Kammer Nordic Affect kemur einnig fram á laugardaginn klukkan 14 á hljómleikunum Þvert á landamæri .
Kammer Nordic Affect kemur einnig fram á laugardaginn klukkan 14 á hljómleikunum Þvert á landamæri . — Ljósmynd/David Oldfield
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Hópurinn er svolítið að skoða samstarf sitt sín á milli á tónleikunum. Við ákváðum því að umrita lagið „Perth“ eftir Amiinu og flytja það.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Hópurinn er svolítið að skoða samstarf sitt sín á milli á tónleikunum. Við ákváðum því að umrita lagið „Perth“ eftir Amiinu og flytja það. Það vill einmitt svo skemmtilega til að flautuleikarinn í hópnum er frá Perth í Ástralíu,“ segir fiðluleikarinn Halla Steinunn Stefánsdóttir en hún fer fyrir kammerhópnum Nordic Affect sem efnir til tónleikanna SPÍRALL í kvöld klukkan 20. Tónleikarnir eru hluti af tónlistarhátíðinni Sumartónleikar í Skálholti en tónleikarnir um helgina eru þeir fimmtu og jafnframt þeir síðustu í sumar. Sumartónleikar í Skálholti, sem nú eru haldnir í fertugasta og annað sinn, eru elsta tónlistarhátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum. Samkvæmt venju er sérstök áhersla lögð á barokktónlist og samtímatónlist í flutningi framúrskarandi listamanna.

Hita upp fyrir Maríu Huld

Að vanda einkennir frumleiki verkefnaval hópsins eins og segir í tilkynningu, en þau munu frumflytja verk eftir Georg Kára Hilmarsson, Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Leo Chadburn. Einnig verða umritanir á efnisskránni ásamt verki sem tengist vespum. Jafnframt hitar Nordic Affect upp fyrir sumarið 2017 með því að flytja verk eftir væntanlegt staðartónskáld, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur.

„Spírall er í raun titill á verki sem María Huld Markan í Amiinu skrifaði fyrir okkur á sínum tíma. Við munum ekki flytja það verk á tónleikunum en okkur fannst titillinn fanga svolítið skemmtilega það sem maður gerir í tónlistinni. Maður er í allskonar samstarfi og oft heldur samstarfið áfram í langan tíma og það gerðist til að mynda með Maríu Huld. Hún skrifaði til dæmis verk fyrir mig árið 2010 sem verður flutt á tónleikunum. Þá er hún einnig að semja verk fyrir hópinn sem verður frumflutt í Bandaríkjunum á næsta ári. Við eigum í mjög skemmtilegu samstarfi við hana,“ segir Halla Steinunn. Kammerhópurinn var opinberlega stofnaður árið 2005 og er hann búinn að senda frá sér nokkrar plötur. Meðlimir hópsins eru fimm en aðeins fjórir munu koma fram á tónleikunum í kvöld, þær Halla Steinunn á fiðlu, Hanna Loftsdóttir á selló, Guðrún Óskarsdóttir á sembal og þverflautuleikarinn Georgia Browne.

Þess má geta að Nordic Affect kemur einnig fram á laugardaginn í Skálholti klukkan 14 með hljómleikum sem nefnast Þvert á landamæri . Klukkan 16 sama dag endurtekur hópurinn síðan dagskrána frá því í kvöld.