Sigurlaug Pétursdóttir fæddist á Fremstagili í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu 19. júní 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þann 17. júlí sl. Foreldrar hennar voru Valdís Emelía Valdimarsdóttir frá Ási í Vatnsdal í Húnavatnssýslu, f. 3. okt. 1908, d. 13. júlí 1939, og Pétur Einarsson, bóndi á Fremstagili, f. 18. janúar 1906, d. 14. september 1941. Sigurlaug ólst fyrstu árin upp á Ási í Vatnsdal en síðar hjá Steinvöru H. Benónýsdóttur, f. 1888, d. 1974, og Sigurði Pálmasyni, f. 1882, d. 1972, kaupmannshjónum á Hvammstanga. Bróðir Sigurlaugar sammæðra var Guðmundur Ólafsson Þorbjörnsson, f. 1937, d. 1942. Systkini Sigurlaugar samfeðra eru Einar Pétursson, verktaki, f. 1936, Þóra, búsett í Bandaríkjunum, f. 1938, og Ragnheiður, f. 1940, d.1962.

Fyrri maður Sigurlaugar var Reimar Snæfells, símaverkstjóri, f. 26. júní 1930, d. 17. maí 2014. Þau skildu. Börn þeirra: 1) Pétur Reimarsson, f. 9. mars 1951, kvæntur Heru Sigurðardóttur og er sonur þeirra Guttormur, f. 9. jan. 2000. Börn Péturs af fyrra hjónabandi með Ernu Indriðadóttur eru a) Frosti, f. 1. des. 1971, b) Reimar, f. 14. nóv. 1972, kvæntur Björgu Vigfúsdóttur, börn þeirra eru Pétur Goði, f. 2006, Erna María, f. 2008, og Þór, f. 2010 og c) Valva, f. 23. jan. 1975, gift Valdimar Þór Valdimarssyni, börn þeirra eru Eva, f. 2004, Valdimar Darri, f. 2008, og Elvar, f. 2011. 2) Gréta R. Snæfells, f. 13. mars 1953. Börn hennar eru a) Björgvin Herjólfsson, f. 27. júní 1974, börn hans Kristófer Örn, f. 2004, Tinna Sól, f. 2010, og Agla Björg, f. 2012, og b) María Svava Snæfells, f. 21. mars 1979, hennar börn Alma, f. 1999, og Valdimar Örn, f. 2001.

Seinni maður Sigurlaugar var Björgvin Vilmundarson, bankastjóri Landsbanka Íslands, f. 28. júní 1934, d. 22. feb. 2001. Sonur þeirra er Björgvin Vilmundur, f. 26. júní 1963, kvæntur Ölmu Björk Guttormsdóttur, hjúkrunarfræðingi. Börn þeirra eru Arna Björk, f. 1. júlí 1990, Björgvin Andri, f. 22. mars 1994, Davíð Hrafn, f. 7. febrúar 1997, og Guttormur Arnór, f. 21. sept. 2005.

Ung fluttist Sigurlaug til Reykjavíkur þar sem hún starfaði við verslun og þjónustu uns hún gerðist húsmóðir í fullu starfi.

Útför Sigurlaugar verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík, fimmtudaginn 28. júlí 2016, kl 13.00.

Fyrir rúmlega 70 árum gekk fullorðin kona, sem leiddi litla stúlku sér við hönd, að húsi Sigurðar Pálmasonar á Hvammstanga. Stúlkan var með ljósar fléttur sem var brugðið um höfuðið. Hún var búin að missa móður sína og Sigurlaug amma hennar og nafna frá Ási í Vatnsdal, var búin að koma henni í fóstur hjá kaupmannsfjölskyldunni. Þegar hún var 12 ára lést faðir hennar einnig. Sú sára reynsla fylgdi henni alla ævi að hafa misst foreldra sína svona ung.

Sigurlaug var á Hvammstanga til 16 ára aldurs. Hún átti gott með að læra og fósturforeldrar hennar vildu kosta hana til náms. En hún vildi standa á eigin fótum, hélt til Reykjavíkur, fékk sér vinnu og sá um sig sjálf upp frá því. Hún var harðdugleg, vel gefin, skemmtileg og einstaklega orðheppin.

Rúmlega tvítug hitti hún Reimar Snæfells. Þau giftu sig og eignuðust tvö börn. Hún sagði einhvern tíma í gríni að þau hefðu bæði verið svo stríðin að hjónabandið hefði ekki gengið upp. Eftir að þau skildu bakaði Sigurlaug um tíma hafrakex og seldi í búðir til að sjá sér og börnunum farborða. Kvöld eitt fór hún ásamt vinkonu sinni á skemmtistað. Þá settist við borðið hjá þeim maður. Það var Björgvin Vilmundarson, sem Sigurlaug giftist nokkru síðar. Þau eignuðust einn son. Þar sem foreldrar hennar höfðu látist ungir hafði hún mestar áhyggjur af því að henni myndi ekki endast aldur til að sjá yngsta drenginn sinn fermast. Þær áhyggjur reyndust sem betur fer ástæðulausar.

Sigurlaug var af þeirri kynslóð kvenna sem helguðu fjölskyldunni líf sitt og krafta. Hún var myndarleg húsmóðir og hörkukokkur. Þau Björgvin bjuggu lengi í stóru húsi á Hávallagötunni, þar sem hún stjórnaði öllu innanstokks eins og herforingi. Hann kallaði hana SP. Hún las öll blöð og virtist hlusta á allt í útvarpinu. Ef einhver í fjölskyldunni þurfti upplýsingar um eitthvað sem var að gerast, hvort sem það voru úrslit í íþróttaleik, mataruppskriftir eða eitthvað annað, var bara að hringja á Hávallagötuna. Sú sem þar réð ríkjum hafði svörin. Þau Björgvin voru miklir félagar og yfirleitt kom hann heim í mat í hádeginu. Sigurlaug var örlát móðir, tengdamóðir og amma.

Sigurlaug og Björgvin ferðuðust víða um lönd og byggðu sér sumarbústað á Hjalteyri við Eyjafjörð. Hún var litrík kona, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess orðs. Rauður var hennar uppáhaldslitur. Hún átti gott líf en tókst einnig á við ýmsa erfiðleika um dagana. Hún eignaðist margt veraldlegra muna, en kannski var það dýrmætast póstkortið, sem Pétur faðir hennar sendi henni frá útlöndum þegar hún var barn. Hún geymdi það í læstu skattholi og handlék það eins og dýrgrip þegar hún sýndi mér það.

Það var Sigurlaugu mikið áfall þegar Björgvin féll frá langt fyrir aldur fram. Eftir það fór að bera meira á veikindum sem hún hafði átt við að stríða og að lokum fluttist hún á hjúkrunarheimilið Sóltún þar sem hún dvaldist síðustu árin. Ég kveð Sigurlaugu með söknuði og þakklæti fyrir vináttu sem aldrei bar skugga á og sendi ástvinum hennar samúðarkveðjur.

Erna Indriðadóttir.