Erla Bergmann
Erla Bergmann
Eftir Erlu Bergmann Danelíusdóttur: "Við erum svo stór hópur og sterkur. Sýnum hvað í okkur býr. Kjósum nýtt."

Í hvernig þjóðfélagi bý ég? Nú er nýbúið að hækka laun þeirra sem hæstu launin hafa og það um ekkert smáræði. Í síðustu samningum var verkalýðsforystan að berjast fyrir 300 þúsund krónum á mánuði fyrir þá sem lægst hafa launin og það næst ekki fyrr en 2018. Nú var kjararáð að hækka laun þeirra sem mest hafa um 300 þúsund á mánuði í viðbót við þá hækkun sem búið var að úthluta þeim áður. Þetta er það sem er svo svívirðilegt.

Hvers eigum við að gjalda, eldri borgarar þessa lands? Ég bara spyr. Fyrst voru tekjur okkar skertar – við vorum rænd. Síðan voru gefin kosningaloforð í síðustu kosningum, bæði af framsókn og sjálfstæðismönnum og því lofað að leiðrétta þennan ósóma strax og þeir kæmust til valda. En það varð ekkert um efndir. Svo kom þessi smánarlega hækkun um áramótin og ekki var nú hægt að borga okkur afturvirkt eins og þingmönnum og öðrum stórmennum. Nei, „Landið hefði farið á hausinn“ hefðu gamlingjarnir fengið það sem þeim bar.

Mér er slétt sama hvað Eygló Harðar og Bjarni Ben. reyna að telja fólki trú um, þá segja þau ósatt. Okkar laun hafa aldrei verið leiðrétt og við erum langt undir þeim staðli sem segir hvað fólk á að hafa í lágmarksframfærslu, svo það geti lifað mannsæmandi lífi. Það er til háborinnar skammar fyrir jafnríkt land og Ísland hvernig komið er fram við eldri borgara og öryrkja og að þeim búið. Það er allt of lítið rætt um þessi mál og þarna mættu biskup, prestar, félagsfræðingar og aðrir fræðingar/ráðgjafar láta til sín taka – Tala okkar máli og beita þrýstingi á ráðamenn og berjast fyrir sitt fólk, Íslendinga.

Eftir síðustu kosningar settist margt nýtt fólk inn á þing fyrir gömlu flokkana og ekki vantaði nú yfirlýsingarnar og loforðin um allt sem átti að gera og breyta til betri vegar. En hver voru svo helstu málin sem þau börðust fyrir? Brennivín og bjór í matvörubúðir, breyta klukkunni, leggja niður mannanafnanefnd og koma á lögum um staðgöngumæðrun. Ekkert sem máli skipti fyrir land og þjóð.

Nú er mælirinn fullur. Ég skora á eldri borgara þessa lands að taka nú á honum stóra sínum og refsa þeim stjórnmálamönnum sem nú eru við völd og á þingi og hafa hundsað okkur. Nú kjósum við nýja flokka á þing því þeir geta ekki orðið verri.

Við verðum að þora að breyta til. Stöndum saman. Við erum svo stór hópur og sterkur. Sýnum hvað í okkur býr. Kjósum nýtt.

Es. Af hverju er lágmarksframfærsla ekki tengd t.d. sem ákveðin prósenta af þingfararkaupi?

Höfundur er eldri borgari og vann áður við öldrunarþjónustu.