Bolfiskur Eftir góða þorskveiði í Noregi á fyrstu mánuðum ársins hafa landanir í maí og júní verið í lágmarki enda lítið eftir af kvóta ársins.

Bolfiskur

Eftir góða þorskveiði í Noregi á fyrstu mánuðum ársins hafa landanir í maí og júní verið í lágmarki enda lítið eftir af kvóta ársins. Ufsaveiðin hefði átt að taka kipp frá marsmánuði en hefur valdið nokkrum vonbrigðum þrátt fyrir að nótaveiði í apríl hafi gengið vel. Þegar lítið aflast þá eru það þurrkuðu afurðirnar sem verða ráðandi í útflutningi frá Noregi og einkum þurrkaður og flattur fiskur, sem nefnist klipfisk þar í landi. Portúgal er langstærsti markaðurinn fyrir flattan þorsk frá Noregi og ríflega 65% af útflutningnum fer beint þangað.

Norðmenn hafa rekið öflugt markaðsstarf í Portúgal sem er orðin miðstöð fyrir framhaldsvinnslu og dreifingu fyrir saltaðar og þurrkaðar afurðir frá Noregi líkt og Danmörk er fyrir ferskt og frosið.

Skilaverð fyrir þorsk hafa haldist nokkuð stöðug og hafa hækkað það sem af er ári. Staðan í ufsanum er mun verri. Þar hefur Brasilía verið stærsti markaðurinn í gegnum árin en slæmur efnahagur þar hefur bæði dregið verðið niður og minnkað eftirspurn og veldur það því að í fyrsta sinn í mörg ár er Brasilía ekki stærsti markaðurinn fyrir þurrkaðan ufsa. Dóminíkanska lýðveldið hefur velt Brasilíu af þessum stalli en verð á þeim markaði eru einnig frekar lág. Önnur vandamál, þar á meðal skortur á stórum ufsa í veiðinni og skortur á þurrviðri til að framleiða vöruna í Noregi, hafa einnig haft áhrif og mun stærri hluti ufsaútflutnings frá Noregi er nú heilfrystur ufsi til Kína enda forgangsraða verkendur dýrari afurðum, svo sem þorski, á hjallana þegar sumarveðrið lætur á sér standa.