[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenski taekvondo-maðurinn Meisam Rafiei vann til silfurverðlauna á Háskólaleikum Evrópu sem fram fóru í Rijeka í Króatíu og lauk um síðustu helgi.

Íslenski taekvondo-maðurinn Meisam Rafiei vann til silfurverðlauna á Háskólaleikum Evrópu sem fram fóru í Rijeka í Króatíu og lauk um síðustu helgi. Meisam keppti í -58 kg flokki og sigraði keppinauta frá Frakklandi og Hvíta-Rússlandi en tapaði afar naumlega fyrir Stephan Dimitrov frá Moldóvu í úrslitum. Þeir mættust tvisvar og Dimitrov vann 3:2 í fyrra skiptið og síðan á gullstigi eftir 5:5 jafntefli. Meisam vann til gullverðlauna á þessu sama móti fyrir ári.

Kvennalið ÍBV í knattspyrnu fékk í gær til liðs við sig enska framherjann Abigail Cottam . Hún er 26 ára gömul og kemur frá West Bromwich en hefur einnig spilað með Aston Villa og með bandarísku háskólaliði.

Eyjamenn hafa lánað sóknarmanninn Bjarna Gunnarsson til 1. deildar liðs HK í knattspyrnu út þetta tímabil. Bjarni, sem hefur leikið með ÍBV undanfarin þrjú ár, hefur komið við sögu sem varamaður í sjö leikjum ÍBV í úrvalsdeildinni í sumar og skorað eitt mark, sigurmarkið gegn KR, og tvö bikarmörk að auki. Hann lék með HK í sigrinum á Leikni R. í gærkvöld. Þá hefur 1. deildar lið Fjarðabyggðar fengið markvörðinn Ásgeir Þór Magnússon lánaðan frá Val og hann varði mark liðsins í grannaslagnum við Leikni frá Fáskrúðsfirði í gærkvöld.

Manchester City og Everton eiga í viðræðum um möguleg kaup City á enska landsliðsmiðverðinum John Stones en Everton vill fá 50 milljónir punda fyrir þennan 22 ára gamla leikmann. Everton keypti hann af Barnsley fyrir þremur árum fyrir þrjár milljónir punda. Pep Guardiola , stjóri City, hefur sagt opinberlega að Stones sé miðvörður sem henti fyrir þann leikstíl sem hann ætli að móta hjá liðinu.