Vilhjálmur Eyjólfsson fæddist á Hnausum í Meðallandi 5. júní 1923. Hann andaðist á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum 21. júlí 2016. Hann var einkabarn hjónanna Eyjólfs Eyjólfssonar, f. 1889, d. 1983, og Sigurlínar Sigurðardóttur, f. 1891, d. 1985. Þau hjón bjuggu á Hnausum frá árinu 1923 til 1970 er Vilhjálmur tók við búsforráðum, en 1983 fluttust foreldrar Vilhjálms til Reykjavíkur til dvalar á elliheimili.

Vilhjálmur þjáðist af heymæði, sem olli honum erfiðleikum við bústörf. Vann hann því í Reykjavík á veturna á árunum 1958 til 1970, aðallega í fiskvinnslu. Þrátt fyrir heymæðina tók hann við búi á Hnausum árið 1970 en hætti búskap árið 1987. Áfram hélt hann þó heimili á Hnausum fram undir árslok 2014, er hann fór á Hjúkrunar- og dvalarheimilið á Kirkjubæjarklaustri, þar sem hann naut góðrar umönnunar.

Vilhjálmur tók við sem hreppstjóri í Leiðvallahreppi (Meðallandi) af föður sínum, sem hafði gegnt þeirri stöðu frá árinu 1919. Vilhjálmur var hreppstjóri í 19 ár, eða þar til allir hreppar Vestur- Skaftafellssýslu voru sameinaðir í eitt sveitarfélag, Skaftárhrepp, árið 1990. Þá var hann fréttaritari Morgunblaðsins í sinni heimabyggð í yfir 30 ár. Ungur að árum fór Vilhjálmur að leiðbeina ferðamönnum um Meðallandið og víðar. Það var þó ekki fyrr en hann var orðinn sjötugur, að hann öðlaðist réttindi í þeirri grein frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Vilhjálmur var söngmaður góður og söng lengi í kirkjukór sinnar sóknar.

Útför Vilhjálms Eyjólfssonar fer fram frá Langholtskirkju í Meðallandi í dag, 28. júlí 2016, og hefst hún klukkan 14.

Okkur nútímamönnum hættir til að líta nokkuð oft á klukkuna, eins og við væntum þess, að þar með fáum við staðfestingu þess, að við séum til. Auðvitað höfum við ekkert upp úr þessu annað en taugaveiklun, en það er önnur saga. Villi á Hnausum hafði ekki áhyggjur af tímanum, enda var hann ekki nútímamaður, heldur allra tíma maður. Eins og sannur Meðallendingur hafði hann aðeins eitt viðmið á tímann; það voru Skaftáreldar. Öll önnur viðmið voru hégómi.

Hugur Villa hvarflaði víða. Hann var ekki frá því, að fornar minjar ekki langt frá Hnausabænum bentu til byggðar manna þar um slóðir fyrir Krists burð. Fræðimenn voru ekki trúaðir á það – létu sér Landnámu duga. Einhvern veginn hefur mér alltaf þótt sá maður vitrari sem leitar, heldur en hinn, sem telur sig hafa fundið. En nóg um það.

Hugur Villa var síhvikull og frjór. Hann var lífsleitarmaður, bæði innan og handan þessa heims. Og hann var þeirrar náttúru, að öllum sem honum kynntust þótti vænt um hann. Þess naut hann í ellinni, því án nágranna sinna, ekki síst á Lyngum, hefði honum ekki auðnast búsetan á Hnausum jafn lengi og raun ber vitni. Fyrir það var hann þakklátur.

Skaftfellingar eru öðrum mönnum orðvarari. Afgerandi orð eins og „já“ og „nei“ hljóma í þeirra eyrum sem gífuryrði. Líkjast þeir að þessu leyti frændum okkar, Færeyingum. Ég er ekki frá því, að þarna valdi einangrun og óblíð náttúruöfl nokkru um. Stundum, þegar fréttir bárust um fárviðri í Meðallandi, sló ég á þráðinn til Villa, til að vita hvort þakið væri að fjúka af húsi hans. Þá gerðist Villi svo djarfur að taka nokkuð stórt upp í sig með því að segja si svona: „Hann er eitthvað að ganga upp að austan.“ Annað var það nú ekki.

Frá árslokum 2014 dvaldist Villi á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu á Klausturhólum. Þar naut hann þeirrar ástúðar og virðingar starfsfólksins, sem honum bar. Hafi það þakkir fyrir.

Okkur hjónum auðnaðist að heimsækja Villa tveimur dögum áður en hann lést. Það er gott að geta kvatt vini sína áður en þeir leggja í langferðina miklu. Og þar tók staf sinn og mal maður sem vissi hvert hann stefndi og óttaðist ekki. Sé hann kært kvaddur með eftirfarandi ljóði:

Hin hljóða, bjarta sumarnótt

þig sveipar kyrrð og mildri þögn

og regnið fellur ofur rótt

á glugga þinn.

Hver þraut úr vegi vikin er

og sorgir gleymdar, vinur minn,

er gengur þú í tign og ró

til fundar við þinn vinafjöld;

þau falla og rísa

hin dimmu tjöld.

Pjetur Hafstein Lárusson.

Staðreyndin sú að hafa átt Vilhjálm á Hnausum að vini og velunnara um fulla 6 áratugi er einn af dýrmætum ávinningum ævinnar. Ekki gaf betri fulltrúa og fræðara fornrar og nýrrar menningar Meðallands en hann. Síminn var vikulegur tengiliður okkar á löngu árabili og meginumræðan þjóðfræði og löngu horfið mannlíf. Fyrsta koma mín að Hnausum árið 1952 er mér í fersku minni. Vel var mér fagnað af húsbændum og Vilhjálmi syni þeirra, aðeins tvö ár skildu okkur Vilhjálm að í aldri og ég hafði vinninginn. Sigurlín húsfreyja veitti gesti af alúð. Við áttum sameiginlega ættfeður í Jóni Vigfússyni, lögréttumanni í Varmahlíð, og sr. Jóni Steingrímssyni. Eyjólfur hreppstjóri á Hnausum fékk mér þá í hendur kveikjuna að bók minni Listaætt á Austursveitum. Vilhjálmur lagði ýmislegt minnisstætt til mála, mikill á velli, ásjálegur, vel viti borinn og viðræðugóður. Hann var einbirni, borinn til bóndastarfs en heilsubrestur var þar nokkur Þrándur í götu. Hann lærði einn vetur hjá sr. Gísla Brynjólfssyni á Kirkjubæjarklaustri, en notabesta námið var fengið hjá vitrum föður, forsjálli móður og langminnugri ömmu, Agnesi Ingimundardóttur.

Í áföngum stundaði Vilhjálmur störf í Reykjavík en Hnausar var heimilið alla tíð. Þar tók við athöfn bóndans og hreppstjórans. Um langt árabil var Vilhjálmur fréttaritari Morgunblaðsins í „sveitum milli sanda“ og minntist er svo bar undir látinna samferðamanna á síðum þess. Merkir fróðleiksþættir hans hafa birst í héraðsritinu Dynskógum. Rækt Vilhjálms við forna þjóðmenningu var einstök og þakkarverð. Gömul bæjarhús á Hnausum hafa haldist til dagsins í dag fyrir atbeina hans. Eitt þeirra, forna fjósið hans með setpalli og svefnpalli, er ómetanlegt byggingarsögulega séð. Mér og Skógasafni er það mikill heiður að hafa átt þátt í að styrkja Vilhjálm í því björgunarstarfi. Nær leiðarlokum gaf hann Landgræðslu ríkisins höfuðból sitt, Hnausa, með húsum og hlunnindum. Gjöfult og fagurt veiðivatn, Eldvatn, streymir þar með túnfæti. Landgræðslunnar bíður það heiðursverk að virða þegna gjöf og vernda forn hús á Hnausum.

Með Vilhjálmi hverfur einn síðasti og merkasti tengiliður þjóðarinnar við þá menningu sem hér réði landi um aldir. Til hans var jafnan gott að grípa ef eitthvað leitaði svars í grúski gamalla fræða. Raunsæi hans á mannlega tilveru stóð föstum fótum en hann átti einnig sterkt næmi á þá dul er býr bak við tímans tjald. Frændi okkar og vinur, Guðni Sigurðsson á Maríubakka, túlkar þetta vel í tveimur vísuhendingum til Vilhjálms:

Skýr í hugsun, skarpur nóg

Skyggn á dulið sindur

Mér var það gleði í heimsókn að Hnausum sumarið 2014 að skrifa upp eftir Vilhjálmi fagurorta afmælisdrápu hans til frænda míns, Gísla Tómassonar bónda á Melhól, einnig að hafa dregið í dagsins ljós óprentað leikrit samið af Vilhjálmi. Hann „rís ekki þögull frá dísanna borði“. Hjá honum fór saman atgjörvi líkama og sálar. Andlegt samfélag okkar í símtölum eftir að hljóðnaði í húsi á Hnausum var okkur báðum góð og gagnsöm dægrastytting. Bölið mikla að vera sviptur sjón um mörg ár bar Vilhjálmur með reisn, víl var víðsfjarri. Hann prýddi og lífgaði hvern þann mannfögnuð er hann sótti heim, jafnt í samræðu og söng. Bestu söngstundir sínar átti hann í kór Langholtskirkju þar sem fögur bassarödd hans naut sín vel. Listræn söngtafla kirkjunnar, gjöf Vilhjálms, minnir á hann og foreldra hans og á frægasta Meðallendinginn, Kjarval.

Vinir Vilhjálms hljóta að þakka Soffíu og Sigursveini á Lyngum, Kristínu og Guðbrandi á Syðri-Fljótum og starfsliði Kausturhóla fyrir öryggi og umhyggju honum til handa öll hin síðari ár. Vilhjálmur gleymist engum er af honum höfðu kynni. Skarðið eftir hann verður aldrei fyllt.

Þórður Tómasson.

Látinn er í hárri elli Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum. Vilhjálmur var hreppstjóri í Meðallandi eins og verið hafði Eyjólfur faðir hans. Vilhjálmur var glæsilegur á velli, hávaxinn og bar sig vel eins frændi hans, Jóhannes Kjarval, og prýddur mannviti og manngæsku. Vilhjálmur var fulltrúi þess besta í íslenskri menningu og minnti á fjölfræðinga fornaldar. Það var sama hvar borið var niður, jarðfræði, ættfræði, landafræði, sagnfræði, sögum af hinu yfirskilvitlega og dularfullum fyrirbærum. Hann var sagnabrunnur ómetanlegur og kunni sögu liðinna kynslóða, óskráðar sögur kunni hann aftur fyrir Skaftárelda 1783. Það voru dýrmætar stundir að sitja við fótskör sagnameistarans Vilhjálms og hlýða á hann ræða Kötlugos og Kötluhlaup. Það voru sögur um frönsku skúturnar, spítalaskipin og togarana, sem strönduðu í Meðallandi, sögur frá fyrstu hendi því að hinir sjóhröktu skipbrotsmenn bjuggu á Hnausum á heimili Vilhjálms oft svo vikum skipti. Og þar voru sögur af skrímslum, skottum og mórum. Hann kom í veg fyrir að bústaðir huldufólks væru skemmdir með framkvæmdum við veiðihús við Eldvatnið og átti huldufólk að vinum.

Á Hnausum var vel hugsað um bæjarhrafnana. Þeir voru tveir og sagði Vilhjálmur að þeir hefðu orðið mjög elskir að móður hans Sigurlínu Sigurðardóttur sem færði þeim margt góðgætið. Þegar hún var úti við flugu þeir með henni til fylgdar og þegar hún var orðin léleg til gangs og gekk við staf úti nær blind þá gekk annar þeirra á undan henni og hinn á eftir.

Vilhjálmur hafði brennandi áhuga á sögu, setti fram byltingarkenndar kenningar og reyndi að hraða rannsóknum þannig að menn öðluðust nýja þekkingu. Ég kynntist honum þannig að að hann kom í heimsókn til mín ásamt frænda sínum Ingimundi Stefánssyni, kennara mínum og fjölskylduvini í Bolungarvík. Tilgangurinn var að ræða rústir á Hnausum. Sumar þeirra í Hvannakeldurofi höfðu komið í ljós þegar Eldvatnið breytti um farveg og skolaði ofan af þeim margra mannhæða þykku sandlagi sem þær höfðu einhvern tímann í fornöld grafist undir í Kötluhlaupi. Það var trú Vilhjálms að þetta væri ævaforn byggð mun eldri en norrænt landnám. Þar hafði Ingimundur fundið brot af keri sem send voru Þjóðminjasafni. Margar vísbendingar eru um að kenningar Vilhjálms um forna byggð í Meðallandi séu réttar, sem tíminn muni leiða í ljós. Nokkra leiðangra fórum við saman ásamt góðu fólki og skoðuðum þennan stað og ávallt var notið gestrisni og höfðingsskapar hins aldna höfðingja á Hnausum.

Vilhjálmur var stórtækur í gjöfum sínum og gaf nú síðast fyrir andlát sitt Landgræðslu ríkisins jörðina Hnausa og veiðihlunnindin í Eldvatninu. Hugmyndir höfðu verið ræddar um að koma upp rannsóknarsetri í náttúrufræði, sagnfræði og stað fyrir rithöfunda í Hnausabænum til minningar um hann og foreldra hans. Vonandi er að nýir eigendur beri gæfu til að forðast græðgisvæðinguna og nýti þessa góðu gjöf til góðra verka í anda Vilhjálms Eyjólfssonar.

Þorvaldur Friðriksson.

Villa kynntist ég ung að árum en varla þó viðræðuhæf fyrir bernsku sakir. Síðan var það þegar við fjölskyldan fluttumst í Hveragerði fyrir 18 árum að kynni okkar Villa tóku að endurnýjast. Hér hafði hann oft komið við, en nokkuð var um að Vestur-Skaftfellingar hefðu sest hér að í gegnum tíðina, en síðustu árin hafði hann notið gistivináttu hjá vinum sínum, Birni lækni og Guðbjörgu, konu hans. Einhvern veginn atvikaðist það þannig að frænkan náði að „lokka“ Villa til að koma líka til sín og upphófust þá hin ánægjulegustu kynni við vini og vandamenn.

Þegar Villi kom við var ætíð reynt að fara í heimsókn eða fá einhvern í heimsókn. Sveinn Skúlason í Bræðratungu var einn þeirra en feður þeirra Villa höfðu verið saman í Flensborg í upphafi 20. aldar – með í för var þá jafnan Páll Lýðsson, hreppstjóri í Sandvíkurhreppi, mikill vinur Sveins. Heimsóknir þessar voru Villa mikið ánægjuefni sem og hinna sem fengu að njóta.

Svo varð það að venju á tímabili að kalla á sameiginlegt frændfólk þegar Villi kom. Systkini hér í Hveragerði, barnabörn Árnýjar Eiríksdóttur: Alli (Aðalsteinn), Dóra (Halldóra) og Bagga (Sigurbjörg) Steindórsbörn og makar þeirra sem lifðu. Árný var hálfsystir Ingimundar og Eyjólfs, sem við Villi röktum okkur til. Margt var skrafað og mikið hlegið í þessum heimsóknum. Eins og fyrr tók fólkið upp á því að týnast til forfeðranna.

Eftir var þá Kjartan sægreifi Halldórsson frá Syðri-Steinsmýri. Það var fallegt að sjá hversu innilega honum þótti vænt um vin sinn Villa og samsveitung. Hann dó fyrir aldur fram í upphafi síðastliðins árs. Þá var Villi kominn á Klausturhóla. Nú hefur hann kvatt síðastur af þessum hópi fólks, sem leitast var við að hitta er hann kom við hjá okkur hér í Hveragerði.

Ég er þakklát fyrir að hafa náð að kveðja Villa tveimur dögum áður en hann kvaddi. Augljóst var að við vissum bæði að þetta væri hinsta kveðja. Minning hans lifir og að því kemur að við heilsumst á ný.

Ingibjörg Ólafsdóttir.

Á bakka Eldvatns í Meðallandi bjó Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum. Við fljótið kynntist ég honum árið 1983. Ég var nýfluttur í Ása í Skaftártungu og Vilhjálmur hafði samband og spurði hvort ég kynni að veiða. Hann vildi kynna mér dásemdir Eldvatnsins. Svo ók ég í morgunsólinni í hlað á Hnausum þar sem tíminn er lygn. Í asaleysi var sest við eldhúsborðið og Vilhjálmur byrjaði að fræða um hraunið, sem blasti við út um eldhúsgluggann, sandöldur og mýrar Meðallands, Kötlu, gossögu ofurfjallanna og svo kryddaði hann náttúrufræðina með nokkrum mergjuðum draugasögum. Á þessum tíma fræða og furðu urðum við Vilhjálmur vinir. Hann erfði ekki við mig að ég gat ekki hugsað mér að drekka koníak kl. 8 að morgni. En svo fórum við að veiða og Vilhjálmur sannfærði mig um að Eldvatnsbirtingurinn væri eitt af undrum heimsins.

Eftir upphafskynnin kom Vilhjálmur og húsvitjaði reglulega. Svo voru heimsóknir hans endurgoldnar. Vináttan var ræktuð og samgangur hélst þótt fjölskyldan flytti í aðra landsfjórðunga. Þar sem Vilhjálmur kom til nokkurra daga dvalar gat ég fylgst með því sem hann vann að. Honum var í mun að varðveita fróðleik, munnmæli, sögur, atburði og hóf skriftir á fullorðinsaldri. Meðal þess, sem Vilhjálmur setti á blað, voru minningar Einars Einarssonar djákna. Vilhjálmur kom efninu á blöð sem hann setti í mínar hendur til að slá inn og koma á tölvutækt form. Ég varð því ritari Vilhjálms og fékk innsýn ekki aðeins í heim djáknans heldur líka Hnausabóndans, vinar míns. Ritsmíðin var prentuð í héraðsritinu Dynskógum.

Vilhjálmur Eyjólfsson var andlega og fræðilega fangvíður. Hann var víðlesinn fjölfræðingur og því gefandi að ræða álitamál við hann. Alla ævi íhugaði hann skaftfellska náttúru og sögu og miðlaði til þeirra sem vildu við taka. Einu gilti hvort rætt var um jarðfræði, guðfræði, heimspeki, landafræði, líffræði, dulræn efni eða kirkjusögu. Eldfjallafræði var honum sérlega hugleikin, en einnig byggðasaga, landamerkjamál, verndun fiskjar og ábyrg nýting. Svo sá Vilhjálmur fleira en við hin og í sumu einnig lengra. Í þeim efnum var ekki komið að tómum kofum. Veröld Villa á Hnausum var stór. Hann lifði lífinu í fagurri lotningu gagnvart undri veraldar. Hann var gjöfull samfylgdarmaður.

Fyrir hönd barna minna og fjölskyldu þakka ég vináttu, fræðslu, umhyggju og elskusemi Vilhjálms á Hnausum. Guð geymi hann í lygnu eilífðar.

Sigurður Árni Þórðarson.

Sem krakki komst ég í sveit að Hnausum. Það var eitt af mínum stóru lánum í lífinu. Þarna kynntist ég dásamlegu fólki sem miðlaði mér af visku sinni og kenndi mér að vinna. Í sjö ár dvaldist ég hjá þeim öll sumur og í páskaleyfum því hvergi var betra að vera. Ég kom heim að hausti og tilkynnti mömmu hversu mikill óþarfi rafmagnið væri. Á Hnausum var vel hægt að komast af án þess. Nú eru þau öll horfin. Ég get ekki annað en þakkað fyrir mig. Án ykkar væri ég ekki sú manneskja sem ég er í dag. Blessuð sé minning Villa og foreldra hans, Línu og Eyjólfs. Kveðja.

Þuríður Pétursdóttir.

Kær vinur, félagi og velgjörðarmaður Landgræðslunnar er látinn, en bjartar minningar um elskulegan mann munu lifa áfram í huga mínum. Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samskipta okkar Vilhjálms eða Villa eins hann var jafnan nefndur. Ég kynntist honum fyrst á seinni hluta sjötta áratugar síðustu aldar, er ég var í sveit á bænum Strönd í Meðallandi. Villi var þar jafnan aufúsugestur og mér er minnisstætt þegar ég kom að Hnausum til foreldra hans, hreppstjórahjónanna Eyjólfs Eyjólfssonar og Sigurlínu Sigurðardóttur. Þar var afskaplega vel tekið á móti gestum, eins og alla tíð á meðan Villa auðnaðist heilsa til að búa á Hnausum.

Foksandur ógnaði jörðinni á fyrri hluta síðustu aldar og afhenti þá Eyjólfur Sandgræðslu Íslands hluta Hnausa og Hólmalands til sandgræðslu. Villa þótti vænt um Hnausa og á efri árum sínum afhenti hann Landgræðslunni alla jörðina, ásamt hluta af Skarðslandi og Hólmalandi til eignar og varðveislu, ásamt bæjarhúsum og innbúi. Einstök fjósbaðstofa, smiðja og stofuhús eru háð lagaákvæðum húsafriðunar. Villi lagði oftar en einu sinni fjármuni til að viðhalda og lagfæra þessar fágætu fornminjar á jörðinni í samstarfi við vin sinn Þórð Tómasson á Skógum. Fjósbaðstofan þarfnast nú viðhalds og einnig bíða uppgræðsluverkefni á jörðinni, sem brýnt er að takast á við.

Villi var einstaklega sögufróður maður, hafsjór af fróðleik og kunni öllum öðrum betur skil á sögu sveitarinnar, mönnum og málefnum. Sem betur fer auðnaðist undirrituðum að láta skrá talsvert af umfangsmikilli þekkingu hans á nær gjöreyðingu sveitarinnar af völdum sandfoksins og breytingum á vatnafari sem ógnaði byggðinni. Það var einstök upplifun að njóta leiðsagnar hans um fornminjar á bænum og ótrúlegt minni hans var óbrigðult fram á síðasta dag.

Hann var ljúfmenni og dagfarsprúður, og það var mér heiður að fá að eiga við hann samskipti. Frá honum stafaði innri hlýja og alltaf lærði ég eitthvað í hvert skipti sem mér auðnaðist að heimsækja hann. Það voru forréttindi að kynnast honum og minningin um góðan dreng lifir. Að leiðarlokum er mér efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu og heilladrjúgt samstarf og samskipti sem aldrei bar skugga á.

Ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Ég bið þeim Guðs blessunar og votta þeim mína dýpstu samúð. Megi almættið, sem leiðir okkur og alla þá er hjarta þitt sló fyrir, leiða þig í sólina kæri vinur.

Sveinn Runólfsson.

Það verður að segjast að fátæklegri er frændgarðurinn eftir fráfall Villa frænda á Hnausum. Nú eru nokkur ár síðan ég og pabbi settum undir okkur fót og buðum okkur í heimsókn að Hnausum og tókum smá hring í Meðallandinu. Reyndar var upprunalega hugmyndin að draga Pál móðurbróður minn sérstaklega í þá ferð en hann hrökk úr skaftinu á síðustu stundu. Mamma Páls og Vilhjálms voru hálfsystur, samfeðra, og Páll fór iðulega í skreppitúra í Meðallandið hér á árum áður enda þeir miklir mátar og félagar alla tíð, báðir ókvæntir og barnlausir. Þeir náfrændur vissu ávallt vel hvor af öðrum þó heimsóknir væru stopular hin síðari ár, enda báðir farnir að reskjast.

Við feðgarnir drógum þó ekki árar í bát og komum að Hnausum um hádegi. Þar sauð þríhlutað veturgamalt læri í potti, smjör á borði eins og hver vildi og brauð ef hitt myndi ekki duga. Það var greinilegt að Villi var með á hreinu hvað Páll frændi hans kunni að meta en því nú verr vantaði aðal manninn upp í þríeykið. Áttum við feðgar dagsspjall við Vilhjálm um heima og geima og ég get ekki ímyndað mér þann sem hefur komið að tómum kofunum hjá honum þegar fjallað var um sagnir og sögur. Það sem mér finnst einna fróðlegast og merkilegast var hversu víðlesinn hann var og rökfastur gagnvart landnámi fyrir Landnám. Svo sem ekkert skrítið, hann bjó ofan á einu slíku og sagði að þó smiðjan væri gömul þá væri það sem er undir henni enn eldra.

Nú eru þeir náfrændur gengnir á vit feðranna og sameinaðir á ný og okkar hinna að taka við keflinu í hinni eilífu keppni við Elli kerlingu.

Sindri Karl Sigurðsson.