Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir
Ríkisstjórnin er með mikinn meirihluta á þingi og endurspeglar það lýðræðislegan vilja þjóðarinnar í síðustu kosningum.

Ríkisstjórnin er með mikinn meirihluta á þingi og endurspeglar það lýðræðislegan vilja þjóðarinnar í síðustu kosningum. Landsmenn vildu að ríkisstjórnarflokkarnir tækju við völdum og stjórnarskráin gerir ráð fyrir að á meðan þeir hafi þingmeirihluta, sem þeir hafa, þá skuli þeir starfa í eitt kjörtímabil. Þeir sem kusu þá eiga kröfu til þess. Þetta er einfalt og þetta er kallað lýðræði.

Nú hefur það gerst að stjórnarandstöðuflokkarnir fara mikinn í hótunum sínum um að samþykki meirihlutinn á þingi ekki að stytta kjörtímabilið verulega og tilkynni tafarlaust um hvenær kosið verði, og það löngu áður en kjörtímabilið rennur út, muni þeir ekki hleypa neinum málum í gegn.

Þeir hóta með öðrum orðum að gera þingið óstarfhæft með hvers kyns málþófi.

Fremstir í flokki í þessum hótunum fara Píratar, sem boðað hafa breytt vinnubrögð en hafa verið iðnir við að hertaka ræðustól þingsins þegar þeim líkar ekki að almenningur kaus núverandi stjórnarflokka til að sitja í meirihluta.

Árið 2011, áður en þeir hófu þennan málþófsleik, sagði foringi þeirra, Birgitta Jónsdóttir: „Hefðin fyrir því t.d. að taka mál í gíslingu á lokaspretti hvers þings er nánast hvergi stundað í heiminum nema hjá okkur. ... Mér finnst ómögulegt að minnihlutinn gæti tekið og rústað öllum málum þeirra sem eru handhafar valdsins. Mér finnst það ekki mjög lýðræðislegt.“