borð af vel feitu lambakjöti, kjötsúpu með öllu tilheyrandi eins og íslenskum valkyrjum er einum lagið. Við matarborðið voru heimsmálin rædd og leyst.

Annað matarkyns, sem Sigga Bjarna var töframanneskja í, var saltað selkjöt sem hún verkaði með sínu lagi, meðlætið eins og best verður á kosið og svo uppstúfurinn hennar. Ákveðinni klíku var eingöngu boðið í þessar veislur og ég fékk að fljóta með.

Fyrir allt þetta, og svo margt annað, á þessi prúða og látlausa kona allar mínar þakkir. Þegar ég var farinn að kynnast Siggu Bjarna vel þá komst ég að því að hún var skarpgreind og með frábært minni, svo ekki sé minnst á hennar einstöku kímnigáfu sem hún greip allt of sjaldan til.

Siggu Bjarna mun ég alltaf minnast með virðingu og þökk og fæ aldrei þakkað henni að fullu góða viðkynningu. Hauki, eiginmanni, og afkomendum þeirra öllum, bið ég blessunar Guðs.

Hvíl í friði íslenska valkyrja, blessuð sé minning þín.

Þráinn Þorvaldsson.