Ingibjörg Baldursdóttir fæddist í Reykjavík 26. ágúst 1965. Hún varð bráðkvödd á Spáni 16. júlí 2016.

Foreldrar Ingibjargar voru Baldur Jónsson, fv. rektor Kennaraháskóla Íslands, f. 31. október 1923, d. 19. júní 1983, og Jóhanna Jóhannsdóttir, dómtúlkur og þýðandi, f. 28. apríl 1923, d. 17. október 2011. Bræður Ingibjargar eru Sigurður Baldursson tónlistarmaður, búsettur í Kaupmannahöfn, f. 15. júní 1960, og Jóhann Baldursson, héraðsdómslögmaður og rekstrarhagfræðingur, f. 18. september 1962.

Árið 1990 giftist Ingibjörg Franz Jezorski, lögmanni, rekstrarhagfræðingi og fjárfesti, f. 15. apríl 1963. Foreldrar hans eru Franz Jezorski, f. 1940, og Sesselja Berndsen, f. 1944. Börn Ingibjargar og Franz eru Baldur, f. 23. ágúst 1990, Kristín, f. 12. nóvember 1992, Hanna, f. 14. janúar 1998, og Björg, f. 14. febrúar 2007.

Ingibjörg útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík, fornmáladeild, árið 1985, og sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla íslands árið 1990. Hún lauk alþjóðlegu brjóstagjafaráðgjafaprófi (IBCL) árið 2002 og diploma í heilsugæsluhjúkrun árið 2007. Þegar hún lést var hún í meistaranámi í klínískri sérhæfingu í hjúkrun með brjóstagjöf sem sérsvið. Ingibjörg starfaði við heilsugæsluhjúkrun frá árinu 1990 með hléum og við Miðstöð heilsuverndar barna frá árinu 2001 sem hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri yfir brjóstagjöf og málefnum barna innflytjenda til ársins 2009. Eftir það varð hún sjálfstætt starfandi við ráðgjöf til mæðra um brjóstagjöf og mataræði barna. Hún stofnaði ásamt fleirum samtökin Stuðningskonur við brjóstagjöf og hóf samstarf við Björkina 2010 með námskeiðið brjóstagjöf og umönnun nýburans og svefn og svefnlausnir. Hún stofnaði síðan ásamt fleirum Lygnu-fjölskyldumiðstöð og rættist þar með draumur hennar um samastað fyrir starfið. Hún skrifaði m.a. fræðsluefni um breytta nálgun við matargjöf ungra barna, Barnið borðar sjálft (BLW). Hún átti sitt eigið fyrirtæki, Barnið okkar, síðustu árin.

Ingibjörg og Franz voru búsett í Windermere í Flórída síðustu tvö ár en voru nýflutt heim þegar Ingibjörg lést. Nýverið hafði Ingibjörg ákveðið að helga sig öðru áhugamáli sínu, myndlistinni, og skráð sig í fullt nám í málaralist við Myndlistarskóla Reykjavíkur næsta vetur.

Útför Ingibjargar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 28. júlí 2016, klukkan 15.

Yndisleg frænka og vinkona er látin í blóma lífsins „á snöggu augabragði“, eins og segir í sálminum fagra. Ekkert er eins og áður. Sól og himintungl stóðu kyrr þegar andlátsfregnin barst, mitt í fögnuði sumarsins. Allt fór á hvolf. Fráleitt að sitja hér og skrifa minningargrein um hana. Hún var möndull og miðja. Sagt er að enginn sé ómissandi en það er ekki satt. Hún Ingibjörg var það. Hún veitti hlýju og gleði, kærleika og umhyggju þar sem hún fór. Hún var örlát á sjálfa sig og auk þess einstaklega fyndin manneskja sem kom manni sífellt til að hlæja. Börnunum sínum var hún stöðug uppspretta uppörvunar og hvatningar, elsku og hjálpsemi. Og okkur hinum líka sem vorum svo heppin að eiga hana að. Hún þreyttist ekki á að dást að afrekum mínum sem voru afar fá en uxu mjög í huga mér eftir hvern fund okkar. Hún kunni þá list að sýna öllu lífi ómælda virðingu, ekki síst því veikasta og smæsta. Það sýndi hún í verki bæði heima og heiman með störfum sínum. Margir standa í þakkarskuld við hana og má þar nefna dætur mínar fjórar og tengdadóttur sem hún studdi með ráðum og dáð þegar þær voru nýbakaðar mæður, óspör á tímann sinn. Og gjafmildi Ingibjargar var einstök, ætíð mætti hún með fallega gjöf við hvert tilefni, brosandi og björt.

Feður okkar Ingibjargar voru bræður og varð hvorugur gamall. Baldur lést árið 1983, en þá var Ingibjörg á átjánda ári. Hún var mikil pabbastelpa og veit ég vel að hún sat við sjúkrabeð hans á Landakoti tímunum saman, skrapp til hans ef tími féll niður í MR og vildi helst ekki frá honum víkja. Hún erfði marga af hans góðu eðliskostum, hlýja nærveru og mikla kímnigáfu meðal annars. Móður sinni var hún einstakur gleðigjafi og börnin hennar ekki síður, en hún lést árið 2011 hátt á níræðisaldri. Það var ætíð líf og fjör í kringum Jóhönnu, þá merkiskonu, á Ásvallgötu 28.

Á þessari stundu þyrlast ótal minningar um höfuðið allt frá því ég fyrst sá frænku mína nýfædda á Langholtsvegi 56. Mikill samgangur var milli fjölskyldna okkar enda bræðurnir þrír frá Mel miklir mátar. Allar eru minningarnar bjartar og góðar. Hún var fjórtán árum yngri en ég en samband okkar efldist mjög er við eignuðumst börn á sömu árunum, hún sín tvö elstu en ég mín yngstu. Eftir það urðum við jafnöldrur og vinkonur í blíðu og stríðu og nutum samvistanna mjög. Ingibjörg var einstök móðir og mikil og sterk fyrirmynd börnum sínum.

Allar góðu minningarnar yfirskyggir þó samúðin djúpa með Baldri, Kristínu, Hönnu og Björgu litlu, Franz, eiginmanni hennar, og Jóhanni, bróður hennar. Einnig með Sigurði eldri bróður hennar í Danmörku. Ég er þess þó fullviss að ljósið bjarta sem hún skildi eftir hjá þeim mun lýsa þeim í dimmum dal og áfram veginn. Þau eru vel nestuð til ferðarinnar, svo er henni fyrir að þakka. Hún er og verður sólskinsbarn í huga þeirra sem hana elskuðu. Megi hún njóta sín sem best á eilífðarvegum. Far vel elsku frænka og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Kristín Magnúsdóttir.

Ljúflingurinn Ingibjörg Baldursdóttir, æskuvinkona mín, hefur nú fengið kallið langt fyrir aldur fram. Æðagúlpur á ósæðinni sprakk og á einu augabragði lauk tilveru þessarar yndislegu konu. Eftir standa ótal minningar um dillandi hláturinn, angurværð unglingsáranna og fyrstu skrefin til fullorðinslífsins á háskólaárunum.

Sérstaklega eftirminnileg er heimsókn Ingibjargar til Hamborgar þegar við vorum bæði nýbakaðir stúdentar. Hún var hjá mér í fjóra daga og alla dagana var sól frá morgni til kvölds, við þeyttumst um stórborgina líkust ofvirkum unglingum, hlógum eins og vitleysingar og það var sett ofan í við okkur á einum pizzastaðnum fyrir ólæti – við hlógum svo mikið.

Mikið breyttist í lífi Ingibjargar þegar hún kynntist Franz. Þar hafði hún fundið sálufélagann sinn og yfir Ingibjörgu færðist ró og friður sem ég hafði ekki séð áður. Hún var komin heim. Ekki höfðu þau Franz verið lengi saman þegar Ingibjörg tilkynnti mér stoltari en ég hafði nokkurn tímann séð hana áður að hún ætti von á barni.

Í 25 ára afmælinu mínu í ágúst 1990 stal Ingibjörg senunni frá afmælisbarninu með bumbunni sinni, fyrst stelpnanna í klíkunni til að verða móðir. Tveimur dögum síðar leit Baldur, litli prinsinn hennar, dagsins ljós. Á ljósmyndum tæpu ári seinna þegar ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands má sjá Ingibjörgu með Baldur í hvítri skyrtu og bindi, sannur séntilmaður. Og Ingibjörg hafði breyst. Hún hafði fundið hlutverkið sitt.

Fáar konur hef ég hitt um ævina sem helga sig móðurhlutverkinu í jafnríkum mæli og Ingibjörg gerði. Börnin urðu fleiri, fyrst Kristín, svo Hanna og loks Björg. Ingibjörg var vakin og sofin yfir börnunum og naut þess að tala um þau. Og það var ekki leiðinlegt því Ingibjörg hafði mikla þekkingu á börnum almennt, þörfum þeirra og velferð og þar sameinuðumst við í áhuga okkar á þessu lífsskeiði.

Franz, Baldur, Kristín, Hanna, Björg, Jóhann og Sigurður. Ég votta ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur og þakka góðri vinkonu fyrir samfylgdina.

Guðbrandur Árni Ísberg.

Sumarið í hæstum blóma, allt syngur einum hljómi.

Að fá þær fregnir að vinkona mín hafi látist er óskiljanlegt. Hugurinn, hjartað fær ekki skilið. Hvaða orð ná yfir þetta óskiljanlega – aflið sem stöðvar líf svo skyndilega? Nú þegar allt er í blóma. Íslenska sumarið, þar sem allt syngur í einni hljómkviðu, breiðir út opinn faðminn á móti manni. Lífsundrið sjálft. Andardráttur alls sem lifir – slegið slætti dags og nætur – sumarið sem vinkona mín hlakkaði til að sjá – sumarið sem beið hennar.

Maður á ekkert nema stundina sem líður. Hver stund aðeins nú og aldrei meir.

Við, sem erum rétt hálfnuð með lífið, erum áminnt um hverfulleikann.

Þegar ég hugsa um hana, er það eins og að vera í bjartasta íslenska sumri. Vindurinn bylgjast yfir hátt glansandi grasið, fuglasöngur fjær og nær og glaðir geislahnettir, sóleyjar í varpa. Sólin hlær í hverju blómi. Skýin feykjast á bláum himni. Eins og nú er ég minnist elsku vinkonu minnar.

Hún hafði þennan ógleymanlega, milda, smitandi hlátur. Glaðværð og hlýju. Hressandi viðmót og húmor. Það dró mig að henni þegar við urðum bekkjarsystur í fornmáladeild MR og fylgdumst að á háskólaárum okkar, eignuðumst frumburðina með nokkurra vikna millibili. Fylgdumst að í því nýja og stóra hlutverki, nutum samvista með kútana okkar, Baldur hennar og Árna Berg minn. Það var gaman og gott að eiga hana að vinkonu. Við urðum samferða í félag um brjóstagjöf með litlu kútana okkar, þar sem við fengum góð ráð og efldumst í sjálfstrausti í móðurhlutverkinu. Við töluðum oft um hve mikið gæfuspor það var að vera í boði Rannveigar, föðursystur minnar, þar. Seinna valdi hún þá leið sjálf, að verða sú sem styður við mæður í ungbarnaverndinni, natin, ljúf og skemmtileg. Því var ég svo heppin að fá vinkonu mína til mín þegar fimmta barnið kom í heiminn. Starfið sem hún valdi sér fór henni svo vel. Hún var í þessu af lífi og sál. Natnin, hlýjan og óborganleg kímnigáfan. Tilhlökkun að hverri heimsókn.

Æskuheimilið hennar er mér minnisstætt og yndisleg hlýja sem mætti manni hjá móður hennar og bróður, en samband þeirra var einstaklega náið. Föðurmissirinn erfiður. Það speglaðist í augum hennar, hún var svo ung. Hvað ég fann til með henni. Inn í dýpsta hjartabotn. Gat ekki sett mig í þessi spor, of stórt, of hræðilegt. Nú hafa börnin fjögur og misst hana, í lífinu miðju, þegar allt virðist renna að einu marki, vera lífinu sjálfu vígt – hjartslætti lífsins, fegurð sumarsins bjarta.

Ljóslifandi minningin hennar lifir í hjörtum okkar allra sem þekktum hana og áttum að vini. Með þakklæti fyrir tímann með vinkonu minni, árin okkar saman, með dýpstu hjartans samúð bið ég börnunum, Baldri, Kristínu, Hönnu, Björgu, eiginmanni hennar, Frans, og bræðrum Ingibjargar blessunar, bið Guð að styrkja þau í sorginni.

Blessuð sé minning Ingibjargar Baldursdóttur.

Harpa Árnadóttir.

Ég var dálítið stressuð fyrsta daginn minn í MR en samt forvitin að kynnast bekknum mínum. Bekkurinn samanstóð mestmegnis af krökkum úr Vesturbænum og svo vorum við hin svona samtíningur alls staðar frá. Hinum megin við ganginn við mig sat ein úr Vesturbæjargenginu, ljósrauðhærð stúlka íklædd lopapeysu með fallega hvíta postulínshúð, milt augnaráð og vinalegt bros. Þetta var hún Ingibjörg Baldursdóttir. Það fór nú ekki mikið fyrir henni, frekar róleg og yfirveguð en virtist vera með allt á hreinu. Það fór ekki á milli mála að þarna var á ferð vel gefin ung kona, samviskusöm og dugleg. Við nánari kynni kom í ljós að undir þessu yfirvegaða og á köflum fullkomna yfirborði blundaði prakkari, stríðnispúki og húmoristi. Með tímanum tókst með okkur Ingibjörgu mikill og góður vinskapur sem var gulli betri.

Ég var svo lánsöm að vera samferða henni öll árin í MR, við vorum saman í bekk þangað til að stúdentshúfurnar voru settar á kollinn. Ég bjóst jafnvel við að hún færi áfram í myndlistarnám, en það varð ekki úr heldur lá leið hennar í hjúkrunarfræði. Hún var ekta „hjúkka“, ákveðin og röggsöm en jafnframt hjartahlý og góð. Um tíma var ég sannfærð um að hún yrði ljósmóðir því áhugi hennar var mikill þegar kom að ungbörnum. Þess í stað varð hún svo hugfangin af brjóstagjöf að hún hellti sér heils hugar út í verkefnið og stofnaði síðan sitt eigið fyrirtæki. Þarna var hún svo sannarlega í essinu sínu.

Fljótlega kynntist hún honum Franz sínum og þá var ekki aftur snúið. Það fór ekki á milli mála, Ingibjörg var búin að hitta þann eina sanna. Þau helltu sér út í allan pakkann; giftingu, íbúð og börn.

Eftir að þau hjónakorn voru búin að mennta sig leið ekki á löngu þar til Franz var búinn að stofna sitt eigið fyrirtæki, hafði nóg að gera. Á sama tíma má segja að Ingibjörg hafi „stofnað“ annað fyrirtæki þar sem hún sá um rekstur heimilisins. Henni leiddist ekki að vera forstjórinn í því fyrirtæki því þar réði hún ríkjum, stjórnaði með harðri hendi og tókst það afburðavel. Fjölskyldan var ávallt höfð í fyrirrúmi. Hún hugsaði vel um sína nánustu, var umhugað um að öllum liði vel. Hún gat leyst öll heimsins vandamál með jákvæðni sinni og visku. Því fleiri sem börnin urðu því glaðari og hamingjusamari varð Ingibjörg. Hún var endalaust stolt af stóra hópnum sínum og hún var ekki bara mamma þeirra heldur átti hún góðan vin í þeim öllum.

Við Ingibjörg höfum alltaf verið góðar vinkonur, ekki skipti máli hvort liði langur tími á milli vinafunda. Maður gat sagt Ingibjörgu allt með fullri vissu um að það færi ekki lengra enda tryggur vinur.

Það er erfitt að kveðja þig elsku vinkona, ég hélt að við ættum eftir miklu lengri tíma en svona er lífið hverfult. Það var reiðarslag að heyra af andláti þínu, nánast óskiljanlegt og mikil sorg er í hjarta mínu. Þú varst falleg að innan sem utan, yndisleg í alla staði, hjálpsöm, ljúf og góð. Ég vil þakka fyrir fallega vináttu og á eftir að sakna þín mjög. Hvíl þú í fríði elsku Ingibjörg mín.

Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Franz, Baldurs, Kristínar, Hönnu, Bjargar og Jóa.

Melkorka Gunnarsdóttir.

Nú er góð vinkona fallin frá.

Fyrir utan djúpan söknuð er þakklæti mér efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Ingibjörgu Baldursdóttur, þessari fallegu konu sem var svo umhyggjusöm, hjálpleg og fróð.

Við kynntumst fyrst árið 2008 er ég gekk í Félag brjóstagjafarráðgjafa. Fljótlega myndaðist góður vinskapur á milli okkar, sem leiddi af sér sameiginleg verkefni í brjóstagjafarfræðslu og margar skemmtilegar samverustundir sem við minntumst ávallt með mikilli gleði.

Við Rakel, dóttir mín, heimsóttum þau hjónin, Ingibjörgu og Franz, á heimili þeirra í Flórída nú í vor. Þar var stjanað við okkur á alla kanta og Ingibjörg boðin og búin að keyra okkur um, fara með okkur í búðir og sýna okkur umhverfið sitt sem höfðaði mjög til hennar. Hérna hafði hún verið í listaskóla og fundið nýja ástríðu, málaralistina. Við fórum í myndlistarbúðir, komum svo heim og máluðum listaverk á veröndinni, spenntar eins og skólastelpur, spjölluðum saman eins og enginn væri morgundagurinn – eins og góðar vinkonur gera. Hvað ég er þakklát fyrir þennan tíma. Hún var listamaður, hún Ingibjörg, og hafði fengið inngöngu í Myndlistaskólann í Reykjavík nú í haust, í diplómanám, en flutningur aftur heim til Íslands var framundan.

Elsku Franz, Baldur, Kristín, Hanna, Björg og fjölskyldan öll, guð veri með ykkur í sorg ykkar og munið að minningar sem kalla fram tár núna munu verma ykkur að innan þegar fram líða stundir.

Hulda Sigurlína

Þórðardóttir.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Við syrgjum Ingibjörgu Baldursdóttur sem fallin er frá langt um aldur fram. Ingibjörg var hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafarráðgjafi. Hún var formaður Félags brjóstagjafarráðgjafa á Íslandi þegar hún lést. Hún var einn af máttarstólpum félagsins og tók þátt í stofnun þess árið 2003 og var alla tíð mjög virk í félaginu. Einnig var hún tengiliður félagsins á erlendum vettvangi.

Ingibjörg var umhyggjusöm, kærleiksrík, drífandi og ávallt var hægt að leita til hennar. Hún hafði einstakan áhuga á brjóstagjöf og samskiptum móður og barns. Hún hafði hag barna alltaf að leiðarljósi og vann faglega að öllum verkefnum sem hún kom að. Hún miðlaði þekkingu sinni áfram bæði til okkar og mæðra.

Síðastliðin tvö ár var hún búsett á Flórída en var nýlega flutt heim. Hún hafði aflað sér frekari þekkingar á brjóstagjöf og umönnun barna sem við hlökkuðum til að hún miðlaði til okkar.

Það er með mikilli sorg sem við kveðjum góða vinkonu, samstarfsfélaga og „mentor“. Í okkar starfi mun minning hennar lifa.

Við sendum eiginmanni hennar, Franz, og börnunum – Kristínu, Baldri, Hönnu, Björgu – og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Félags brjóstagjafarráðgjafa,

Hildur Ármannsdóttir.

Orð mega sín lítils á svona stundu. Gengin er Ingibjörg Baldursdóttir langt fyrir aldur fram og hennar er sárt saknað. Við í Íslensku brjóstagjafasamtökunum viljum minnast hennar í nokkrum orðum.

Ingibjörg Baldursdóttir var hjúkrunarfræðingur og sinnti nýjum foreldrum og starfi sínu sem brjóstagjafaráðgjafi af alúð. Þannig eru kynni okkar af henni. Árið 2008 voru sett á fót brjóstagjafasamtök á Íslandi þar sem Ingibjörg var stofnfélagi og vann hún mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. Hún tók þátt í að stofna það og móta, setja á legg sjálfboðaliðasamtök sem aðstoða konur með barn á brjósti og skrifaði texta og greinar fyrir félagið.

Til hennar var alltaf hægt að leita, hvort heldur það voru ungir foreldrar að feta sín fyrstu skref eða fagmenn sem þurftu að skerpa eigin þekkingu. Ingibjörg var þekkingarbrunnur með ástríðu fyrir sínu starfi og hjálpsöm út í fingurgóma. Starf hennar einkenndist af hlýju og kærleika og hún var alltaf tilbúin að gefa af sér.

Framlag hennar í þágu brjóstagjafasamtakanna var ómetanlegt og óeigingjarnt. Framlag hennar og starf hennar í þágu ungra og nýrra foreldra var einstakt enda var hún einstök kona, hjartahlý, ráðagóð og skemmtileg.

Við minnumst Ingibjargar með hlýju og þakklæti og sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Íslensku brjóstagjafasamtakanna,

Magnea og Soffía.