Ásdís Ólafía Skarphéðinsdóttir fæddist 8.2. 1931 í Reykjavík. Hún lést á dvalarheimilinu Hornbrekku 21.7. 2016.

Foreldrar hennar voru Rósa Aldís Einarsdóttir, f. 31.5. 1908, d. 10.6. 1975, og Skarphéðinn Arngrímur Jósefsson, f. 1.1. 1907, d. 30.1. 1959. Systir Ásdísar er Elín, f. 16.1. 1933.

Þann 6.10. 1956 giftist Ásdís Aðalbirni J. Sigurlaugssyni, sjómanni, f. 3.6. 1931, d. 30.10. 2013. Börn þeirra eru Ómar, f. 1956, d. 2009, maki Valgerður Gunnarsdóttir, f. 1957, þau eiga tvær dætur og þrjú barnabörn. Sigríður, f. 1957, maki Frímann Ingólfsson, f. 1950, þau eiga þrjá syni og tvö barnabörn. Skarphéðinn, f. 1958, maki Helga Ólafsdóttir, f. 1960, þau eiga fimm börn og tíu barnabörn. Pálmi, f. 1960, sambýliskona Halldóra Magnúsdóttir, f. 1961, Pálmi á eina dóttur og Halldóra tvö börn og fimm barnabörn.

Ásdís lauk hefðbundinni skólagöngu í Reykjavík og fór síðan í húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði, eftir það vann hún á Félagsbókbandinu þangað til hún fluttist til Ólafsfjarðar 1954. Hún sinnti barnauppeldi og heimili þangað til börnin voru komin á unglingsár. Þá fór hún að vinna hálfan dag í frystihúsi Magnúsar Gamalíusar og seinna í rækjuvinnslu. Mörg ár vann hún í fiskverkun í litla salthúsi þeirra hjóna en fiskurinn kom frá trillunni Blíðfara ÓF 70 sem eiginmaðurinn reri á. Stuttu eftir andlát Aðalbjörns fluttist Ásdís á dvalarheimilið Hornbrekku þar sem hún naut umönnunar frábærs starfsfólks og þar leið henni vel.

Útför Ásdísar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 28. júlí 2016, klukkan 14.

Elsku mamma, þá er komið að kveðjustund. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til þín er þolinmæði, vandvirkni og ósérhlífni. Alltaf varstu að hugsa um þína nánustu, að þeim liði vel og þá sérstaklega öll ömmubörnin þín. Handavinnan þín var hreint listaverk, hvort sem það var saumar, hekl, málun eða kortagerð. Allt árið varstu að útbúa jólagjafir fyrir allan barnaskarann og þú náðir að klára fyrir næstu jól þó það færi svo að þú verðir ekki hjá okkur þá. Síðasta bón þín var að gera klárt garnið og heklunálina og setja það á borðið þitt, svo þú næðir í það ef þú yrðir hressari. Nú er þrautum þínum lokið og þú komin til pabba og Ómars og ert örugglega byrjuð að gera einhverja handavinnu. Hjartans þakkir fyrir allt, elsku mamma.

Þín dóttir,

Sigríður.

Elsku tengdamamma mín.

Nú er þinn tími kominn og þú komin til himna til þinna nánustu sem eru farnir og þar hittir þú allar vinkonurnar sem þú áttir margar góðar stundir með.

Þú gerðir aldrei neinar kröfur fyrir sjálfa þig og varst ákaflega nægjusöm en reyndir alltaf að hugsa vel um fjölskylduna þína. Undir það síðasta hafðir þú miklar áhyggjur af að geta ekki klárað að gera Bucilla-jólasokk handa síðasta langömmubarninu en róaðist þegar ég tók það að mér. En jólasokka hafðir þú gert handa öllum barnabörnunum og langömmubörnunum.

Það var ótrúlegt hvað þú gerðir svona gigtveik eins og þú varst. Þú varst alla tíð afskaplega vandvirk og allt svo vel gert sem þú gerðir. Við höfum nú stundum hlegið að því þegar Ómar Björn okkar kom með buxur til ömmu til að gera við, en það var saumspretta í klofinu, en þetta voru nýtísku buxur sem voru rifnar allsstaðar á lærunum og þóttu rosa töff. Og hvað gerði amma, nú hún gerði við allar saumspretturnar. Já, hún amma Addý var svo sem aldrei mikið fyrir tískuna.

Fjölskyldan ykkar Bjössa tengdapabba er nú orðin stór og ég veit að þú fylgist með okkur. Ég þakka þér allt, elsku Addý, og blessuð sé minning þín.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þín tengdadóttir,

Helga.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Elsku besta amma mín.

Nú ertu farin til hans afa og Ómars þíns.

Þú lifðir það ekki að sjá litlu nýfæddu stelpuna mína en ég veit að þú heldur áfram að fylgjast með okkur eins og þú gerðir alltaf.

Þið afi voruð mér alltaf svo góð og mun ég minnast ykkar með mikilli hlýju.

Blessuð sé minning þín, elsku amma mín, og takk fyrir allt.

Þín nafna,

Ásdís.