Tölvuteiknuð mynd af útliti verslunar Costco í Kauptúni í Garðabæ.
Tölvuteiknuð mynd af útliti verslunar Costco í Kauptúni í Garðabæ. — Teikning/KRADS & THG arkitektar
Jón Þórisson jonth@mbl.is Opnun verslunar Costco í Garðabæ á næsta ári mun hafa bein og óbein áhrif á á hag heimilanna í landinu. Velta risans er 35 sinnum meiri en velta íslensks smásölumarkaðar.

Útsöluverð Red Bull-orkudrykkjar sem seldur er í 24 stykkja pakkningu í verslun Costco í Bretlandi jafngildir 105 krónum, sé miðað við gengi breska pundsins í gær. Þetta verð er án hérlendra tolla, skatta og aðflutningsgjalda en varan ber álögð bresk gjöld. Til samanburðar má finna dós af Red Bull í lausasölu í íslenskri lágvöruverðsverslun á 195 krónur og á bensínstöð kostar dósin 419 krónur. „Með fyrirvörum um skatta og önnur gjöld er þetta vísbending um það verð sem verslunarkeðjan Costco gæti boðið íslenskum viðskiptavinum sínum. Mestu mistök þeirra sem starfa á sama markaði og Costco er að vanmeta áhrif þess að þeir hefji hér starfsemi.“ Þetta segir Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri rannsóknar- og ráðgjafafyrirtækisins Zenter. Hann segir jafnframt að tilkoma þeirra geti þýtt fágætt tækifæri fyrir innlenda framleiðendur.

Það hefur vart farið fram hjá nokkrum að breska verslunarkeðjan Costco er á leið til landsins og áformar að opna stórverslun á um 14.000 fermetrum í Garðabæ á næsta ári. Zenter hefur unnið að greiningu á verslunarrisanum og hefur kynnt niðurstöður sínar fyrir væntanlegum samkeppnisaðilum Costco hérlendis undanfarið en meginmarkmið þjónustunnar er að undirbúa íslensk fyrirtæki fyrir aukna samkeppni á íslenskum markaði.

„Það er ekki vafi á að tilkoma Costco mun hafa áhrif, en síðan er spurning hversu mikil eða lítil þau áhrif verða og fer það einnig eftir mörkuðum,“ segir Trausti. Hann segir afl þessarar verslunarkeðju mikið. „Þetta er annar stærsti smásali í heimi og því fylgir gríðarlegt afl til að innkaupa vöru á hagstæðara verði en öðrum er mögulegt. Þegar því fylgir svo lítil yfirbygging og lágmarkskostnaður er ljóst að markaður eins og sá íslenski mun verða fyrir áhrifum.“

En þrátt fyrir hóflegan fjölda vörunúmera, um 3.700 á hverjum tíma, er úrvalið fjölbreytt. „Í hefðbundinni verslun hjá Costco erlendis eru þeir með bakarí, selja dekk, eldsneyti, fatnað, heimilistæki, ferskvöru, frosin matvæli, drykki, húsgögn, reka apótek inni í verslununum, fæðubótarefni, hreinlætisvörur og svo mætti lengi áfram telja. Þeir selja einnig umtalsvert af áfengi þar sem lög í hverju landi heimila,“ segir Trausti.

Sé velta Costco borin saman við veltu íslensks smásölumarkaðar sést að verslunarrisinn ber ægishjálm yfir aðra í öllu tilliti. „Velta Costco var árið 2015, 14 þúsund milljarðar, samanborið við 400 milljarða veltu alls íslensks smásölumarkaðar.“