Marel Árni Oddur Þórðarson segist vera ánægður með uppgjörið.
Marel Árni Oddur Þórðarson segist vera ánægður með uppgjörið.
Hátækni Á öðrum ársfjórðungi nam hagnaður Marel 22,1 milljón evra sem jafngildir rúmum 2,9 milljörðum króna.

Hátækni Á öðrum ársfjórðungi nam hagnaður Marel 22,1 milljón evra sem jafngildir rúmum 2,9 milljörðum króna. Hagnaður á hlut var því 3,09 evrusent en á öðrum ársfjórðungi 2015 nam hagnaðurinn 19,5 milljónum evra eða rúmum 2,6 milljörðum króna en það jafngilti 2,71 evrusenti á hlut.

Þá kemur fram í tilkynningu félagsins að mettekjur hafi verið af öðrum ársfjórðungi en þær námu 264,2 milljónum evra eða tæpum 35,3 milljörðum króna. EBITDA á öðrum ársfjórðungi 2016 var 48,4 milljónir evra eða um 6,4 milljarðar króna, sem er 18,3% af tekjum en á öðrum ársfjórðungi 2015 nam hún 47,7 milljónum evra eða um 6,3 milljörðum króna, sem var 18,9% af tekjum.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segist í tilkynningu frá fyrirtækinu vera ánægður með annan ársfjórðung.

„Á síðasta ári sáum við mikinn innri vöxt í tekjum og umtalsverða aukningu í pöntunum hjá Marel MPS, sem Marel lauk við að kaupa í upphafi ársins. Marel eykur verulega umfang og afkomu á fyrri hluta ársins með MPS um borð. Til lengri tíma litið eru horfur Marel mjög góðar en til skemmri tíma litið hefur óvissa í heimsbúskapnum aukist. Marel gerir ráð fyrir hóflegum innri vexti í tekjum og rekstrarhagnaði sameinaðs félags á árinu 2016.“