Uppgröftur Kirkjugarðurinn er hringlaga og 17 metrar í þvermál, en búið er að grafa þar upp alls 43 grafir.
Uppgröftur Kirkjugarðurinn er hringlaga og 17 metrar í þvermál, en búið er að grafa þar upp alls 43 grafir. — Ljósmyndir/Byggðasafn Skagfirðinga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Við erum búin að grafa upp 43 grafir og nokkuð stæðilega kirkju sem hefur verið stafverkshús með torfveggjum,“ segir Guðný Zoëga, mannabeinafræðingur og deildarstjóri fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hún í máli sínu til þess að í sumar hefur fornleifadeild safnsins, í samstarfi við bandaríska fornleifafræðinga frá Massachusetts-háskóla í Boston, unnið við rannsóknir í Hegranesi í Skagafirði undir merkjum skagfirsku kirkju- og byggðasögurannsóknarinnar. Hluti af verkefninu er uppgröftur kirkjugarðsins sem er við bæinn Keflavík og segir Guðný hann hafa verið tekinn í notkun skömmu eftir kristnitöku, um árið 1000, og var fólk grafið þar fram á fyrstu áratugi 12. aldar.

Guðný segir uppgröftinn hafa leitt ýmislegt áhugavert í ljós. „Við sjáum t.a.m. hvernig grafirnar voru merktar á sínum tíma, það er eitthvað sem við höfum ekki séð áður. Steinar hafa verið lagðir við bæði höfuð- og fótenda grafa á yfirborði. En einnig voru steinar lagðir í grafirnar, ofan á kistur og þá sem í þeim voru,“ segir hún. Aðspurð segist Guðný ekki vita hvers vegna steinunum var komið fyrir með þessum hætti. „Þetta er þó þekkt úr samtíða kirkjugörðum erlendis, en þessi siður er nú löngu horfinn.“

Þá hefur einnig komið í ljós að kirkjugarðurinn í Keflavík var, líkt og margir kirkjugarðar úr frumkristni, kynjaskiptur, þ.e. konur lágu norðan megin kirkju og karlar sunnan megin. Það sama má sjá í sumum íslenskum og erlendum miðaldakirkjugörðum. „Kynjaskiptingin hér virðist hins vegar vera talsvert meira afgerandi en víðast annars staðar þar sem hún virðist alger og nánast án undantekninga,“ segir Guðný, en siður þessi lagðist að mestu af snemma á miðöldum.

Aðspurð segir hún sjaldnast muni að finna í þessum görðum, en hópurinn fann þó fallegan silfurpening.