Stórir og tilefnislitlir samrunar og yfirtökur reyndust verða helsta einkenni eyðslusamrar hnignunar Yahoo á undanförnum árum.

Stórir og tilefnislitlir samrunar og yfirtökur reyndust verða helsta einkenni eyðslusamrar hnignunar Yahoo á undanförnum árum. Virði vefsíðunnar Tumblr, sem félagið keypti fyrir 1,1 milljarð dala árið 2013, hefur nýlega verið afskrifað niður í 400 milljónir dala. Það væri hyggilegt af Verizon, kaupanda Yahoo, að hafa þá lexíu hugfasta.

Á mánudag staðfesti bandaríski fjarskiptarisinn að hann myndi kaupa netleitar- og tölvupóstþjónustu Yahoo fyrir 4,83 milljarða dala. Yahoo mun renna saman við AOL, annað stórfyrirtæki alnetsins frá 10. áratugnum, sem Verizon keypti á síðasta ári fyrir 4,4 milljarða dala. Verizon vill búa til heilsteyptan valkost fyrir auglýsendur, þriðja valmöguleikann til viðbótar við Google og Facebook. Þetta myndi færa aukinn þrótt í fyrirtæki sem stendur frammi fyrir stöðnun í sölu á farsíma- og landlínuþjónustu (tekjur Verizon lækkuðu um nærri 2% á síðasta ársfjórðungi).

Sama hvað Verizon hyggst veðja á, þá er ekki verið að leggja svo mikið undir. Markaðsvirði fyrirtækisins er heilir 230 milljarðar dala, á meðan samanlagt kaupverð AOL og Yahoo er undir 10 milljörðum dala (Facebook og Google, sem AOL/Yahoo þurfa að keppa við eru samtals með markaðsvirði upp á hvorki meira né minna en 850 milljarða dala). Það er ekki laust við að þetta sé niðurlægjandi þróun fyrir Yahoo. Fyrirtækið sem eitt sinn hreykti sér af að hafa skákað öllum öðrum á öld nettengdra snjallsíma þurfti allsnarlega að selja reksturinn vegna umsáturs aðgerðasinnaðra fjárfesta. Vöxtur rekstursins sem áður hafði varla verið nema í meðallagi góður reyndist afleitur á síðasta ársfjórðungi og hafði lækkað um fimmtung.

En samt, fyrir rekstur sem haft er í flimtingum að sé bókstaflega einskis virði – munum að 37 milljarða dala markaðsverð Yahoo er aðallega komið til vegna eignarhlutar fyrirtækisins í Alibaba og Yahoo Japan – þá er verðmiði sem skagar hátt í 5 milljarða dala hér um bil kraftaverk fyrir hluthafa Yahoo. Þegar allt kom til alls reyndist það Yahoo ofviða að ætla á sama tíma að endurlífga netreksturinn og um leið ákveða hvað gera ætti við fjárfestingar þess í Asíu.

Það umhverfi sem tæknifyrirtæki búa við í dag er ekki jafnþægilegt og það var á 10. áratugnum; sjáið bara hvernig samfélagsmiðillinn LinkedIn var nýlega seldur í miklum flýti til Microsoft á 26 milljarða dala, langt undir markaðsverði fyrirtækisins eins og það var hæst. Risastór tækni- og fjarskiptafyrirtæki eins og Microsoft og Verizon, sem greiða hluthöfum arð með svo reglulegum hætti að minnir helst á skuldabréf, hafa svo sannarlega sjóðstreymið og getuna til að kaupa litlu sílin. En þau hafa ekki enn getað sýnt fram á að framtíðarsýnin í rekstrinum sé mikið meira en vönduð ágiskun á hvað koma skal. Og uppátæki Verizon á fyrirtækjakaupasviðinu gætu heppnast alveg jafnilla og þau gerðu hjá Yahoo. Þökk sé stærð fyrirtækisins mun Verizon hafa mun meira svigrúm til að gera mistök.