Heimkoma Guðmundur Árni Ólafsson.
Heimkoma Guðmundur Árni Ólafsson. — Morgunblaðið/Golli
Hornamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson hefur samið við handknattleiksdeild Hauka. Guðmundur er uppalinn Selfyssingur en lék í tvö tímabil með Haukum áður en hann hélt í atvinnumennsku til Danmerkur.

Hornamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson hefur samið við handknattleiksdeild Hauka. Guðmundur er uppalinn Selfyssingur en lék í tvö tímabil með Haukum áður en hann hélt í atvinnumennsku til Danmerkur.

„Ég hafði samband við Hauka og Selfoss, enda klúbbar sem ég þekki vel. Ég viðurkenni að það kitlaði að koma aftur til Selfoss en þær viðræður gengu ekki upp. Það voru lið bæði í Danmörku og Þýskalandi sem höfðu áhuga en ég fann ekki það sem ég var akkúrat að leita að, þannig að ég ákvað að koma heim.

Guðmundur Árni varð Íslandsmeistari með Haukum árið 2010 og er öllum hnútum kunnugur á Ásvöllum.

„Ég þekki alla þessa stráka mjög vel og ég hef áður unnið með Gunnari Magnússyni (þjálfara Hauka), þegar hann var aðstoðarmaður Arons Kristjánssonar í landsliðinu. Ég er mjög spenntur fyrir tímabilinu.“

Guðmundur segist ekki vera búinn að afskrifa frekari atvinnumennsku í framtíðinni, þrátt fyrir að vera kominn heim í heiðardalinn.

„Það verður bara að koma í ljós. Ef einhver tilboð að utan koma og vekja áhuga, þá mun ég skoða það.“

Haukar eru nú þegar með nokkra frambærilega hægri hornamenn og Guðmundur Árni gerir sér grein fyrir að hann gengur ekki inn í byrjunarliðið án þess að leggja á sig einhverja vinnu. „Ég hef aldrei æft eins og ég eigi eitthvað skilið. Maður er alltaf að horfa upp á við og þróa sinn eigin leik. Ég er ekki kominn til Íslands til að slappa af og hafa það huggulegt í einhverjum bumbubolta.“ bgretarsson@mbl.is