Kveðjuleikur? Enski framherjinn Gary Martin gæti hafa leikið sinn síðasta leik með Víkingi í sumar en hér á hann í höggi við Indriða Sigurðsson, fyrirliða KR.
Kveðjuleikur? Enski framherjinn Gary Martin gæti hafa leikið sinn síðasta leik með Víkingi í sumar en hér á hann í höggi við Indriða Sigurðsson, fyrirliða KR. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Fossvogi Benedikt Grétarsson bgretarsson@mbl.is Víkingur Reykjavík heldur áfram góðu gengi sínu í Pepsi-deild karla. Víkingar fengu KR í heimsókn í lokaleik 12. umferðar í gær og unnu baráttusigur, 1:0.

Í Fossvogi

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@mbl.is

Víkingur Reykjavík heldur áfram góðu gengi sínu í Pepsi-deild karla. Víkingar fengu KR í heimsókn í lokaleik 12. umferðar í gær og unnu baráttusigur, 1:0. Þar með hafa Víkingar fengið sjö stig í síðustu þremur leikjum og eru komnir í bullandi baráttu um sæti í Evrópukeppni í sjötta sæti deildarinnar.

KR er hins vegar í 10. sæti, aðeins fimm stigum frá fallsæti og lærisveina Willums Þórs Þórssonar bíður ærið verkefni að bjarga einhverju úr þessu tímabili.

Misjafnt hlutskipti markvarða

Markverðir liðanna í gær hafa væntanlega sofið misvel í nótt. Róbert Örn Óskarson átti stórgóðan leik á milli stanganna hjá Víkiingi og bjargaði oft meistaralega.

Tvær markvörslur í fyrri hálfleik, þar sem Róbert sá við Kennie Chopart, eru eftirminnilegar en markvörðurinn skilaði, öðrum fremur, þessum þremur stigum í hús hjá Víkingi.

Kollegi hans hjá KR, Stefán Logi Magnússon, átti hins vegar að gera betur í sigurmarkinu. Stefán Logi er góður markvörður og á einfaldlega ekki að missa svona skot fram hjá sér.

Ánægður fyrir hans hönd

Framherjinn Gary Martin mætti í leiknum sínum gömlu félögum í KR og átti ágætan leik. Eftir leik staðfesti Milos Milosevic, þjálfari Víkinga, þann orðróm að Martin væri á leið til Lilleström. „Ég get sagt ykkur það að hann er að fara og skoða aðstæður og þeir [Lilleström] vilja skoða hann. Þeir vilja sjá hvort hann hafi nokkuð gleymt hvernig á að spila fótbolta. Ef honum líst vel á þetta, þá erum við að missa góðan leikmann. Ég er samt mjög ánægður að mínir menn eru eftirsóttir og ef þetta er rétt skref fyrir hann og hans feril, þá er ég mjög ánægður fyrir hans hönd,“ sagði Milosevic að lokum.

Víkingar á góðu skriði

Víkingar nálguðust þennan leik af mikilli festu og voru ákaflega þéttir og baráttuglaðir. Markvörðurinn Marko Perkovic lék sinn fyrsta leik með liðinu og skilaði góðu dagsverki. Víkingar voru kannski ekki betri aðilinn í leiknum en þeir gerðu nákvæmlega það sem þurfti að gera. Nú eru Víkingar aðeins fjórum stigum frá þriðja sætinu og geta kannski farið að setja sér háleit markmið þegar 10 leikir eru eftir í deildinni.

KR-ingar geta verið súrir með þessa niðurstöðu. Liðið stjórnaði leiknum á löngum köflum en gekk bölvanlega að brjóta niður vörn Víkinga. Þegar menn komu sér loksins í góð færi, reyndist Róbert Örn ókleifur múr í markinu. Morten Beck Andersen hefur verið heitur í undanförnum leikjum, bæði í deild og Evrópu, en var gjörsamlega ósýnilegur í þessum leik.